Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (þá heilbrigðisþjónustu) voru stofnuð þann 24. apríl 2002. Fyrir rétt rúmlega 20 árum. Þessara tímamóta var minnst síðastliðinn þriðjudag með stuttu málþingi um framtíð velferðarþjónustunnar þar sem heilbrigðisráðherra var með ávarp og í framhaldi þrjú erindi um málefnið frá mismunandi sjónarhornum.
SFH, eins og það hét í upphafi, átti uppruna sinn í Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu en það félag var í upphafi félag æðstu stjórnenda í öldrunarþjónustu. Þegar leið nær aldamótum hafði bæst verulega mikið af millistjórnendum í FSÍÖ. Þannig var í raun búið að „þynna“ út félagið og forstjórar og framkvæmdastjórar heimilanna leituðu sér að nýjum samstarfsvettvangi. Sem endaði svo með stofnun hinna nýju samtaka og hafa eingöngu átt aðild að því æðstu stjórnendur hjúkrunarheimila og svo æðstu stjórnendur nokkurra annarra fyrirtækja og félaga sem veita velferðarþjónustu. Má þar meðal annars nefna SÁÁ, Krabbameinsfélagið og Reykjalund.
Markmið samtakanna hefur alla tíð verið fyrst og fremst að sinna hagsmunagæslu og koma fram fyrir aðildarfélögin gagnvart hinu opinbera ásamt því að sjá um gerð kjarasamninga við stéttarfélög. Upphaflega var enginn starfsmaður hjá samtökunum en fyrir um það bil átta árum, minnir mig, var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn, Eybjörg Helga Hauksdóttir lögfræðingur. Það var mikið gæfuspor fyrir samtökin og efldust þau jafnt og þétt undir styrkri stjórn hennar. Hún lét af störfum í fyrra og í hennar stað var ráðinn Sigurjón Norberg Kjærnested verkfræðingur. Annað gæfuspor. Auk hans starfa í dag hjá samtökunum tveir lögfræðingar, þær Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir og Heiða Vignisdóttir. Þær sinna margvíslegum verkefnum fyrir samtökin og gera það mjög vel.
Eins og fyrr segir hafa samtökin eflst og dafnað þessa tvo áratugi. Til að byrja með vissu mjög fáir hver samtökin voru en í dag er tekið mark á því sem þau senda frá sér, leitað til þeirra af opinberum aðilum og þau taka virkan þátt í umræðunni um velferðarmál þjóðarinnar.
Innilega til hamingju með árin 20 með ósk um áframhaldandi árangur fyrir hönd aðildarfélaganna í hverju því verkefni sem við er að glíma.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna