Fréttir

Gleðileg jól

Jólakveðja

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða. Hér eru myndir sem voru teknar á jólaballinu þann 15. desember. Skjóða kom í heimsókn og sagði jólasögu. Jólasveinabræður hennar komu líka og glöddu börnin með smá glaðning. Það var svo dansað í kringum jólatré og sungið dátt.

Blessuð skatan

Í dag lykta mörg hús landsmanna ansi illa. Þar á meðal eldhús og borðsalir Grundarheimilanna. Auk skötu verður boðið upp á saltfisk þannig að það finna vonandi allir eitthvað við sitt hæfi. Hef einnig heyrt utan af mér að einhvers staðar verði hægt að næla sé í flatbökubita. Sel það ekki dýrara en ég keypti. Þegar við Alda tókum saman fyrir tæpum 13 árum hafði ég aldrei smakkað skötu. Datt það aldrei í hug, þvílík ólykt af þessum mat, sem væri eflaust mikið skemmdur. Þrátt fyrir áskoranir þess efnis að prófa og að bragðið væri allt annað en lyktin þá fékk ég mér aldrei bita af skötu. En þar sem Alda var vön skötu frá blautu barnsbeini þá fékk hún mig til að smakka, bara einu sinni. Og viti menn, ég kolféll fyrir bragðinu. Sé meira að segja pínu eftir því að hafa ekki smakkað fyrr, þvílíkt lostæti sem vel kæst skata er. Ég er mikill gráðostamaður og þegar ég prófaði skötuna í fyrsta sinn fannst mér eins og ég væri að borða heitan gráðost. Það eru ef til vill ekki allir sammála mér með þessa gráðostalýsingu en mér finnst hún eiga vel við. Ég hlakka alltaf mikið til Þorláksmessu að fá mér rjúkandi heita skötu, kartöflur og íslenskt smjör (já ég veit að ég er ekki kominn ennþá í hnoðmörinn) seinni part dags ásamt malti og appelsíni. Borða alveg á mig gat og finna um kvöldið hvernig smá hluti af skinninu innan á kinnunum flagnar lítillega af. Dásamlegt. Alda hafði aldrei prófað rjúpur áður en við tókum saman. Hún prófaði þær á aðfangadagskvöld og líkar mjög vel. Þannig að við lærðum nýjar matarvenjur af hvort öðru um jólahátíðina og græddum bæði helling á því. Verði ykkur að góðu í skötunni og rjúpunum, eða hverju öðru því sem þið snæðið um jólahátíðina. Kveðja og gleðileg jól, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Svona á þetta að vera

Það er jólakósý þennan morguninn. Sígilda jólamyndin HOME ALONE og makkarónur og súkkulaði. Hversu nettur morgun?

Hvað ungur nemur

Þessir menn tóku daginn snemma með skák. Magnús Þór 8 ára, sonur Thelmu iðjuþjálfa, kíkti við og lék skák við Björn í Glaumbæ á 2. hæðinni. Þá tók Doddi íþróttafræðingur við og þá var það hraðskák, takk fyrir.

Tjúttað við jólatóna

Grundarbandið kom nýlega til okkar og lék fyrir dansi. Það er alltaf gaman þegar þau gleðja okkur með dúndrandi stuði og notalegri nærveru. Heimilisfólk og starfsfólk hrífst með og svífur um hátíðarsalinn í ljúfum dansi.

Tónakvöld íbúa í Kaffi Mörk

Föstudaginn 9. desember komu íbúar saman í Tónakvöldi í Kaffi Mörk. Jazzkvartett söngkonunnar Steingerðar Þorgilsdóttur kom og flutti ljúfa tóna við góðar undirtektir. Léttar veitingar og drykkir voru á boðstólnum. Viljum við þakka Steingerði og Jazzkvartett félögum hennar kærlega fyrir komuna og dásamlega kvöldstund.

Heilt þorp sem hreppti fyrsta sætið

Það var stemning í Ási þegar keppst var við að skreyta piparkökuhús fyrir keppnina um flottasta piparkökuhúsið. Dómnefndin var skipuð starfsmönnunum Veru Sigurðardóttur, Þresti Helgasyni og Benedikt Sigurbjörssyni. Keppnin var hörð og ekki mörg stig sem skildu að. Jólaþorp hjúkrunar hreppti fyrsta sætið, þá húsið í Ásbyrgi og í þriðja sæti varð húsið í Bæjarási. Þáttakan var frábær við gerð og kynningu húsanna.

Gerðu það sem þú getur, með það sem þú hefur, þar sem þú ert

Las fantagóða bók um daginn sem fóstursonur minn Bárður Jens lánaði mér. Við skiptumst dálítið á góðum bókum. Hún heitir „The Stoic Challange, a Philosopher´s guide to becoming tougher, calmer and more resilient.“ Fjallar í stuttu máli hvernig skynsamlegast er að bregðast við áföllum í lífinu. Stórum sem smáum. Höfundurinn, William B. Irvine, er prófessor í heimspeki í Wright háskólanum í Dayton Ohio. Hann hefur stúderað heimspekistefnu sem nefnist Stóustefnan. Sú stefna mótaðist í Aþenu undir lok 4. aldar fyrir Krist. Ætla ekki út í smáatriði en eins og ég las og skildi bókina þá finnst mér hún vera að hluta til í það minnsta, nánari útfærsla á Æðruleysisbæninni. Hvernig maður tæklar þau áföll og aðstæður sem þeim fylgja dags daglega. Irvine skilgreinir áföllin sem próf Stóaguðanna sem okkur er falið að leysa. Hann tekur reyndar fram að Stóuguðirnir séu ekki til, frekar en aðrir guðir. Það mikilvægasta, til að leysa hvert próf með hæstu einkunn, er hvernig við bregðumst við áfallinu. Margir leita að sökudólgum, öðrum en sjálfum sér. Það sem kom fyrir er öðrum að kenna, ekki mér. Að tapa körfuboltaleik er dómaranum að kenna, ekki að liðið mitt hafi verið lélegra. Þekki þetta sem fyrrum körfuboltadómari. Með því að líta á öll áföll, allar áskoranir sem verkefni eða próf, og leysa þau af bestu getu, með stóískri ró, líður okkur miklu betur en ella. Það að reiðast eða fara í fýlu ef á móti blæs er auðvitað tóm vitleysa. Auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. Mér fannst ég þó vera heldur á þessari leið Stóumanna en ekki, áður en ég las bókina góðu. Og lífið verður ennþá skemmtilegra og auðveldara að lifa ef maður nálgast þessi lífsviðhorf og fer eftir þeim. Eitt vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar en það er umfjöllun höfundar um sorgarviðbrögð. Elisabeth Kübler-Ross geðlæknir setti fram kenningu um fimm stig sorgar, afneitun, reiði, viðræðuferli, þunglyndi og sátt. Eflaust margar þýðingar og skilgreiningar til á þessum stigum en læt þessar duga. Stóaheimspekingarnir segja að maður eigi að fara beint í sáttina. Við getum ekkert breytt því að einhver okkur náinn er látinn, við eigum ekki að eyða tíma og orku í hin stigin fjögur. Finnst þetta vera dálítið útópískt og líklega fæstir sem fara beint þangað. En ætla engu að síður að velta þessu aðeins fyrir mér. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Jólaball í Mörk

Jólasveinar kíktu í heimsókn í Mörk í gær og Skjóða kom með þeim. Það var dansað í kringum jólatré og Skjóða sagði skemmtilega sögu. Auðvitað mættu jólasveinarnir með poka og glöddu ungviðið með límmiðum og ávaxtanammi.