26.02.2021
Konuklúbbur Markarinnar ákvað að gera sér glaðan dag og skellti sér á kaffihúsið Kaffi Mörk. Þar var boðið upp á dýrindis tertur og kaffi og skálað í Baileys.
25.02.2021
Nú stendur þeim sem búa í Íbúðum 60+ til boða að taka þátt í jógateygjum, stólaleikfimi, sundleikfimi og leiðbeiningum í tækjasal. Þáttakan hefur verið vonum framar og mikil gleði hjá íbúum með að geta nú aftur tekið á og verið í líkamsrækt. Það var fjör í sundlaug heilsulindar Markar í morgun eins og sést á myndinni.
19.02.2021
Heimilismenn ásamt starfsmönnum Markar slógu köttinn úr tunnunni og skemmtu sér stórkostlega. Eins og sjá má á myndum var enginn lognmolla yfir fólki og vel tekið á því. Að launum fengu allir glaðning.
19.02.2021
Á dögunum auglýstu Sjúkratryggingar Íslands eftir áhugasömum aðilum til að reka fimm hjúkrunarheimili. Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri, Uppsali á Fáskrúðsfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Hraunbúðir í Vestmannaeyjum. Þessi heimili eiga það sameiginlegt að sveitarstjórnirnar sem hafa staðið að rekstri þeirra hafa gefist upp. Gefist upp á endalausum taprekstri undanfarinna ára og hafa ákveðið að hætta að greiða með rekstri þeirra. Enda er rekstur hjúkrunarheimila á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum, ekki sveitarfélaga.
Nú er það svo að rekstur nær allra hjúkrunarheimila landsins hefur verið erfiður undanfarin ár og ekki bætti covid 19 úr skák. Aukinn kostnaður vegna faraldursins og minnkaðar tekjur sumra hjúkrunarheimila hefur gert vonda stöðu enn verri. Staða sveitarfélagaheimilanna, ef þannig má að orði komast, er enn verri en þeirra sem eru rekin sem sjálfseignarstofnanir, þar sem launakostnaður þeirra er hærri að meðaltali en sjálfseignarstofnananna.
Í auglýsingunni segir: „Æskilegt er að rekstraraðilar séu reknir á grundvelli fyrirkomulags um sjálfseignarstofnanir eða þar sem hagnaður er endurfjárfestur í þágu starfseminnar.“ Göfugt og skynsamlegt markmið. En ekki líklegt að á þetta reyni. Samanlagður hallarekstur þessara heimila undanfarin þrjú ár nemur rúmlega 1.450 milljónum króna. Tæpum einum og hálfum milljarði. Það er talsvert í að þau komi til með að skila hagnaði, held barasta alveg sama hver rekstraraðilinn verður. Stjórnendur SÍ ættu því að geta sofið rólegir þó að það komi að þessu einhver aðili sem uppfyllir ekki framangreint markmið. Áhyggjur af því að væntur hagnaður fari út úr rekstrinum eru að mínu mati óþarfar.
Áhugavert verður að fylgjast með rekstri Skjólgarðs, hjúkrunarheimilinu á Höfn í Hornafirði en sveitarfélagið hefur ákveðið að skila rekstri þess einnig til ríkisins. Forstjóri SÍ tilkynnti á dögunum að búið væri að semja um rekstur þess við ótilgreindan aðila, sem er reyndar ekki einkaaðili, heldur ríkisheimili sem SÍ fékk til verkefnisins. Ég hef áður bent á að Skjólgarður greiðir húsaleigu í beinhörðum peningum til Ríkiseigna vegna þess húsnæðis sem hjúkrunarheimilið er rekið í. Engar tekjur koma frá SÍ til greiðslna þeirra tæpu 20 milljóna sem renna þannig út úr rekstri Skjólgarðs til Ríkiseigna. Geri frekar ráð fyrir því að nýr rekstraraðili komi til með að þurfa að greiða þessar húsaleigugreiðslur áfram til Ríkiseigna. Og fái þá til þess auknar tekjur frá SÍ til þeirra greiðslna, nú eða samið verði um að hætta þeim greiðslum. Að halda áfram óbreyttum húsaleigugreiðslum án aukinna tekna er líklega ávísun á áframhaldandi taprekstur. Hvaða leið sem verður farin í þessum húsaleigumálum Skjólgarðs, þá mun ég fylgjast með af áhuga og sýnist að það stefni í einhvers konar nýjungar og stefnubreytingar hjá ríkinu í þeim efnum.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
17.02.2021
Á bolludaginn hittust nokkrar heimiliskonur í vinnustofunni hjá Þórhöllu, sr. Auði Ingu og Valdísi, gæddu sér á nýbökuðum bollum, kaffisopa og sérrí og ræddu lífsins gang og nauðsynjar eins og gerist ávallt í góðra kvenna hópi. Notaleg stund í skemmtilegum félagsskap.
12.02.2021
Þessa dagana er að hefjast bólusetning allra starfsmanna Grundarheimilanna. Ánægjulegt í alla staði og ber að þakka fyrir af heilum hug. Bóluefnið mun hafa fulla virkni þegar seinni sprautan er gefin í maí mánuði en virknin er eftir fyrstu sprautu engu að síður um það bil 70%. Þessi bólusetningarhrina innifelur í sér eins og áður segir, alla starfsmenn heimilanna þriggja sem eru fæddir frá 1957 – 2002. Eldri en 65 ára fá annað bóluefni síðar og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins áttaði sig ekki á því að yngri en fæddir 2002 væru í vinnu hjá okkur, og þeir fá því heldur ekki boð um bólusetningu. Það verður vonandi fljótlega.
Við stjórnendur Grundarheimilanna mælum eindregið með því að allir fari í bólusetningu og hjálpist þannig að við útrýmingu veirunnar í okkar góða samfélagi. Ef einhver getur ekki eða kýs að fara ekki í bólusetningu (enginn skyldaður í það) þá er viðkomandi beðinn um að nota andlitsgrímu þangað til að faraldurinn verður yfirstaðinn, sem verður vonandi í byrjun næsta vetrar, ef til vill síðar.
Ef einhver starfsmaður efast um að hann megi, þá oftast vegna einhverra heilsutengdra mála, fara í bólusetningu þá er eðlilegast að ræða það við starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þau vita allt um málið. Það gæti misskilist ef ég, allsendis ómenntaður maðurinn í heilbrigðisfræðum, færi að úttala mig um það allt saman.
Ítreka þakkir mínar til þeirra sem stjórna þessum málaflokki og aðgerðum þeirra við útvegun á bóluefni sem mér sýnist geta leitt til þess að sumarið verði okkur barasta nokkuð hagstætt.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
05.02.2021
Næst mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita og slysavarnarfélaga landsins fer fram í dag og um helgina. Neyðarkallasalan. Hún hefur hingað til verið fyrstu helgina í nóvember en vegna covid 19 var henni frestað fram í febrúar. Við seldum þó stóra kallinn til fyrirtækja í nóvember sl., enda krefst sú sala ekki nálægðar og því smithætta afar lítil. Sú sala gekk vel og vonandi verður okkur vel tekið nú um helgina.
Flugeldasalan um síðastliðin áramót gekk einnig vel en líkur eru á því að á næstu árum muni eitthvað draga úr henni. Skiljanleg umhverfissjónarmið skýra það. Það er því áskorun til okkar í björgunarsveitunum og vonandi kemur ríkisvaldið að því með opnum hug, að finna aðrar leiðir til að standa undir því mikilvæga starfi sem björgunarsveitir landsins sinna ár hvert.
Við í Hveragerði förum í um það bil 50 útköll á ári, eitt á viku. Sækja slasaða ferðamenn upp í Reykjadal, loka Hellisheiðinni og stundum að bjarga fólki af heiðinni, leitum að týndum einstaklingum og margt fleira. Í sveitinni okkar er góður kjarni af áhugasömu og duglegu fólki sem er tilbúið að stökkva til um leið og neyðarkallið kemur. Í sjálfboðnu starfi þar sem enginn fær greitt fyrir þátttöku. Tel að þetta myndi kosta samfélagið (ríki og sveitafélög) ansi marga milljarða króna á ári ef ekki kæmi til þessi góði áhugi þessara einstaklinga.
Ég verð sjálfur í verslunarmiðstöðinni (mollinu okkar) í Hveragerði í dag eftir hádegið og nýt aðstoðar okkar góða bæjarstjóra, Aldísar, sem hefur lagt okkur gott lið í þessu mikilvæga verkefni. Sjáumst kannski þar. Ef einhvern vantar Neyðarkall, get ég auðvitað líka póstlagt þá til viðkomandi gegn millifærslu 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og
gjaldkeri Hjálparsveitar skáta í Hveragerði
02.02.2021
Þegar veðrið er stillt er um að gera að anda að sér fersku lofti. Og það gera heimilismenn og starfsfólk í Ási þegar hægt er. Þá kemur nú þessi rauði fíni fararskjóti sér vel.
02.02.2021
Þegar ilmurinn af nýbökuðum vöfflum læðist um gangana á Grund lifnar yfir öllum. Heimilisfólkið á V-2 kunni svo sannarlega að meta það í gær þegar hún sr. Auður Inga mætti með vöfflujárnið og deigið og bakaði með kaffinu.