Nýtt ár handan við hornið

Enn eitt skemmtilegt, viðburðar- og árangursríkt árið er rétt að renna sitt skeið.  Tvennt stendur upp úr í mínum huga.  Aldarafmæli Grundar og lok Covid 19 tímabilsins.  Þó er óhætt að segja að við erum ekki alveg laus við Covid 19, heldur er það orðið hluti af okkar daglega lífi og ekki nauðsynlegt, í það minnsta ekki eins og er, að tækla smitin af þeirri hörku sem leiddu af sér einangrun heimilismanna og vanlíðanar þeirra, aðstandenda og ekki síður starfsfólks Grundarheimilanna.

Ég hef í fyrri pistlum fjallað um Covid 19, aðgerðir okkar, afleiðingar og læt þar við sitja í bili.  Eflaust koma einhverjir aðrir slíkir sjúkdómar aftur sem gera okkur skráveifu, og þá tökum við á því eins og við þekkjum best til.

Hitt atriðið sem ég nefndi hér að framan er 100 ára afmæli Grundar.  Ég er afskaplega stoltur og ánægður með hvernig til tókst að minnast þessara merku tímamóta.  Það hefur þó líklega ekki hvarflað að langafa mínum Sigurbirni og hans samstarfsmönnum fyrir rúmum hundrað árum að Grund sé og hafi verið sá mikli máttarstólpi í öldrunarþjónustu landsins og raun ber vitni.  Grund var fyrstu rúma þrjá áratugina eina alvöru öldrunarstofnun landsins og eftir að Hrafnista tekur til starfa á sjötta áratugnum þá hafa þessi tvö heimili verið tvö  þau stærstu í öldrunarbransa landsins.

Það er vandaverk að halda áfram á þeirri góðu braut sem forfeður mínir mörkuðu og auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem þeir höfðu hælana.  Framundan eru bjartir tímar og tímar mikilla áskorana í öldrunarþjónustu.  Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að neytendum öldrunarþjónustu kemur til með að fjölga verulega á næstu árum og áratugum, eitthvað sem margir aðrir atvinnuvegir búa ekki við.

Með pistli þessum vil ég nota tækifærið og þakka heimilisfólki Grundarheimilanna fyrir þrautseigju í Covid 19 faraldri og skilning aðstandenda á þeim aðgerðum sem við gripum til vegna faraldursins.  Sérstakar þakkir færi ég öllu starfsfólki Grundarheimilanna fyrir það framúrskarandi góða starf sem þið hafið innt af hendi undir þeim mjög svo erfiðu kringumstæðum sem faraldur síðustu rúmlega tveggja ára hefur valdið okkur.  Þið eruð ómetanleg.

 

Kveðja og gleðilegt nýtt ár,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna