Undanfarnar vikur höfum við á Grundarheimilunum verið að taka upp Workplace sem er samskiptaforrit tengt Facebook en stendur algjörlega sjálfstætt. Helsta hlutverk WP er að með forritinu fæst sameiginlegur vettvangur allra starfsmanna Grundarheimilanna.. Þar að auki er hægt að vera með sérstakar síður fyrir hverja og eina einingu, deild, heimili og svo framvegis þar sem hægt er að koma margvíslegum upplýsingum á framfæri, til dæmis varðandi aukavaktir, óskum um skipti á vöktum og svo framvegis. Þá er WP einnig tilvalið til að skipuleggja og tilkynna skemmtanir og viðburði og ná þannig að þjappa hópum saman.
Forritið virkar eins og Facebook sem flestir þekkja og kemur í staðinn fyrir þær Facebook síður sem deildirnar og heimilin hafa notast við hingað til og í stað hefðbundinna tölvupóstsamskipta. Undirritaður forstjóri mun þó væntanlega áfram notast fyrst og fremst við tölvupóstinn varðandi dagleg samskipti og afgreiðslu ýmissa mála. Þess ber þó að geta að ég gat, reyndar með góðri aðstoð Írisar mannauðsstjóra, sett mynd af mér inn á prófílinn minn á WP, geri aðrir betur 😊
WP einfaldar aðgengi að ýmsum hagnýtum upplýsingum, til dæmis nýliðafræðslunni, starfsmannahandbókum og öðrum verklagsreglum. Það allt saman má finna undir Knowledge library.
Innleiðing hefur gengið misjafnlega undanfarnar vikur en ég er viss um að notkun forritsins verður vel þess virði. Vonandi verður starfsfólk tengdara og lifir sig meira sem hluta af heild. Fyrsti viðburðurinn á WP verður næsta laugardag. Auðvitað viljum við helst hittast í raunheimum en á meðan ástandið er eins og það er í samfélaginu, þá er þessi vettvangur tilvalinn til að eiga saman skemmtilega kvöldstund. Notum WP og njótum laugardagskvöldsins saman.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna