Mjög stór áfangi í Ási

Í Fréttablaðinu síðastliðna helgi auglýstu Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið og Hveragerðisbær eftir umsóknum byggingaraðila (aðalverktökum) um þátttökurétt í lokuðu alútboði á fullnaðarhönnun og byggingu 22 rýma hjúkrunarheimilis í Hveragerði.  Þar með er tikkað í stórt box á langri vegferð sem hófst með undirbúningsvinnu Glámu Kím arkitekta í ársbyrjun 2018 þegar ég fór af stað með málið.  Fékk frá þeim tillögur og gögn, stjórn Grundar samþykkir síðan í febrúar ári síðar að sækja um leyfi til verksins til heilbrigðisráðuneytis með aðkomu Hveragerðisbæjar.

Málið hefur síðan þá mallað í gegnum hið opinbera kerfi á þokkalegum hraða sem hefur svo skilað sér í þessari ánægjulegu niðurstöðu.  Á þessu ári verður sem sagt valinn verktaki og vonandi hefst bygging nýja hússins í byrjun næsta árs, það skýrist þó betur þegar líður á árið.  Ætli verklok verði ekki að tveimur til þremur árum liðnum.

Nýja húsið verður norðan megin við núverandi hjúkrunarheimili og þetta verður mikil breyting á allri aðstöðu hjúkrunarrýma í Ási.  Í beinu framhaldi af því að nýja byggingin verði tekin í notkun, munum við síðan breyta þeim níu tvíbýlum sem eru í gamla hjúkrunarheimilinu í eins manns herbergi, hvert með sitt baðherbergi.  Þannig verður öllum í því húsi tryggt einbýli með sér baðherbergi, eitthvað sem er sjálfsögð krafa nútímans.

Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið að vinnslu þessa mikilvæga máls, opinberir embættismenn ríkis og Hveragerðisbæjar, stjórnmálamenn á sveitarfélaga- og landsvísu, mínir góðu samstarfsmenn í Ási ásamt fjölmörgum öðrum.  Hafið hugheilar þakkir öll sömul fyrir ykkar góðu störf.  Þetta nýja glæsilega hús verður vitnisburður ykkar góðu verka um ókomna tíð.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna