30.06.2023
Það skiptir okkur öll máli að hafa hlutverk í lífinu og á ólíkum æviskeiðum þá breytast hlutverkin okkar. Við höfum hlutverk í vinnu, í heimilishaldi, í uppeldi o.m.fl. Með hlutverki sem okkur er treyst fyrir og við finnum að skiptir máli höfum við tilgang.
Það eru mörg skref og flókin sem að þarf að taka þegar að við skipum um gír í lífinu og þurfum að finna okkur nýtt hlutverk eða verkefni þegar einu hlutverki eða verkefni lýkur. Dæmi um þetta er þegar að barnauppeldi lýkur og börnin fara að heiman, þegar við hættum á vinnumarkaði o.s.frv. Að fara á hjúkrunarheimili getur reynst mörgum erfitt sem að áður höfðu margvísleg hlutverk í sínu heimilislífi. Við sem störfum á þessum heimilum verðum að gæta þess að fólkið okkar upplifi sig ekki aðeins sem þiggjendur þjónustu heldur hafi ákveðin hlutverk.
Það er okkar að koma auga á möguleika til þess að skapa þessi hlutverk. Það vill enginn upplifa að hann sé óþarfur eða byrði. Dæmi um hlutverk sem við getum fundið á heimilunum okkar eru að leggja á borð, að taka af borðum, setja í eða taka úr uppþvotta/þvottavél, að brjóta saman þvott/tuskur, að brjóta saman servíettur, vökva blóm, raða einhverjum vörum í hillur og ótal margt fleira. Fólkið okkar er með mismunandi færni og hefur mismikla getu til að sinna þessum verkum komin á nýtt heimili, en útkoman og hvernig það er gert ætti að vera aukaatriði. Tuskurnar mega vera allskonar brotnar saman, servíetturnar mega vera allskonar, við erum heimili og allt má vera allskonar. Hjálpumst að við að finna verkefni við hæfi, þau þurfa ekki að vera stór eða flókin en geta skipt þann sem að fær verkefnið gríðarlega miklu máli.
Kveðja og góða helgi
Karl Óttar Einarsson
forstjóri Grundarheimilanna
29.06.2023
Það er verið að fást við ýmislegt í vinnustofunni á fyrstu hæð Markar. Stundum eru morgnarnir með rólegu yfirbragði, kveikt á kertum og boðið upp á handarvax og æfingar en öðrum stundum er verið að lesa, prjóna, teikna og lita, allt eftir því hvað hverjum og einum hugnast
26.06.2023
Thorvaldsenkonur komu fyrir nokkru færandi hendi hingað á Grund með fimm loftdýnur.
26.06.2023
Tónlistarmaðurinn Bjarni Hall mætti í Ásbúð nú fyrir helgina og tók nokkur skemmtileg lög með heimilisfólki. Hann tók bæði gömul og nýleg lög og sagði svo skemmtilega frá milli laga. Frábær byrjun á helginni. Takk Bjarni fyrir komuna.
26.06.2023
„Erfiðust var einveran því ég er svo mikil félagsvera“, segir Sigfríður Birna Sigmarsdóttir félags- og sjúkraliði í Mörk sem í vor hjólaði á rafhjóli 744 kílómetra á ellefu dögum, frá Roncesvalles til Santiago de Compostela á Spáni. „Við ætluðum upphaflega þrjú saman en hin hættu við. Það runnu á mig tvær grímur en ég varð að halda áfram því ég var búin að heita á heimilisfólkið mitt í Mörk og gat ekki farið að svíkja það“, segir hún.
Byrjaði sex á morgnana
Sigfríður sem alltaf er kölluð Siffa fékk þriggja mánaða frí frá vinnu bæði í Mörk og á Vogi þar sem hún starfar líka og svo hélt hún af stað í ferðlag.
23.06.2023
Í vetur sóttu Grundarheimilin um styrki frá framkvæmdasjóði aldraðra en það er sjóður sem er fjármagnaður af skattgreiðendum sérstaklega (kemur fram á skattframtali eins og útvarpsgjaldið). Sjóðurinn hefur það hlutverk að byggja upp öldrunarþjónustu á Íslandi. Sótt var um styrk fyrir 16 verkefnum sem hljóðuðu upp á 200 milljóna framlag frá sjóðnum. Samþykkt voru 14 verkefni að fullu, að upphæð 195 milljónir, einni umsókn var hafnað og ein var samþykkt að hluta.
Heilbrigðisráðherra veitir styrki að fenginni tillögu frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við (á Grundarheimilunum )erum gífurlega þakklát fyrir stuðninginn sem að við fáum með þessum hætti til að byggja upp húsnæði okkar og innviði þess til að bæta búsetu og starfsskilyrði þeirra sem að hjá okkur eru búa eða starfa (hverju sinni.)
Ég þakka heilbrigðisráðherra og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra kærlega fyrir þetta framlag. Ljóst er að mikið þarf að vinna í húsnæði Grundar og Áss sérstaklega á næstu árum. Í Mörk er staðan betri húsnæðislega séð, enda eru þar allt einbýli með sér baðherbergi.
Samþykkt var núna að breyta deild A3 á Grund að mestu leyti á sama hátt og gert hefur verið á hæðinni fyrir neðan. Einnig var samþykkt klæðning á hjúkrunarheimilinu í Hveragerði, endurnýjun á brunakerfum, tæki til sjúkraþjálfunar á öllum heimilum og ýmislegt fleira stórt og smátt. Viðhaldi á þessum gömlu húsum okkar hefur alla tíð verið almennt vel sinnt og þvi búum við ágætlega að því þegar að kemur að endurnýjun.
Haldið er áfram að vinna í þessum breytingum en til þess að geta gert þetta hraðar þá þurfum við klárlega að fá greidda húsaleigu fyrir það húnsæði sem að við notum í þjónustu við okkar heimilisfólk.
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundar, hefur ritað marga pistla um það mál og ætla ég ekki að fara út í smáatriði hér en ítreka mikilvægið. Grundarheimilin saman standa af félögum sem að eru óhagnaðardrifin og allt fé heimilanna fer í starfsemi þeirra. Það er því ljóst að húsaleiga til okkar heimila færi ekki í neitt annað en í uppbyggingu og endurbætur hjá okkur. Sem er eitthvað sem allir sjá að er löngu tímabær og þörf ráðstöfun.
Ég treysti því og trúi að stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að leysa þessi mál þannig að við getum haldið áfram uppbyggingunni og nauðsynlegum endurbótum og skipuleggja það til framtíðar, vitandi af tryggum greiðslum.
Karl Óttar Einarsson
forstjóri Grundarheimilanna
p.s. mun halda pólitík í lágmarki í mínum skrifum, en komst ekki hjá því í þetta skiptið að koma aðeins inn á hana. 😊
22.06.2023
Nú stendur yfir all sérstök ljósmyndasýning á fyrstu hæð Grundar. Um er að ræða ljósmyndapör. Kjartan Örn Júlíusson, sviðsstjóri öryggis og upplýsingatæknisviðs Grundar, tók nýju myndirnar en langafi hans Björn M. Arnórsson þær gömlu. Árið 2016 hélt Kjartan sýningu á myndunum og hluti ljósmyndaparanna er nú til sýnis á Grund.
17.06.2023
Önnur orðuveiting ársins fór fram á Bessastöðum í dag, 17. júní. Fjórtán einstaklingar voru sæmdir fálkaorðunni að þessu sinni. Guðrún Birna Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri Grundar, hlaut riddarakrossinn fyrir umönnun og þjónustu við aldraða.
16.06.2023
Starfsfólk eldhúss Grundarheimilanna, sem vinnur í Ás,i mætti í Mörk í morgun og aðstoðaði í eldhúsinu, m.a. stóð það í ströngu við bakstur. Á morgun 17. júní verður nefnilega boðið upp á rjómapönnukökur með kaffinu. Til að allir geti nú gætt sér á þessum þjóðlegu kræsingum, þurfti í morgun að baka 1.200 pönnukökur. Á þjóðhátíðardaginn verður svo boðið upp á hangikjöt með öllu tilheyrandi í hádeginu og ístertu í eftirmat.
16.06.2023
Nýlega var gengið frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu. Verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl.
Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju.
Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin.
Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir.
Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk máli. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan.
Kveðja og góða helgi,
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna
p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi.