Gylfanefndin

Á haustdögum skipaði heilbrigðisráðherra nefnd undir formennsku Gylfa Magnússonar háskólaprófessors.  Tilurð nefndarinnar er samkomulag á milli Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Sjúkratrygginga Íslands og Sambands sveitarfélaga um að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila.  Í nefndinni eiga fulltrúa auk Gylfa formanns, fulltrúi frá framangreindum þremur aðilum auk fulltrúa heilbrigðisráðuneytis.  Ég sit í nefndinni fyrir hönd SFV.

Með greiningu raungagna er átt við meðal annars að greina kostnað vegna kröfulýsingar fyrir hjúkrunar- og dvalarrými frá árinu 2016, sundurgreina raunkostnað á mismunandi þáttum þjónustunnar, kanna áhrif mismunandi hjúkrunarþyngdar á rekstrarkostnaðinn, skoða stærðir hjúkrunarheimila og áhrif stærðar á rekstrarkostnað ásamt fleiri atriðum.

Greining sem þessi er mikilvæg til þess að reyna að átta sig á raunverulegum rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og sjá hvort og þá hversu mikið vantar upp á til að endar nái saman.  KPMG var falið að vinna fyrirspurnargögn sem voru send til allra hjúkrunarheimila landsins og svo í framhaldi af skilum þeirra, að vinna úr þeim gögnum.  Skila niðurstöðu til nefndarinnar góðu, sem tekur þær svo til skoðunar og leggur svo væntanlega eitthvað skynsamlegt til að fengnum niðurstöðunum.

Allir þeir stjórnmálamenn sem ég hef rætt við undanfarin misseri hafa nefnt sérstaklega mikilvægi þessarar nefndar og að út úr vinnu hennar komi gögn sem hægt verður að nota til að ákvarða daggjöld og eftir atvikum aðrar tekjur hjúkrunarheimila á næsta ári og til framtíðar.  Ég bind sömu vonir og stjórnmálamennirnir.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna