Um nokkurn tíma hefur rekstur Grundarheimilanna þyngst. Skýringuna má að mestu finna í fækkun heimilisfólks, meðal annars vegna breytinga á húsnæði og vegna þess að rýmin henta síður veikara fólki sem fjölgar ört. Á síðustu árum hefur heimilisfólki í Ási fækkað um 25 og á Grund um 13 (auk tímabundinnar fækkunar vegna framkvæmda). Rekstrarkostnaður ýmissar stoðþjónustu hefur ekki lækkað í sama hlutfalli og þar með geta heimilin ekki staðið undir honum til framtíðar að óbreyttu. Því þarf að ráðast í mjög þungbærar en nauðsynlegar skipulagsbreytingar.
Þessar aðgerðir snerta því miður 38 störf bæði með beinum uppsögnum sem og nokkrum tímabundnum ráðningum sem að ekki verða endurnýjaðar. Öll laun og réttindi eru tryggð og verða greidd út í samræmi við reglur kjarasamninga.
Skipulagsbreytingarnar eru eftirfarandi:
1. Þvottahús Grundarheimilanna í Hveragerði verður lagt niður og leitað til einkaaðila við þvott á líni og einkafatnaði.
2. Ræstingardeild í Ási verður lögð niður og þjónustan keypt annars staðar frá.
3. Verkstjórum í fasteignaviðhaldi í Ási verður fækkað um einn. Einn verkstjóri verður þar með með trésmíðaverkstæði og útideild, í stað tveggja áður.
4. Dregið verður úr umfangi garðyrkjustöðvar. Einn starfsmaður verður í fullu starfi við að sinna viðhaldi garða heimilanna með aðstoðarfólki yfir sumartímann. Ræktun í garðyrkjustöð dregst því saman eða hættir jafnvel alveg.
5. Starf vinnuskýrslufulltrúa á mannauðsdeild verður lagt niður.
6. Stöðum iðnaðarmanna á Grund fækkar um eina.
Aðgerðirnar munu ekki hafa bein áhrif á umönnun og þjónustu við heimilisfólk til lengri tíma. Engar frekari uppsagnir eru fyrirhugaðar.
Uppsagnir eru ávallt erfiðar. Starfsfólk Grundarheimilanna á skilið þá virðingu að tilkynning um starfslok berist þeim með eðlilegum hætti, með viðeigandi útskýringum og tækifæri á samtali okkar á milli. Ég harma þess vegna mjög að í aðdraganda þessara þungbæru aðgerða hafi ótímabærar og ónákvæmar upplýsingar borist starfsfólki áður en slíkt tækifæri gafst.
Þeim sem að missa vinnuna býðst aðstoð við atvinnuleit. Einnig er þeim boðið upp á stuðning fagfólks sem og samstarfsfólki.
Samtalsfundir með starfsfólki verða haldnir á hverju heimili til að ræða þessar breytingar frekar og þar gefst tækifæri til að spyrja og fá svör.
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna