Þessa dagana er hægt að kjósa um ýmis verkefni á vegum borgarinnar. Borgaryfirvöld bjóða íbúum að koma tillögur að betra umhverfi. Einn íbúi íbúðanna við Suðurlandsbrautina kom með þá snilldartillögu að útbúinn verði almenningsgarður á svæðinu norðan Suðurlandsbrautarinnar á móts við íbúðir við 58 – 62 og hjúkrunarheimilið. Garðurinn yrði aðgengilegur öllum, bæði gangandi, í hjólastólum og þeim sem á einhvern hátt annan eiga erfitt með að fara um og nota til þess ýmiskonar hjálpartæki. Þetta svæði, ef af verður, kæmi til með að nýtast öllum íbúum íbúðanna og hjúkrunarheimilisins, starfsmanna, aðstandenda og annarra gesta.
Til þess að auka möguleika þess að þetta verði að veruleika þurfum við að kjósa um málið á www.hverfidmitt.is og geta allir fæddir 2006 og fyrr tekið þátt. Allir kjósendur borgarinnar hafa atkvæðisrétt óháð búsetu en ef þú kýst í öðru hverfi en þú býrð í, þá máttu ekki kjósa annars staðar. Það þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða íslykli í lokin til að skila gildu atkvæði. Það er hægt að stjörnumerkja atkvæðið sitt og gefa því þannig tvöfalt vægi. Áhugasemir geta fengið aðstoð hjá Guðrúnu Birnu á skrifstofu GM og ÍEB að Suðurlandsbraut 64 á mánudag og þriðjudag.
Þetta er mjög jákvætt mál og hvet ég alla til að kynna sér málið og ef ykkur líst á, að greiða því ykkar atkvæði.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna