Í morgun samþykkti stjórn Grundarheimilanna að ráða Karl Óttar Einarsson sem nýjan forstjóra Grundarheimilanna frá og með 1. maí næstkomandi. Karl Óttar hefur unnið hjá Grundarheimilunum frá júní 2011. Fyrst sem bókari til ársins 2016, síðan fjármálastjóri og frá árinu 2019 hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistargráðu í reikningshaldi og endurskoðun. Hann er kvæntur Halldóru M. Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Á sama fundi var samþykkt að ráða undirritaðan í 50% starf stjórnarformanns Grundarheimilanna og tekur sú ráðning einnig gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Ég er þar af leiðandi langt í frá hættur störfum fyrir Grundarheimilin enda þótt ég færi mig úr forstjórastólnum. Í þessu nýja hlutverki fæ ég kærkomið tækifæri til þess að einbeita mér að framtíðinni, skoða stór uppbyggingarverkefni og þróa þau í samstarfi við einkaaðila sem opinbera eftir því sem við á. Ég mun einnig sinna samskiptum við ríkisvaldið, ráðherra og ráðuneyti, þingmenn, borgar- og bæjarfulltrúa, Sjúkratryggingar Íslands og fleiri. Þá mun ég taka þátt í nefndarstörfum á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og opinberra aðila, til dæmis um húsnæðismál hjúkrunarheimila.
Ég hef starfað hjá Grundarheimilunum í tæplega 33 ár, frá mánudeginum 17. september 1990. Þetta hefur verið feikn skemmtilegur og á oft á tíðum annasamur tími. Bygging hjúkrunarheimilis í Ási í Hveragerði, stofnun og bygging hins tæknivædda þvottahúss í Ási sem þjónustar öll Grundarheimilin og uppbygging metnaðarfulla eldhússins okkar á sömu slóðum, sem m.a. sendir daglega heitar máltíðir og annan kost til Reykjavíkur, er á meðal þeirra verkefna sem við getum verið stolt af. Kaup okkar og bygging á íbúðum í Mörkinni auk reksturs á hjúkrunarheimili á sama stað stendur einnig upp úr. Fjölmörg önnur góð og brýn verkefni koma upp í hugann en of langt mál er að telja þau upp hér. Auðvitað var svo hundrað ára afmælið í fyrra merkur áfangi sem aldrei mun gleymast.
Ég hef kynnst og unnið með mörgum skemmtilegum, duglegum og kraftmiklum einstaklingum. Til að mismuna ekki eða gleyma einhverjum verður enginn nafngreindur hér en ég er afar þakklátur öllum þeim fjölda samstarfsmanna sem hafa farið með mér í gegnum ólgusjó síðustu þriggja áratuga. Þar hafa margir mjög góðir samherjar lagt hönd á plóg með afbragðs fagmennsku og endalausa þrautseigju í farteskinu.
Ég hef verið að velta þessum hlutverkaskiptum mínum fyrir mér í allnokkur ár og ekki síst eftir að ég festi sjónar á þeim möguleika fyrir margt löngu að Karl Óttar hefði allt það til að bera sem gæti gert hann að góðum forstjóra Grundarheimilanna. Ég sá það reyndar býsna fljótt og ráðning hans á sér því langan aðdraganda.
Til viðbótar við störf stjórnarformanns hyggst ég taka að mér einhver allt önnur störf innan Grundarheimilanna en ég hef sinnt hingað til. Þeim mun ég sinna í frítíma mínum frá stjórnarformennskunni og til þess að það sé alveg á hreinu mun ég þiggja laun fyrir þau störf samkvæmt þeim launatöxtum sem í gildi eru fyrir þá vinnu.
Með lækkuðu starfshlutfalli gefst mér svo kærkominn tími til að sinna ýmsu öðru en vinnunni. Einhverjir í svipuðum sporum og mínum myndu nota tækifærið og nefna samveru með fjölskyldu, en ég ætla að vera heiðarlegur. Fleiri og kannski lengri skotveiðidagar koma fyrst upp í hugann. Ef til vill einhverjir auka golfhringir. Lestur góðra bóka. Langir göngutúrar. En þess utan eyði ég talsverðum tíma, finnst mér alla vega, með fjölskyldunni og þá sérstaklega Öldu eiginkonu minni og á því verður engin breyting. Að minnsta kosti ekki ef ég fæ að ráða. Tel reyndar líklegt að þeim góðu stundum með Öldu og stórum hópi barna, barnabarna og tengdabarna eigi eftir að fjölga frekar en hitt eftir þessa breytingu.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, verðandi stjórnarformaður Grundarheimilanna