01.12.2022
Þessa dagana eru heimilismenn í Mörk að búa til skemmtileg jólaré úr gömlum bókum. Heimilisfólk er áhugasamt um þetta verkefni en finnst sárt þegar gömlu bækurnar eur rifnar og tættar niður. Það eru breyttir tímar.
01.12.2022
Til margra ára hefur það verið til siðs að kalla 1. desember rauðan dag á Grund. Heimilisfólk og starfsfólk skarta einhverju rauðu og þegar Raggi Bjarna var á lífi kom hann og söng fyrir fullum sal. Í dag er rauður dagur á öllum Grundarheimilunum þremur. Hér á Grund byrjaði dagurinn eldsnemma með því að þær Chutima og Palika bökuðu pönnukökur. Fyrst hrærði Chutima í deigið og svo eru þær stöllur núna í nokkrar klukkustundir að baka hátt í 400 pönnukökur á fjórum til fimm pönnum. Í hádeginu gæðir fólk sér á kjötsúpu og fær sér svo pönnuköku með kaffinu.
30.11.2022
Í Ási er bíóstjóri, Eðvarð Guðmannsson eða Eddi bílstjóri sem hefur undanfarin ár verið með bíósýningar tvisvar í mánuði og sýnt myndir sem heimilsmenn óska eftir að fá að sjá. Í fyrrakvöld var sýnd myndin Red Heat. Eldhúsið býður alltaf upp á snakk og gos og þetta vekur alltaf mikla lukku, þó svo mætingin sé misjöfn eftir þeirri mynd sem verið er að sýna. Guðrún Lilja átti leið um og smellti mynd af strákunum.
30.11.2022
Hljómsveitin GÓSS mætti á Grund í gær og hélt hátíðatónleika, tók jólalög í bland við önnur falleg lög. Tónleikarnir eru gjöf frá VÍS til Grundar í tilefni 100 ára afmælis heimilisins sem var þann 29. október síðastliðinn. Hljómsveitina skipa Guðmundur Óskar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðundsson
28.11.2022
Í síðustu viku tók heimilisfólk og starfsfólk sig til og útbjó aðventukransa fyrir Ás. Þetta er árlegur siður sem beðið er eftir með tilhlökkun. Útkoman var glæsilega eins og við var að búast.
25.11.2022
Lokapunkturinn á vel heppnuðu aldarafmæli Grundar verður settur yfir i – ið næstkomandi sunnudagskvöld. Kl. 20.15 verður sýnd á RÚV heimildamynd um aðdragandann að stofnun Grundar og starf Grundarheimilanna í Reykjavík og Hveragerði í heila öld.
Stjórn Grundar ákvað snemma á síðasta ári að fá Jón Þór Hannesson til að gera framangreinda heimildamynd í tilefni af afmælinu og semja við RÚV um sýningu hennar. Afraksturinn kemur fyrir augu landsmanna strax á eftir Landanum og eflaust verða margir við viðtækin. Jón Þór er mikill reynslubolti í gerð heimildamynda og vann lengi hjá Saga film en hann var einn af stofnendum og starfsmönnum þess góða fyrirtækis.
Myndin byggir að hluta til á 100 ára sögu Grundar sem var gefin út í tilefni afmælisins en þar að auki eru viðtöl við fjölmarga einstaklinga, bæði sem vinna á Grund, búa á Grund eða tengjast Grund með ýmiskonar hætti.
Ég ákvað strax í upphafi að skipta mér ekkert af gerð myndarinnar og fela Jóni Þór alfarið að sjá um gerð hennar. Og er afar ánægður með þá ákvörðun mína og sé að hún var hárrétt. Maður er sjálfur líklega of nálægt þeirri daglegu starfsemi Grundarheimilanna til að geta áttað sig á samhengi hlutanna. Jóni Þór tókst að draga upp hlutlausa mynd af öldinni sem liðin er frá því að hugmyndin um stofnun og rekstur öldrunarheimilis kom upp hjá langafa mínum og fleiri góðum mönnum.
Ég hvet ykkur til að poppa, kæla gosið og setjast við sjónvarpsskjáinn næstkomandi sunnudagskvöld kl 20.15. Njótið.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
24.11.2022
Grundarbandið heldur uppi fjöri þessa stundina í hátíðasalnum og dásamlegt að sjá starfsfólk og heimilisfólk skella sér í sveiflu. Grundarbandið kemur til okkar reglulega og við erum afskaplega þakklát fyrir þessa einstaklinga sem mæta til okkar í sjálfboðavinnu til að gleðja heimilisfólk. Takk kærlega
21.11.2022
Hússtjórnarskólinn í Reykjavík fagnar 80 ára starfsafmæli á þessu ári og í síðustu viku var haldið upp á afmælið. Gestum gafst kostur á að kíkja í kennslustundir og skoða það sem nemendur eru að gera dags daglega. Boðið var upp á afmælisköku og kaffi. Tvær heimiliskonur mættu í afmælið, enda skólinn svo að segja í næsta húsi. Þær færðu skólanum blómvönd frá Grund og skoðuðu starfsemina.
16.11.2022
Í tilefni aldarafmælis Grundar var gefið út afmælisrit um heimilið, saga Grundar í 100 ár. Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, fór um heimilið og færði heimilismönnum bókina að gjöf auka borðdagatals með gömlum myndum frá Grund. Gísli Páll segir þessar heimsóknir hafa veitt sér gleði og hann er mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til að spjalla við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Hann segir að margir hafi verið afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Gísli Páll segir að það hafi verið notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel á heimilunum.
Það voru feðginin sr. Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R Guðmundsdóttir sem rituðu bókina, Guðmundur Óskar sá um að rita 75 ára sögu heimilisins fyrir aldarfjórðungi og síðan bætti dóttir hans Guðbjörg við 25 árum svo úr varð 100 ára saga heimilisins.