Kaffi Grund formlega vígt

Guðrún B. Gísladóttir, varaformaður stjórnar Grundar, klippir hér á borða ásamt heimilismanninum Eir…
Guðrún B. Gísladóttir, varaformaður stjórnar Grundar, klippir hér á borða ásamt heimilismanninum Eiríki Jónssyni. Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundar, aðstoðar.
Í vikunni var kaffihúsið Kaffi Grund formlega vígt.
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að aðstaða til að hittast og spjalla á Grund hafi verið ágæt en verði með þessari viðbót framúrskarandi góð. Það að eiga samskipti við annað fólk er einn mikilvægasti þáttur í góðri heilsu hvers og eins.
„Okkur á Grund finnst hafa tekist feikn vel til með þessa aðstöðu, bæði inni og úti og kemur hún til með að gagnast heimilisfólki, aðstandendum þeirra, starfsmönnum og öðrum gestum um ókomna tíð.
Þó að við séum að vígja þessa fallegu aðstöðu í dag er þannig málum háttað að við getum ekki hafið rekstur kaffihússins strax. Að fá rekstrarleyfi fyrir svona tiltölulega hógværri starfsemi er meira en að segja það. Við höfum um all langt skeið unnið að því að afla viðeigandi leyfa en þau eru því miður ekki komin í hús.
Til að byrja með verður því aðstaðan einungis opin heimilisfólki og aðstandendum þeirra og boðið verður upp á kaffi og kleinur. ☕Vonandi styttist í að við getum opnað kaffihúsið og selt veitingar og þá eru nágrannar okkar í Vesturbænum líka hjartanlega velkomnir.“
Fljótlega í undirbúningsferlinu var ákveðið að fá listaverk í garðinn sem gestir kaffihússins gætu notið. Helgi Gíslason myndhöggvari tók verkið að sér og tengist listaverkið vatni og stendur við kaffihúsið í lítilli tjörn. Minningarsjóður Grundar greiddi fyrir verkið og vill þannig minnast allra þeirra heimilismanna sem dvalið hafa á Grund í 102 ár.
Hönnun var í höndum ASK arkitekta og hönnun garðsins og umhverfis í höndum Landslags.
Kjartan Örn Júlíusson tók myndir við þetta tækifæri.