Góður gestur í heimsókn

Stundum koma ferfætlingar í heimsókn á Grund og hún Fanney iðjuþjálfi tók tíkina sína Mýru með í vinnuna nýlega. Heimilisfólkið var yfir sig hrifið og móttökurnar eftir því. Það klappaði henni og knúsaði og svo fékk hún meira að segja volgan prjónapúða á mallakútinn sinn. 🐕 Næst þegar hún kemur í heimsókn og nálgast Grundina hér á Hringbraut hlýtur hún að dilla skottinu fáránlega hratt af gleð og tilhlökkun.

Ljósmyndasýning í tengigangi

Í tengibyggingu milli hjúkrunarheimilis og vesturhúsa hanga gjarnan ljósmyndir eða málverk eftir íbúa. Núna á tengiganginum er ljósmyndasýning eftir Hafliða Hjartarson sem heitir Skammdegi.

Hattadagur á Grund

Í síðustu viku var kominn galsi í fólk hér í húsinu og ákveðið að vera með hattadag á föstudag. Starfsfólk mætti með hattana sína til vinnu og heimilisfólk skartaði höfuðfötum sem það annaðhvort fékk lánað úr safni iðjuþjálfunar heimilisins eða bara átti sjálft. Það fylgdi deginum mikil kátína enda sumir hattarnir frekar skondnir og skemmtilegir. Það má líka geta þess að á Grund er núna búsett hattagerðarkonan Ásthildur Vilhjálmsdóttir sem vann lengi við hattagerð á Laugavegi. Henni fannst ekki leiðinlegt að skoða öll þessi höfuðföt sem fólk skartaði.

Deildi með heimilisfólki sögum af veru sinni á Grænlandi

Björg Sigurðardóttir ljósmóðir gladdi heimilisfólk með nærveru sinni í morgunstund í gær. Hún sagði frá störfum sínum og veru í Grænlandi. Það er stórkostlegt að upplifa hvað tónlistarfólk, rithöfundar, dansarar, fólk með áhugaverða sögu, fyrirlesarar og fræðimenn eru til í að koma í sjálfboðavinnu og deila með heimilisfólkinu okkar því sem það hefur fram að færa. Kærar þakkir öll sem gefið af tíma ykkar og veitið þannig tilbreytingu í líf fólksins okkar