19.09.2022
Guðjón Óskarsson hefur verið iðinn við að losa borgarbúa við tyggjóklessur. Í tilefni 100 ára afmælis Grundar þann 29. október næstkomandi var ákveðið að biðja hann um að koma og fjarlægja tyggjóklessur af lóð heimilisins. Guðjón mætti svo sannarlega og dvaldi hér nokkra dagsparta enda voru tyggjóklessurnar á fimmta hundrað í kringum húsið. Takk Guðjón.
06.09.2022
Það var létt andrúmsloftið í hátíðasalnum í síðustu viku þegar Grundarbandið mætti aftur eftir að hafa verið í covid hléi. Heimilisfólkið fagnaði því að geta aftur dansað við dunandi harmonikkutóna, trommu- og píanóleik.
05.09.2022
Grundarheimilin fengu nýlega til liðs við sig nýjan starfsmann, Þorbjörgu Árnadóttur, sem er ráðin sem félagsráðgjafi heimilanna þriggja.
Þorbjörg veitir heimilismönnum sálfélagslegan stuðning og ættingjum þeirra og hægt er að leita til hennar og fá ráðgjöf og leiðbeiningar um ýmiskonar réttindamál.
Þorbjörg mun skipta viðveru sinni milli heimila en auðveldast að ná sambandi við hana með tölvupósti eða síma. Netfangið er thorbjorg.arnadottir@morkin.is og sími 8302041.
30.08.2022
Tólfta starfsár Grundarkórsins er hafið og það var vel mætt á fyrstu æfingu vetrarins. Minnum á að allir söngelskir eru hjartanlega velkomnir í kórinn, heimilisfólk, aðstandendur, starfsfólk og aðrir velunnarar Grundar.
23.08.2022
Það var haldin sumarhátíð á Grund í dag af því að veðurspáin lofaði sól og bongóblíðu. Hátíðahöldin voru einnig liður í því að minnast 100 ára afmælis Grundar en heimilið fagnar aldarafmæli þann 29. október næstkomandi. Regína Ósk og Sveinn héldu uppi fjöri með hressum lögum, Jón Ólafur gekk um með nikkuna, boðið var upp á andlitsmálningu og smáfólki var boðið upp á skrautlegar blöðrur og í hoppukastala. Gengið var um með ís, sætindi, safa og gos og síðan gátu ungir gestir farið í kubb eða "húllað". Frábær dagur í garðinum og veðrið lék svo sannarlega við okkur. Takk öll fyrir komuna í dag.
23.08.2022
Í síðustu viku var nýja lyftan á Minni Grund tekin í notkun með viðhöfn. Heimilismaðurinn Eiríkur Jónsson, sem býr á Minni Grund, klippti á borða og síðan var boðið upp á freyðivín og konfekt og auðvitað kaffi og bakkelsi. Jón Ólafur mætti með harmonikkuna og nokkrir gátu ekki á sér setið og tóku nokkur spor.
22.08.2022
Um að gera að mæta á sumarhátíðina á Grund á morgun, þriðjudag. Veðurspáin lofar góðu og ekki leiðinlegt fyrir heimilisfólk að fá aðstandendur í heimsókn og vonandi barna eða barnabarnabörnin líka.
16.08.2022
Það sást til sólar í gær og gleðigjafinn Bjarni að mæta á heimilið. Það var því tilvalið að slá upp hátíð í sólríku portinu, bjóða upp á ís og fallega tóna. Veðrið lék við okkur og allir í essinu sínu. Dásemdar dagur á Grund
09.08.2022
Það var mikið um dýrðir á öllum heimilumum þremur þegar fjölbreytileikanum var fagnað. Fræðsla og fjör og svo var skreytt, fánar dregnir að húni og meira að segja kökurnar litskrúðugar.
08.08.2022
Það er svo skrítið en þegar við syngjum saman þá verður allt svo miklu betra en ella. Söngstundirnar okkar eru alltaf vinsælar þar sem Jón Ólafur spilar á harmonikku öll þessi gömlu góðu og söngurinn ómar um húsið.