Stjórnarformanni þakkað

Á stjórnarfundi Grundarheimilanna fyrir viku lét Jóhann J. Ólafsson stjórnarformaður af embætti sínu.  Jóhann hefur gegnt embætti stjórnarformanns í tæp tuttugu ár og staðið sig mjög vel.

Jóhann hefur alla tíð lagt mikla áherslu á stefnumótun og mikilvægi þess að horfa fram í tímann, bæði langt og stutt.  Hann stóð fyrir og mótaði okkar árlegu, og stundum tvisvar á ári, stefnumótunarfundi þar sem litið er til framtíðar, spáð og spekúlerað, ásamt því að líta í baksýnisspegilinn til að læra af því sem áður var gert.  Nýjar hugmyndir, hugsa út fyrir boxið og horfa á hlutina út frá viðskiptahagsmunum hafa einnig verið góðu kostir Jóhanns í stjórn Grundar sem hafa oft á tíðum komið heimilunum mjög vel.

Við Jóhann höfum ekki alltaf verið sammála, sem betur fer.  Mismunandi skoðanir gefa kost á rökræðum, velta fyrir sér kostum og göllum hvers máls fyrir sig og við höfum ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu, jafnvel niðurstöðu sem hvorugur okkar sá við upphaf rökræðna.  Með þannig mönnum finnst mér gott að vinna.

Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég Jóhanni kærlega fyrir afar gott og farsælt samstarf og óska honum velfarnaðar.

 

Allt hefur sinn tíma.  Þessi pistill er sá síðasti sem ég sendi ykkur sem forstjóri Grundarheimilanna og þakka ég ykkur kærlega fyrir samfylgdina, lesturinn og mörg áhugaverð svör í gegnum árin.  Ég hef lært af ykkur og fengið góðar og uppbyggilegar athugasemdir í gegnum tíðina.

 

Kveðja og góða framtíð,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna