10.09.2021
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til Alþingis fer fram hér í Mörk sunnudaginn
12. september nk. kl. 11:00-14:00.
Atkvæðagreiðslan fer fram í aðstöðu sjúkraþjálfunar á fyrstu hæð og er eingöngu ætluð heimilismönnum. Aðstandendur eru beðnir að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa og gæta jafnframt vel að sóttvörnum s.s. vera með grímu, spritta hendur og gæta fjarlægðar.
10.09.2021
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til Alþingis fer fram hér á heimilinu laugardaginn 11. september nk. og fer fram í aðstöðu sjúkraþjálfunar á V-1. Atkvæðagreiðsla þessi er ætluð heimilismönnum á Grund.
Heimsóknargestur þann daginn má gjarnan fylgja sínum aðstandanda, en þarf að bera grímu og gæta að sóttvörnum.
Heimilisfólki í austurhúsi er boðið að kjósa frá kl. 11-12
Heimilisfólki á Litlu og Minni Grund er boðið að kjósa frá kl. 12-14
Heimilisfólki í vesturhúsi er boðið að kjósa 14-15
10.09.2021
Fura er tæplega tveggja ára labrador tík sem mætir oft til vinnu í sjúkraþjálfun Markar með Heiðrúnu Helgu Snæbjörnsdóttur sjúkraþjálfara. Hún segir að Fura sé enn mikill fjörkálfur og því þurfi að passa vel upp á að hún haldi smá fjarlægð en hún er falleg og róleg ef hún fær ekki of mikla athygli. Heimilisfólkið er hrifið af henni og finnst notalegt að vita af henni.
23.08.2021
Thorvaldsensfélagið ákvað að styrkja starfsemi Grundar með standlyftara af tegundinni Sara Flex. Standlyftarinn mun koma sér ákaflega vel fyrir heimilisfólkið okkar, hann er rafknúinn, mjög öflugur og stöðugur og auðveldar starfsfólkinu störfin svo um munar. Thorvaldsensfélaginu er innilega þakkað fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Það var Kristín Ruth Fjólmundsdóttir formaður Thorvaldsensfélagsins sem afhenti Sigrúnu Faulk hjúkrunarframkvæmdastjóra Grundar standlyftarann.
20.08.2021
Fiskidagurinn litli var haldinn með pomp og prakt í Mörk. Boðið var upp á dýrindis hráefni frá Dalvík sem kokkarnir okkar matreiddu síðan. Fréttakona frá RÚV mætti og var með beina útsendingu frá viðburðinum og einnig mætti ljósmyndari Morgunblaðsins. Búið var að skreyta allt hátt og lágt með netum, netakúlum, teikningum og allskyns skrauti og tónleikar frá Fiskideginum mikla á Dalvík hljómuðu víða um hús.
20.08.2021
Það ríkti tilhlökkun alla vikuna fyrir Fiskideginum litla sem haldinn var nú í fyrsta sinn á Grund. Heimilismenn og starfsfólk skreyttu með úrklippum, blöðrum, veifum, kúlum og baujum. Deildir hér á Grund fengu ný nöfn eins og Lýsuhólar, Síldargata, Rauðmagastræti og svo framvegis. Þá fengum við fiskmeti frá Dalvík, upptökur af tónleikum sem haldnir hafa verið á Fiskideginum mikla á Dalvík og bókina um þessa árlegu skemmtun á Dalvík sem við lásum uppúr.
16.08.2021
Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.
11.08.2021
Það er um að gera að nýta góða veðrið og heimilismenn á A-2 hér á Grund ákváðu að bregða sér út í garð í gær og þá var auðvitað boðið upp á ís.
10.08.2021
Í næstu viku stendur til að gefa heimilismönnum á Grund svokallaðan örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða bólusetningu nr. 3.
Við höfum ekki fengið að vita nákvæma dagsetningu en það skýrist síðar í vikunni. Ef einhver heimilismaður vill EKKI bólusetningu, og aðstandendur þekkja best sitt fólk, þá endilega að láta mig vita.
Annars munu okkar læknar fara yfir það hjá hverjum og einum.
Sigríður Sigurðardóttir, hjúkrunarstjóri.