Samskipti

Í flóknu umhverfi reynir oft á samskiptin og samskiptahæfnina. Það eru allskonar tilfinningar í spilinu þegar að kemur að umönnun ástvina okkar og ljóst að við getum ýmist verið sátt eða ósátt með margt sem að þar fer fram. Eitt er alveg ljóst að lang flestir þeirra sem að vinna þessi störf, gera það eftir sinni allra bestu getu og leggja sig margir fram um að gera þetta eins og þeir sjálfir myndu kjósa. Mikið heyri ég af samverustundum og uppbroti sem að einstaka starfsmenn eða hópur starfsmanna tekur sig saman um að gera og engar starfslýsingar komast yfir að lýsa. Ég verð alltaf ákaflega stoltur af samstarfsfólki mínu þegar að ég heyri slíkar sögur. Tökum okkur saman og verum dugleg að hrósa og þakka fyrir dagleg störf þessa frábæra fólks sem að starfar of oft í vanþakklátum störfum.

 

Þegar að hlutirnir eru hins vegar, að okkar mati, ekki eins og þeir eiga  að vera er rétt að beina þeim ábendingum til stjórnenda því að okkar er ábyrgðin. Eru upplýsingar nógu aðgengilegar? Eru þær nógu skýrar? Vita starfsmenn hvers er ætlast? Er skipulagið að virka? Þegar að eitthvað af þessu er að klikka þá þarf að skoða þessa hluti og það er í höndum okkar stjórnenda. Því miður gerist það stundum að við fáum fregnir af því að almennir starfsmenn fái yfir sig skammir og öskur að þeirra mati og það er ekki undir neinum kringumstæðum ásættanlegt. Við sýnum því fullan skilning að þetta er allt saman mjög flókið og allskonar tilfinningar í spilinu. Upplifun er líka ólík milli aðila og getur verið að sá sem að er talinn vera að öskra á einhvern upplifi það ekki þannig. Ég vil því endilega hvetja alla sem að hafa einhverjar umkvartanir að koma með þær endilega til deildarstjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra eða forstjóra, eftir atvikum. Ég er tilbúinn í spjall hvenær sem er.

 

Einnig bendi ég á að á heimasíðu heimilanna (www.grundarheimilin.is) er að finna ábendingarhnapp sem að má gjarnan nota til að koma ábendingum til okkar.

 

Sem sagt, vöndum samskiptin, hrósum þegar að við sjáum tilefni til við hvern sem er, ábendingar, ósætti og kvartanir skulu berast þeim sem að hafa ábyrgð og völd til að bregðast við þeim.

 

 

Kveðja og góða helgi

Karl Óttar Einarsson

Forstjóri Grundarheimilanna