Í dag verður tekið fyrir í Hæstarétti málshöfðun Gundarheimilanna og Hrafnistu gegn ríkinu til greiðslu húsaleigu. Við höfum þegar tapað málinu í héraðsdómi og fyrir Landsrétti en Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir. Sem er í sjálfu sér gott fyrsta skref í að við vonandi höfum sigur að lokum. Ég er þó mátulega bjartsýnn.
Málið snýst um að fyrir húsnæði Grundar og Áss sem er nýtt undir öldrunarþjónustu hefur ríkið neitað að greiða húsaleigu, um það bil 15.000 fermetrar. Í rúmlega 15 ár höfum við reynt að fá ríkið til að greiða sanngjarna leigu án árangurs. Það var því árið 2016 sem við ákváðum að höfða mál á hendur ríkinu, sem eins og áður segir við höfum tapað í tvígang. Fer ekki djúpt í röksemd fyrir þeim dómum en má til með að nefna eina röksemd; að þar sem að við á Grund höfum fengið gjafafé og Hrafnista haft arð af happadrætti, þá sé það í raun í lagi að nýta húsnæðið (allan sólarhringinn, allan ársins hring) af hálfu ríkisins án leigugreiðslna. Það væri svona svipað og ef einhver einstaklingur út í bæ fengi hús í arf frá foreldrum sínum, að þá gæti ríkið nýtt húsnæðið til almannaþjónustu af því að hann hefði ekki þurft að borga fyrir það.
Á sama tíma og ríkið neitar að greiða húsaleigu þá rukkar það einstaka sveitarfélög fyrir afnot þeirra af húsnæði í eigu ríkisins sem sveitarfélagið notar til að veita öldrunarþjónustu. Öldrunarþjónustu sem ríkisvaldið hefur sett lög um að það (ríkisvaldið) skuli veita. Það húsnæði höfum við öll í sameiningu greitt fyrir með sköttunum okkar. Hef á tilfinningunni að jafnræði aðila sé ekki að fullu virt.
Þar sem við höfum þegar tapað málinu tvisvar finnst mér líklegra en ekki að við töpum í þriðja skiptið. En maður veit aldrei. Fari svo ólíklega að við vinnum, þá munu Grundarheimilin hafa úr talsverðu fjármagni að moða við endurbætur húsnæðisins við Hringbrautina og í Hveragerði. Fari aftur svo að við töpum málinu endanlega, þurfum við líklega að endurskoða not húsnæðisins. Það gengur ekki til lengdar að fá ekki greidda húsaleigu til að halda húsnæðinu við og endurbæta það eftir því sem kröfur nútímans segja til um.
Krosslegg fingur.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna