Framkvæmdir ganga vel

Framkvæmdir Grundarheimilanna hafa gengið vel í vetur.  Lokið er byggingu á nýjum matsal í Ási og breytingar á eldri matsal og eldhúsi eru mjög langt á veg komnar.  Hönnun og smíði matsalarins hefur tekist með miklum ágætum.  Salurinn er bjartur og rúmgóður auk þess sem hljóðvist er til mikillar fyrirmyndar.  Þar er hægt að sitja og borða, spjalla við vinnufélaga og hlusta á fréttir án þess að nokkuð trufli.  Óvenjulega góðar aðstæður.  Og útsýnið út í garð til suðurs er dásamlegt, stórir gluggar og mikil birta.

Á Grund eru breytingar á A2 á lokametrunum og verður vonandi hægt að taka eininguna í notkun á næstu dögum.  Til eru orðin sex eins manns herbergi, hvert með sér baðherbergi í stað þeirra 10 herbergja sem áður voru á ganginum.  Og þá voru engin einkabaðherbergi.  Þetta er nútíminn og framtíðin.  Óljóst er hversu hratt bráðnauðsynlegar breytingar sem þessar eru mögulegar á Grund og í Ási og liggur það fyrst og fremst í miklum kostnaði.  Þvergirðingur ríkisins að greiða okkur sanngjarna húsaleigu fyrir þessa 14 þúsund fermetra sem við leggjum til öldrunar- og hjúkrunarþjónustu, að hluta til án þess að fá greiddan sannanlegan kostnað við rekstur húsnæðisins, kemur í veg fyrir að við getum breytt húsnæðinu með þeim hætti og á þann hraða sem við kjósum helst.  Það segir sig sjálft að þetta fyrirkomulag gengur ekki til lengdar.

Nú er verið að undirbúa breytingar á inngöngum á Grund og Litlu Grund ásamt því að merkja húsin.  Einnig verður komið fyrir sorpskýli þar sem núverandi ljóti ruslagámurinn stendur í dag.  Reikna með að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir sumarið.  Þá á eingöngu eftir að skipta um um það bil 30 glugga á Grund við Hringbraut af þeim verkefnum sem við fengum styrk til árið 2020 úr Framkvæmdasjóði aldraðra.   Það er mjög stórt verkefni sem hefur verið unnið að nær árlega í all mörg ár.  Þrátt fyrir það eru nokkur ár í að því verki ljúki.  Það eru margir gluggar á Grund.  Allir þessir gluggar eru smíðaðir á trésmíðaverkstæði okkar í Ási í Hveragerði af okkar flinku smiðum og svo settir í af verktaka.

Allar þessar framkvæmdir gera líf heimilis- og starfsmanna Grundarheimilanna léttara og betra.  En það er mikið eftir þannig að ég kvíði ekki verkefnaleysi næstu árin.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna