Í síðustu viku héldum við á Grundarheimilunum upp á 100 ára afmæli Grundar sem var þann 29. október. Með margskonar viðburðum í þeirri viku en auk þess höfðum við til dæmis boðið heimilismönnum upp á tónleika með Guðrúnu Gunnars, Jögvan Hansen og Siggu Beinteins og gefið öllum starfsmönnum heimilanna þriggja vandaða flíspeysu frá 66° norður. Þá erum við þessa dagana að færa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna 100 ára sögu heimilisins sem Guðbjörg Guðmundsdóttir starfsmaður á skrifstofu ritaði.
Í sjálfri afmælisvikunni voru haldin kaffisamsæti með heimilisfólkinu sem bauð aðstandenda með sér í boðið. Reyndar boðið upp á heitt súkkulaði, ekki kaffi. Og dýrindis bakkelsi með rjóma og tilheyrandi. Ég náði að flytja stutt ávarp í öllum boðunum, alls 18 sinnum. Þetta voru skemmtilegar og hátíðlegar samkomur. Allir brosandi, ánægðir og þakklátir fyrir að við skyldum halda upp á afmælið með þessum hætti.
Á sjálfan afmælisdaginn, síðastliðinn laugardag, var boð á Grund fyrir boðsgesti. Afar vel heppnað, góð mæting, fínar og mátulega langar ræður og góður andi meðal gestanna. Fengum góðar gjafir, styttu, málverk, umtalsverða peningagjöf, söngskemmtun fyrir heimilismenn og blómvendi. Og um kvöldið var svo öllum starfsmönnum boðið til glæsilegrar árshátíðar og mættu tæplega 600 manns. Það var svo gaman að sjá og upplifa gleði, þakklæti og stuð í mannskapnum.
Með pistli þessum vil ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu stórkostlega afmæli okkar, bæði með vönduðum undirbúningi sínum og ekki síður þeim sem heimsóttu okkur í kaffiboðin, laugardagsboðið og djömmuðu með okkur á árshátíðinni. Einnig hjartans þakkir fyrir allar góðar gjafir og hlý orð í okkar garð, sem hafa verið fjölmörg undanfarið, bæði í tölvupósti, símtölum, við hitting og í raun við hvaða tækifæri sem gafst.
Ég hefði aldrei trúað því að þetta yrði svona skemmtileg og fjölbreytt afmælisvika. Vissulega búið að undirbúa hana vel en ég var ekki alveg rólegur vikuna þar á undan. Óþarfa áhyggjur og svefnleysi til dæmis vegna þess að ég hélt kannski að við kæmumst ekki öll fyrir í hátíðarsalnum í boðinu á laugardeginum. Sá þann dag að það var þvílík þvæla í mér.
Takk fyrir okkur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna