Jákvæðar fréttir úr Ási

Í janúarbyrjun fékk ég gleðitíðindi af væntanlegri byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Ási.  Tölvupóst frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, þar sem fram kemur að fjórir aðilar hafa áhuga á að hanna og byggja nýtt 22 rúma hjúkrunarheimili gegnt því gamla, norðan megin við Hverahlíðina.  Fyrri hluta síðasta árs fékkst enginn til verksins þannig að umskiptin eru mikil og því ber að fagna.

Þessir aðilar fá til ráðstöfunar, ef þannig má að orði komast, ákveðna fjárhæð til að hanna, byggja og skila fullbúnu framangreindu heimili í takt við þá skilalýsingu sem fyrir liggur.  Þær hugmyndir sem þessir fjórir skila, verða síðan rýndar af dómnefnd sem velur þá tillögu sem þykir vera best.

Tímaáætlunin hljóðar upp á skil á þessu nýja fína húsi þann 11. mars árið 2025.  Finnst það heldur bjartsýnt en á sama tíma vona ég svo sannanlega að þetta gangi eftir.  Við höfum beðið heldur lengi eftir þessu nýja húsi og það er löngu tímabært að það rísi.

Í beinu framhaldi af byggingu nýja heimilisins munum við taka það gamla í gegn.  Tveggja manna herbergin verða aflögð og úr þeim útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi.  Með þessum breytingum fækkar rýmum á móti þeim nýju og þegar upp verður staðið vænti ég þess að fjöldi hjúkrunarrýma í Ási verði á pari við það sem verið hefur undanfarin ár.

Með þessum línum þakka ég hinu opinbera, ríki og Hveragerðisbæ, kærlega fyrir að standa að þessari framkvæmd með þessum hætti.  Ríkið greiðir 85% og Hveragerðisbær 15%.  Sú mikla bót á húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins í Ási er löngu tímabær og verður fagnað með bros á vör og sól í hjarta.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna