Kippum plástrinum af í hvelli

Við þekkjum öll tilfinninguna að rífa af okkur plástur.  Sérstaklega þegar við vorum yngri, þá hræddumst við, sum hver í það minnsta, að rífa af okkur plásturinn.  Og gerðum það hægt og varlega.  Stundum féllst maður á beiðni foreldranna um að gera það hratt, það var vissulega verra en stóð yfir í mun styttri tíma.  Það er síðan huglægt mat hvers og eins að vega og meta kosti og galla, hvorrar aðferðar fyrir sig, mikill sársauki í stuttan tíma eða lítill sársauki í langan tíma.

Þó að þetta eigi ekki beina tilvísun í yfirstandandi tilslakanir sóttvarna á vegum ríkisvaldsins,  þá finnt mér engu að síður að þetta eigi pínu samleið.  Í fyrstu virtust stjórnvöld ætla að rífa plásturinn hægt og rólega af, en mér sýnist verulegur þrýstingur vera á þau að kippa honum snögglega af sárinu.  Því fylgja kostir og gallar, eins og flestu í okkar lífi.  Eðli máls samkvæmt verða fleiri smit, fleiri forfallaðir til vinnu, fleiri leggjast inn á LSH í einu og svo framvegis ef tilslakanir verða hraðar.  En þetta mun líklega standa mun skemur yfir.  Mjög svo umtalað hjarðónæmi mun nást á skemmri tíma og þar með verður þessi andstyggðar veira, covid 19, svo gott sem úr leik í þjóðfélaginu. 

Við eigum engu að síður eftir að eiga við eftirköst hennar um all nokkurt skeið.  Heilbrigðisþjónustan á eftir að jafna sig, vinna upp biðlista sem voru nú margir hverjir alltof langir fyrir veiruna, atvinnulíf og þá sérstaklega ferðaþjónustan á eftir að ná jafnvægi og svo mætti lengi telja.

Fyrir okkur sem rekum hjúkrunarheimili skiptir miklu máli að þessari baráttu ljúki sem fyrst.  Snögg afrifa plástursins mun vissulega valda okkur meiri vandræðum en ella, en til mun skemmri tíma.  Nú þegar hafa all nokkrir heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna sýkst af covid 19 en hinir „eiga það eftir“ ef þannig má að orði komast.  Og á nokkrum einingum Grundarheimilanna er ástandið talsvert alvarlegt, bæði veikindi heimilis- og starfsmanna og þar af leiðandi erfitt að manna vaktir eins og nauðsyn krefur.  Engu að síður tel ég að orðatiltækið „illu er best aflokið“ eigi bara ágætlega við í þessu efni.  Eflaust eru einhverjir heimilismenn, aðstandendur þeirra, starfsmenn og stjórnendur Grundarheimilanna ekki sammála mér með þetta, en það er líka bara allt í góðu.  Skoðanaskipti eru af hinu góða.

Kipppum plástrinum af í hvelli.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna