29.10.2021
Í dag, 29. október fagnar Grund 99 ára afmæli. Það var fyrir 99 árum að húsið við Grund var vígt en það stóð þar sem Kaplaskjólsvegur er í dag. Húsið var með átta svefnstofur fyrir 23 heimilismenn, tvö herbergi fyrir ráðskonu og starfsstúlkur, eina setustofu, búr og eldhús. Nýtt hús var svo byggt við Hringbrautina og var tekið í notkun árið 1930.
Margt, nær allt, hefur breyst á þessari tæpu öld sem Grund hefur sinnt öldruðum hér á landi. Húsakostur, rúm, hjálpartæki, lyf og hvað annað sem er notað við daglegan rekstur hjúkrunarheimilis. En eitt breytist ekki, það er hjartalag starfsmannanna. Við á Grund höfum alla tíð verið afskaplega heppin með allt það starfsfólk sem hefur sinnt þeim þúsundum heimilismanna sem hafa dvalið hjá okkur þessa tæpu öld. Og heppnin varðandi starfsfólkið hefur fylgt okkur á hin Grundarheimilin tvö, Ás frá 1952 og Mörk frá 2010.
Öll þessi 99 ár hefur áhersla verið lögð á framúrskarandi þjónustu við heimilisfólkið ásamt því að starfsemin hefur verið byggð upp og efld. Eins og áður segir þá tók Ás til starfa í júlí 1952 og Mörk í ágúst 2010. Í dag eru heimilismennirnir á Grundarheimilunum þremur tæplega 400. Þar að auki eigum við og leigjum út rúmlega 150 íbúðir til 60 ára og eldri í Mörkinni við Suðurlandsbraut. Þá rekum við okkar eigið þvottahús í Hveragerði. Samtals vinna um það bil 700 manns hjá fyrirtækjunum sex og heildarvelta þeirra í fyrra nam rétt tæpum sex milljörðum króna.
Umfangsmikill rekstur í alla staði sem nær vonandi að vaxa og dafna enn frekar á komandi árum. En meginmarkmið Grundarheimilanna er ávallt og verður að veita heimilisfólki framúrskarandi þjónustu og gera allt hvað hægt er til að þeir geti notið lífsins eins vel og kostur er, oft við misjafna heilsu.
Það verður gaman að fá að halda upp á aldarafmælið á næsta ári. Unnið er að ritun 100 ára sögu Grundar og gerð heimildamyndar um heimilið er í farvatninu. Fleira skemmtilegt verður gert á afmælisárinu, kemur í ljós eftir því sem að líður á næsta ár.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
26.10.2021
Í Covid hefur heimilisráð Markar legið niðri en nýlega var ákveðið að hefja fundi á ný. Heimilismenn sitja í ráðinu og koma meðal annars með ábendingar um það sem vel er gert
22.10.2021
Anna Lilja Jónsdóttir er dóttir heimiliskonunnar Steinunnar B. Sigurðardóttur sem býr á annarri hæð í Mörk. Hún kom til okkar í vikunni með upplestur á smásögu sem móðir hennar skrifaði. Sagan byggist á atburðum sem áttu sér stað árið 1362 í Örævasveit en þá hafði átt sér stað eldgos og sagt að ein kona hafi komist lífs af á hesti.
Heimilisfólk af allri hæðinni kom til að hlusta og njóta.
20.10.2021
Það er alltaf gleði þegar heimiliskonur koma saman í dömukaffi á Grund. Í vikunni var dekkað borð í turnherberginu á Minni Grund og boðið upp á kaffi, kruðerí og sérrý.
19.10.2021
Ólafur Sveinberg, heimilismaður á 2. hæð í Mörk, er með sýningu á verkum sínum og er þegar búinn að selja fjögur verk af fjórtán. Sýningin, er í tengigangi Markar milli hjúkrunarheimilis og heilsulindarinnar.
19.10.2021
Bleikur klæðnaður, bleikar kökur, bleik blóm, bleikt naglalakk og svo mætti áfram telja. Starfsfólk og heimilisfólk á annarri hæðinni í Mörk lét svo sannarlega ekki sitt eftir liggja í að gera bleika daginn eftirminnilegan og sýna samstöðu með þeim konum sem hafa þurft að takast á við krabbamein.
19.10.2021
Þegar það blæs úti og rignir hvað er þá notalegra en finna ilm af nýbökuðu brauði? Svava, heimiliskona á 3 hæð í Mörk, var meira en til í að baka bananabrauð með stelpunum í gær.
18.10.2021
Það er eitthvað svo dásamlegt við vinnu iðjuþjálfunar í Ási sem ber yfirskriftina Lífsneistinn. Þar er leitast við að bæta andlega líðan og laða fram getu fólks sem virðist horfin. Að þessu sinni var það brúðarþema og þátttakendur deildu reynslusögum af ástinni.
15.10.2021
Það er bleikur dagur á Grund eins og á öðrum stöðum í samfélaginu en með því að klæðast bleiku erum við að sýna þeim konum samstöðu sem hafa þurft að kljást við krabbamein. Margir tóku þetta með trompi eins og myndir sýna.
15.10.2021
Fékk símhringingu frá Sjúkratryggingum Íslands, eða heilbrigðisráðuneytinu, man það ekki alveg, fyrir nokkrum vikum. Tilefnið var mjög erfið staða Landspítalans á þá leið að þar dveldu allt of margir aldraðir einstaklingar, sem ættu frekar að búa á hjúkrunarheimili en að eyða síðustu ævidögunum á hátæknisjúkrahúsi. Sem er sko algjörlega satt. En símtalinu fylgdi ótrúleg beiðni. Hvort við gætum ekki bætt við rúmum í einstaklingsherbergi Grundar þannig að það kæmust tveir heimilismenn í eins manns herbergi. Hoppað áratugi aftur í tímann í einu símtali. Og pissað rækilega í báða skóna. Ég trúði varla því sem ég heyrði, en þetta er dagsatt.
Við á Grundarheimilunum, á Grund og í Ási, höfum sl. áratugi verið að fækka tvíbýlum og útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi fyrir hvern og einn. Nokkur tvíbýli eru enn á Grund og sömu sögu er að segja úr Ási. Við stefnum að því að þau verði öll úr sögunni á næstu árum. En þarna var sem sagt verið að snúa við jákvæðri og skynsamlegri þróun undanfarinna ára á augabragði. Einhverjir gætu sagt að þetta yrði bara til bráðabirgða og stæði stutt yfir. En lítið til dæmis á Vífilsstaði sem Landspítalinn rekur. Hefðbundnum hjúkrunarheimilisrekstri var hætt þar árið 2010, enda húsnæðið og öll aðstaða allsendis ófullnægjandi til slíks. En viti menn, í lok árs 2013 var opnuð þar biðdeild LSH, til bráðabirgða og er enn rekið sem slík fyrir þá sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu og bíða þess að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þar búa í dag 42 einstaklingar. Átta ára bráðabirgðaúrræði? Hvað ætli langtímaúrræði nái yfir langan tíma?
Stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á suðvesturhorni landsins um langt árabil. Reglulega dúkkar upp umræða meðal opinberra aðila um aukna heimahjúkrun og heimaþjónustu, en eins og hingað til eru slík vilyrði því miður frekar á orði en borði. Aukin þjónusta heim er að sjálfsögðu af hinu góða en hún dugar ekki til því aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við þurfum einnig ný hjúkrunarrými.
Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og dregur til baka þessar forneskjulegu hugmyndir um að fjölga einstaklingum í þeim herbergjum sem núverandi heimilismenn hjúkrunarheimila búa í í dag. Pissið verður fljótt kalt í skónum.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna