Stefnt er að því að hefja í vor framkvæmdir við laufskála/kaffihús við Grund á Hringbraut. „Vonandi tekst okkur að opna kaffihúsið öðrum hvorum megin við áramótin næstu,“ segir Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna í samtali við Morgunblaðið í gær, mánudag.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Um er að ræða 112 fermetra hús og 520 fermetra lóðarfrágang. Kostnaðaráætlun
er rúmlega 150 milljónir króna. Laufskálinn verður sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni með yfirbyggðum gangi. Þarna verður kaffihús fyrir heimilisfólk og aðstandendur, leiksvæði fyrir börnin og hægt að opna út á verönd og sitja þar í sólinni. Í umsókn ASK-arkitekta til borgarinnar kemur fram að laufskálinn/ garðskálinn og útivistarsvæði séu hugsuð sem dvalarsvæði fyrir íbúa Grundar, þar sem þeir geti tekið á móti gestum í skjólsælu og sólríku umhverfi. Leiksvæði, gönguleiðir og dvalarsvæði uppfylli skilyrði um aðgengi fyrir alla. Þá geti viðburðir farið þarna fram, eins og tónleikar. Hönnun lóðarinnar er unnin af Landslagi ehf.