06.12.2023
Það hefur skapast sú hefð á Grundarheimilunum að bjóða upp á hangikjöt með tilheyrandi meðlæti þann 1. desember og bjóða upp á rjómapönnukökur í eftirmat. Og þá er ekkert annað að gera en að bretta upp ermar eins og þær Rakel og Chutima gerðu og baka á sjö pönnum á annað þúsund pönnukökur. Geri aðrir betur.
06.12.2023
Vöfflukaffi íbúa 60+ var með öðrum hætti síðasta mánudag. Vöfflurnar fengu smá pásu en í staðinn var boðið upp á jólaglögg, smákökur og konfekt. Við áttum góða samverustund, horfðum og hlustuðum á Jólagesti Björgvins á tjaldinu og komum okkur í jólagírinn.
05.12.2023
Jólasöngvar, sögur, hlátur, gleði og föndur. Þannig var andrúmsloftið á Litlu Grund þegar börn úr 5. bekk í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi komu í heimsókn í morgun.
04.12.2023
Hér í Mörk var tekið fagnandi á móti desember. Föstudaginn 1. desember voru allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu og í hádeginu var boðið upp á hangikjöt og meðlæti og í eftirrétt voru pönnukökur með rjóma. Vertu velkominn desember.
03.12.2023
Karlakór Hveragerðisbæjar gladdi okkur með frábærum tónleikum. Ekki amalegt að fá svona heimsókn. Þakka ykkur innilega fyrir komuna og frábæran söng. Guðrún Kristjánsdóttir heimilskona í Bæjarási var afskaplega stolt af syni sínum honum Höskuldi sem syngur með kórnum.
03.12.2023
Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag en heimilisfólk og starfsfólk í Ási hefur verið önnum kafið við að útbúa aðventukransa og aðventudagatöl undanfarna daga. Það eru ljúfar stundir framundan hjá okkur á aðventunni.