Krosstré sem önnur
Fyrsta færanlega samskiptatækið mitt í vinnunni fyrir um það bil 30 árum var símboði. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var þetta lítið tæki sem sendi manni símanúmer sem maður svo hringdi í þegar maður komst í síma. Bylting. Þá fékk ég mér NMT síma í bílinn nokkrum árum síðar, mikill hlunkur en skipti ekki máli þar sem tækið var í bílnum. Hægt að hringja úr bílnum. Önnur bylting. Þá fékk ég mér farsíma fyrir líklega um 20 árum, og þá hægt að hringja hvar sem maður var, svo framarlega sem það væri símasamband. Þriðja byltingin. Svo komu fram á sjónarsviðið fyrir um það bil áratug snjallsímar. Í raun litlar tölvur og símtæki, hægt að hringja, skoða alnetið, afgreiða tölvupóst og margt fleira. Fjórða byltingin. Sem ég hef þrjóskast við að taka í notkun.
Mótþróinn við að fá mér snjallsíma hefur byggst fyrst og fremst á því að ég hef viljað forðast að vera alltaf í vinnunni. Fá tölvupóstinn í símann er eitur í mínum beinum. Og vera beintengdur alnetinu er líka eitthvað sem hefur ekki heillað mig. Ég er fíkill, laus við brennivínið og á það til að vinna aðeins of mikið, eða kannski á röngum tíma sólarhringsins. Og þess vegna hef ég ekki fengið mér svona fínan snjallsíma hingað til. Fékk mér á síðasta ári Noka 105 takkasíma hjá Nova, 5.900 kr. Sumir hafa sagt við mig að það sé hægt að stilla þessi fínu snjallsímatæki þannig að þau taki ekki á móti tölvupóstum og þess háttar, en slíkt virkar ekki fyrir fíkilinn.
Um daginn fékk ég talsvert áfall. Var í björgunarsveitarútkalli og þau byggjast öll á upplýsingum í og úr snjallsímum. Og öppum tengdum þeim. Ég snjallsímalaus, hugsanlega að missa af því að bjarga fólki úr lífsháska, af því að ég var svo þrjóskur að fá mér ekki snjallsíma. Þess utan var ég farinn að senda hina og þessa til að taka fyrir mig myndir og senda mér, útvega upplýsingar í gegnum snjallsímana þeirra og þannig mætti lengi telja. Einnig lagt ýmislegt á mig til að fá senda til mín tölvupósta með óhefðbundnum hætti til að geta sinnt vinnu minni sómasamlega. Og þó ég sé frekar þrjóskur, þá er ég ekkert mjög illa gefinn. Hef stýrt mínu lífi á þann veg að hámarka eigin not og gæði og lifa þannig lífinu lifandi. Hagfræðinámið kenndi mér þetta og hefur kannski alltaf verið þannig á bak við annað eyrað. Nú er svo komið að ég tel hag mínum, og reyndar fleiri í kringum mig, betur borgið með því að ná mér fljótlega í snjallsíma og nota hann í starfi og leik um ókomna tíð.
Hef þó enn mikinn vara á því að ánetjast ekki alfarið slíku tæki með hangsi á alnetinu, facebook og þess háttar þegar maður hefur lausa stund. En eitt síðasta vígi gamla góða takkasímans er fallið 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna