Fréttir

Vinir í sviðaveislu

Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni

Breytingar við stjórnvöl Grundarheimilanna

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.

Nýr forstjóri Grundarheimilanna

Í morgun samþykkti stjórn Grundarheimilanna að ráða Karl Óttar Einarsson sem nýjan forstjóra Grundarheimilanna frá og með 1. maí næstkomandi. Karl Óttar hefur unnið hjá Grundarheimilunum frá júní 2011. Fyrst sem bókari til ársins 2016, síðan fjármálastjóri og frá árinu 2019 hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistargráðu í reikningshaldi og endurskoðun. Hann er kvæntur Halldóru M. Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Á sama fundi var samþykkt að ráða undirritaðan í 50% starf stjórnarformanns Grundarheimilanna og tekur sú ráðning einnig gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Ég er þar af leiðandi langt í frá hættur störfum fyrir Grundarheimilin enda þótt ég færi mig úr forstjórastólnum. Í þessu nýja hlutverki fæ ég kærkomið tækifæri til þess að einbeita mér að framtíðinni, skoða stór uppbyggingarverkefni og þróa þau í samstarfi við einkaaðila sem opinbera eftir því sem við á. Ég mun einnig sinna samskiptum við ríkisvaldið, ráðherra og ráðuneyti, þingmenn, borgar- og bæjarfulltrúa, Sjúkratryggingar Íslands og fleiri. Þá mun ég taka þátt í nefndarstörfum á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og opinberra aðila, til dæmis um húsnæðismál hjúkrunarheimila. Ég hef starfað hjá Grundarheimilunum í tæplega 33 ár, frá mánudeginum 17. september 1990. Þetta hefur verið feikn skemmtilegur og á oft á tíðum annasamur tími. Bygging hjúkrunarheimilis í Ási í Hveragerði, stofnun og bygging hins tæknivædda þvottahúss í Ási sem þjónustar öll Grundarheimilin og uppbygging metnaðarfulla eldhússins okkar á sömu slóðum, sem m.a. sendir daglega heitar máltíðir og annan kost til Reykjavíkur, er á meðal þeirra verkefna sem við getum verið stolt af. Kaup okkar og bygging á íbúðum í Mörkinni auk reksturs á hjúkrunarheimili á sama stað stendur einnig upp úr. Fjölmörg önnur góð og brýn verkefni koma upp í hugann en of langt mál er að telja þau upp hér. Auðvitað var svo hundrað ára afmælið í fyrra merkur áfangi sem aldrei mun gleymast. Ég hef kynnst og unnið með mörgum skemmtilegum, duglegum og kraftmiklum einstaklingum. Til að mismuna ekki eða gleyma einhverjum verður enginn nafngreindur hér en ég er afar þakklátur öllum þeim fjölda samstarfsmanna sem hafa farið með mér í gegnum ólgusjó síðustu þriggja áratuga. Þar hafa margir mjög góðir samherjar lagt hönd á plóg með afbragðs fagmennsku og endalausa þrautseigju í farteskinu. Ég hef verið að velta þessum hlutverkaskiptum mínum fyrir mér í allnokkur ár og ekki síst eftir að ég festi sjónar á þeim möguleika fyrir margt löngu að Karl Óttar hefði allt það til að bera sem gæti gert hann að góðum forstjóra Grundarheimilanna. Ég sá það reyndar býsna fljótt og ráðning hans á sér því langan aðdraganda. Til viðbótar við störf stjórnarformanns hyggst ég taka að mér einhver allt önnur störf innan Grundarheimilanna en ég hef sinnt hingað til. Þeim mun ég sinna í frítíma mínum frá stjórnarformennskunni og til þess að það sé alveg á hreinu mun ég þiggja laun fyrir þau störf samkvæmt þeim launatöxtum sem í gildi eru fyrir þá vinnu. Með lækkuðu starfshlutfalli gefst mér svo kærkominn tími til að sinna ýmsu öðru en vinnunni. Einhverjir í svipuðum sporum og mínum myndu nota tækifærið og nefna samveru með fjölskyldu, en ég ætla að vera heiðarlegur. Fleiri og kannski lengri skotveiðidagar koma fyrst upp í hugann. Ef til vill einhverjir auka golfhringir. Lestur góðra bóka. Langir göngutúrar. En þess utan eyði ég talsverðum tíma, finnst mér alla vega, með fjölskyldunni og þá sérstaklega Öldu eiginkonu minni og á því verður engin breyting. Að minnsta kosti ekki ef ég fæ að ráða. Tel reyndar líklegt að þeim góðu stundum með Öldu og stórum hópi barna, barnabarna og tengdabarna eigi eftir að fjölga frekar en hitt eftir þessa breytingu. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, verðandi stjórnarformaður Grundarheimilanna

Bakar 1.200 pönnukökur með kaffinu

Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.

Samningur um þjónustu Landspítala

Mörk hjúkrunarheimili og LSH hafa gert með sér samning um aðstoð við geðeiningar Markar. Er það geðsvið Landspítala sem veitir þjónustuna sem lýtur að markvíslegri fræðslu og ráðgjöf. Á myndinni undirrita Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og Nanna Briem forstöðumaður geðheilbrigðisþjónustu Landspítala samninginn, sem gildir í þrjú ár.

Ball með Geirmundi Valtýs vakti lukku

Það var svo sannarlega stuð í Mörk þegar hinn eini sanni Geirmundur Valtýsson kom og skemmti heimilisfólkinu okkar. Það var ekki hægt að sitja kyrr og hlusta því stuðið var svo mikið svo margir þustu út á gólf og tóku nokkur spor. Takk kærlega fyrir komuna og frábæra skemmtun.

Frábært að fá ungmennin í heimsókn

Ár hvert þegar peysufatadagurinn er haldinn hátíðlegur hjá Kvennaskólanum streyma til okkar á Grund prúðbúin ungmennin og gleðja heimilisfólk og starfsfólk með söng og gleði. Takk fyrir heimsóknina, þið eruð skólanum ykkar til mikils sóma.

Heimilispósturinn - apríl 2023

Söngsveitin 12 hélt tónleika

Laugardaginn 11. mars var Söngsveitin 12 í takt með tónleika í hátíðasal Grundar. Tónleikarnir tókust vel og heimilisfólk söng með af innlifun. Þess má til gamans geta að einn úr sönghópnum, Magnús Halldórsson, er sonur Brandísar Steingrímsdóttur heimiliskonu á Grund.

Enn af snjallsímum

Á fjölmennum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram, bæði hjá heimilismönnum, aðstandendum og all mörgum starfsmönnum að snjallsímanotkun starfsmanna á vinnutíma væri of mikil. Alltof mikil á köflum. Og að við yrðum að bregðast við þessu með einhverjum skýrum hætti. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Margar hugmyndir komu fram. Banna alveg notkun þessara tækja, takmarka notkun þeirra með einhverjum hætti eða reyna að stýra notkun þeirra þannig að vel sé. Allt tiltölulega erfið markmið að mínu mati og eins og er þá sé ég enga hagstæða lausn. Í málum sem þessum er oft gott að leita eftir sjónarmiðum annarra. Hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og nota það sem gengur vel. Með pistli þessum óska ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig skynsamlegast væri að leysa þessa ofnotkun á snjallsímum í vinnutíma. Veit vel að það er mitt hlutverk og annarra góðra starfsmanna Grundarheimilanna að finna lausnir sem þessar en ég spyr engu að síður. Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki svör og ef til vill leynist góð lausn einhvers úti hjá ykkur. Efast reyndar ekki um það, þetta vandamál er víðast hvar annars staðar. Verstu hugmyndirnar/tillögurnar eru þær sem koma aldrei fram. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna