30.12.2022
Enn eitt skemmtilegt, viðburðar- og árangursríkt árið er rétt að renna sitt skeið. Tvennt stendur upp úr í mínum huga. Aldarafmæli Grundar og lok Covid 19 tímabilsins. Þó er óhætt að segja að við erum ekki alveg laus við Covid 19, heldur er það orðið hluti af okkar daglega lífi og ekki nauðsynlegt, í það minnsta ekki eins og er, að tækla smitin af þeirri hörku sem leiddu af sér einangrun heimilismanna og vanlíðanar þeirra, aðstandenda og ekki síður starfsfólks Grundarheimilanna.
Ég hef í fyrri pistlum fjallað um Covid 19, aðgerðir okkar, afleiðingar og læt þar við sitja í bili. Eflaust koma einhverjir aðrir slíkir sjúkdómar aftur sem gera okkur skráveifu, og þá tökum við á því eins og við þekkjum best til.
Hitt atriðið sem ég nefndi hér að framan er 100 ára afmæli Grundar. Ég er afskaplega stoltur og ánægður með hvernig til tókst að minnast þessara merku tímamóta. Það hefur þó líklega ekki hvarflað að langafa mínum Sigurbirni og hans samstarfsmönnum fyrir rúmum hundrað árum að Grund sé og hafi verið sá mikli máttarstólpi í öldrunarþjónustu landsins og raun ber vitni. Grund var fyrstu rúma þrjá áratugina eina alvöru öldrunarstofnun landsins og eftir að Hrafnista tekur til starfa á sjötta áratugnum þá hafa þessi tvö heimili verið tvö þau stærstu í öldrunarbransa landsins.
Það er vandaverk að halda áfram á þeirri góðu braut sem forfeður mínir mörkuðu og auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem þeir höfðu hælana. Framundan eru bjartir tímar og tímar mikilla áskorana í öldrunarþjónustu. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að neytendum öldrunarþjónustu kemur til með að fjölga verulega á næstu árum og áratugum, eitthvað sem margir aðrir atvinnuvegir búa ekki við.
Með pistli þessum vil ég nota tækifærið og þakka heimilisfólki Grundarheimilanna fyrir þrautseigju í Covid 19 faraldri og skilning aðstandenda á þeim aðgerðum sem við gripum til vegna faraldursins. Sérstakar þakkir færi ég öllu starfsfólki Grundarheimilanna fyrir það framúrskarandi góða starf sem þið hafið innt af hendi undir þeim mjög svo erfiðu kringumstæðum sem faraldur síðustu rúmlega tveggja ára hefur valdið okkur. Þið eruð ómetanleg.
Kveðja og gleðilegt nýtt ár,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
28.12.2022
Fyrir löngu var til siðs hér á Grund að fá í heimsókn lúsíu og þernur hennar á aðventunni. Þær gengu um húsið og sungu sænsk og íslensk jólalög með lifandi kertaljós í hendi og lúsían sjálf með kertakrans á höfði. Í ár var ákveðið að endurvekja þennan gamla sið.
Lúsía og þernur hennar mættu og gengu um húsið og sungu jólalög undir stjórn Mariu Cederborg
27.12.2022
Rebekka efndi til samsöngs einn kaldan daginn á aðventu þar sem jólalögin voru sungin og henni til aðstoðar voru stórskemmtilegir jólaálfar. Það er svo notalegt þegar starfsfólkið bryddar upp á einhverju skemmtilegu eins og þessu. Takk Rebekka og jólaálfar.
27.12.2022
Það komu ótrúlega margir gestir til okkar á Grund nú fyrir jólin, sungu jólalögin, léku á hljóðfæri, lásu og styttu fólkinu okkar stundir með ýmsum hætti. Þar á meðal var t.d. sönghópurinn Spectrum, félagar sem spila með lúðrasveitinni Svan, Grundarbandið, Skólahljómsveit Vestur,- og miðbæjar, börnin í Landakotsskóla, Laufáskórinn og ekki má gleyma Senu sem gaf öllum okkar heimilismönnum aðgang að jólagestum Björgvins. Við þökkum ykkur öllum af alhug. Þið glödduð heimilisfólkið okkar svo sannarlega. Takk kærlega.
23.12.2022
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða.
Hér eru myndir sem voru teknar á jólaballinu þann 15. desember. Skjóða kom í heimsókn og sagði jólasögu. Jólasveinabræður hennar komu líka og glöddu börnin með smá glaðning. Það var svo dansað í kringum jólatré og sungið dátt.
23.12.2022
Í dag lykta mörg hús landsmanna ansi illa. Þar á meðal eldhús og borðsalir Grundarheimilanna. Auk skötu verður boðið upp á saltfisk þannig að það finna vonandi allir eitthvað við sitt hæfi. Hef einnig heyrt utan af mér að einhvers staðar verði hægt að næla sé í flatbökubita. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Þegar við Alda tókum saman fyrir tæpum 13 árum hafði ég aldrei smakkað skötu. Datt það aldrei í hug, þvílík ólykt af þessum mat, sem væri eflaust mikið skemmdur. Þrátt fyrir áskoranir þess efnis að prófa og að bragðið væri allt annað en lyktin þá fékk ég mér aldrei bita af skötu. En þar sem Alda var vön skötu frá blautu barnsbeini þá fékk hún mig til að smakka, bara einu sinni. Og viti menn, ég kolféll fyrir bragðinu. Sé meira að segja pínu eftir því að hafa ekki smakkað fyrr, þvílíkt lostæti sem vel kæst skata er.
Ég er mikill gráðostamaður og þegar ég prófaði skötuna í fyrsta sinn fannst mér eins og ég væri að borða heitan gráðost. Það eru ef til vill ekki allir sammála mér með þessa gráðostalýsingu en mér finnst hún eiga vel við. Ég hlakka alltaf mikið til Þorláksmessu að fá mér rjúkandi heita skötu, kartöflur og íslenskt smjör (já ég veit að ég er ekki kominn ennþá í hnoðmörinn) seinni part dags ásamt malti og appelsíni. Borða alveg á mig gat og finna um kvöldið hvernig smá hluti af skinninu innan á kinnunum flagnar lítillega af. Dásamlegt.
Alda hafði aldrei prófað rjúpur áður en við tókum saman. Hún prófaði þær á aðfangadagskvöld og líkar mjög vel. Þannig að við lærðum nýjar matarvenjur af hvort öðru um jólahátíðina og græddum bæði helling á því.
Verði ykkur að góðu í skötunni og rjúpunum, eða hverju öðru því sem þið snæðið um jólahátíðina.
Kveðja og gleðileg jól,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
22.12.2022
Það er jólakósý þennan morguninn. Sígilda jólamyndin HOME ALONE og makkarónur og súkkulaði. Hversu nettur morgun?