Sjúkraþjálfun á Grundarheimilunum

Á Grundarheimilunum erum við með starfandi sjúkraþjálfara og íþróttafræðinga. Þær Guðrún Geststdóttir og María Guðnadóttir eru sjúkraþjálfara starfandi annars vegar á Grund og hinsvegar í Mörk. Í nokkurn tíma núna hefur okkur vantað sjúkraþjálfara í Ási en það stendur heldur betur til bóta því um mánaðarmótin er væntanleg til starfa Christina Finke. Býð ég hana velkomna til starfa og hlakka til að sjá líf færast í starfsaðstöðu sjúkraþjálfunar í Ási eftir nokkurt hlé. Guðrún og María segja hér að neðan frá starfsemi sjúkraþjálfunar á Grund og í Mörk.

Markmið sjúkraþjálfunar er að viðhalda og/eða auka virkni, hreyfifærni og göngugetu heimilismanna og stuðla þannig að aukinni sjálfsbjargargetu og vellíðan, bæði andlegri og líkamlegri.  Einnig að finna leiðir til varnar byltum, kreppumyndun og myndun þrýstingssára. Sjúkraþjálfari og íþróttafræðingar vinna saman að þjálfun heimilisfólks Grundarheimilanna.  

Heimilisfólki býðst að mæta í þjálfun 2-3x í viku eða eftir samkomulagi, ýmist í æfingasal eða á heimili þess.   Sjúkraþjálfari metur alla íbúa með tilliti til líkamlegrar færni og setur upp einstaklingsmiðaða æfingaáætlun í samráði við íþróttafræðinga og íbúann sjálfan.  Áherslur í þjálfun eru á styrkjandi og liðkandi æfingar, göngu- og jafnvægisæfingar, auk úthaldsaukandi æfinga, allt eftir þörfum og áhuga hvers og eins.  Sjúkraþjálfari veitir verkjameðferð eftir þörfum í þverfaglegri samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir, sinnir endurhæfingu eftir slys og veikindi, metur þörf fyrir og útvegar spelkur, hjólastóla og göngugrindur og er tengiliður við stoðtækjafyrirtækin varðandi viðhald og viðgerðir á þeim. Að auki fræðir sjúkraþjálfari starfsmenn og leiðbeinir um góðar vinnustellingar til að forðast álagsmeiðsli. 

Íþróttafræðingar stýra sitjandi hóptímum 1-2x í viku á hverri deild þar sem áherslan er fyrst og fremst á styrkjandi og liðkandi æfingar 

 

 

Kveðja og góða helgi,

Karl Óttar Einarsson

Forstjóri Grundarheimilanna