Fréttir

100 ára afmæli Garðars og Grundar

Það var hátíðlegt á fjórðu hæðinni í Mörk í gær þegar Garðar Sigurðsson heimilismaður fagnaði 100 ára afmæli. Svo skemmtilega vill til að hann á aldarafmæli sama ár og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Boðið var upp á heitt súkkulaði og rjómatertu á öllum Grundarheimilunum af þessu tilefni. Aðstandendur Garðars og heimilismenn á fjórðu hæðinni fögnuðu með honum, Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna mætti í afmælisboðið, blaðamaður Morgunblaðsins tók við afmælispiltinn viðtal og síðan var spilað á gítar og sungið.

Þorramatur og létt yfir mannskapnum

Það var létt yfir mannskapnum í Mörk í dag enda boðið upp á þorramat og allt sem honum tilheyrir. Svei mér þá ef Covid var ekki bara gleymt og grafið í smástund. Góða helgi

Þorrinn kom siglandi í Mörk

Heimilisfólk í Mörk útbjó þessa skemmtilegu þorraskreytingu sem prýðir anddyri heimilisins. Þorrinn að sigla inn í matsalinn sem á vel við þar sem kræsingarnar þessa dagana hafa borið keim af súrmeti og því sem tilheyrir þessum þjóðlega tíma.

Kæru heimilismenn og aðstandendur

Nú verðum við að taka höndum saman, sem aldrei fyrr, til þess að verja heimilisfólk og starfsfólk smiti. Eftirfarandi reglur gilda frá 21.desember:

Höfðingleg gjöf til Markar

Þessir vösku herramenn frá Oddfellowstúkunni Ara Fróða komu aldeilis færandi hendi í Mörk í vikunni með styrk upp á hálfa milljón til kaupa á þjálfunarhjóli fyrir sjúkraþjálfunina hér í Mörk. Á mynd frá hægri: Daði Ágústsson, fyrrum meistari stúkunnar, Gunnar Magnússon, formaður Líknarsjóðs stúkunnar, Hafliði Hjartarson, stúkubróðir, Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna og Sigurður Geirsson yfirmeistari stúkunnar. Þessum herramönnum er kærlega þakkað fyrir komuna og stúkunni fyrir höfðinglega gjöf.

Glænýjar gulrætur í hús

Þó komið sé fram í desember erum við enn að taka upp gulrætur í gróðurhúsum okkar í Ási í Hveragerði. Það eru því glænýjar gulrætur sem heimilismenn á Grundarheimilunum eru að fá með matnum þessa dagana.

Jólapeysudagur á Grundarheimilunum

Það var jólapeysudagur á Grundarheimilunum í gær og mikið stuð. Heimilismenn dáðust að litskrúðugum peysunum og einstaka áttu sjálfir eitthvað rautt sem þeir skörtuðu starfsfólkinu til samlætis. Góður dagur á Grundarheimilunum þremur, Grund, Mörk og í Ási.

Keli fluttur í Mörk

Hrafnkell Kárason sem bjó á Miðbæ á 2-hæð, lést þann 29. október síðastliðinn. Ekkja hans, Dröfn Jónsdóttir og dóttir hans Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, komu nýlega og gáfu heimilinu þennan yndislega gleðigjafa sem malar og mjálmar. Það er búið að gefa honum nafnið Keli og við hlökkum mikið til að njóta samveru hans. Við færum mæðgunum hjartans þakkir.

Viðurkenningar veittar í Mörk

Fyrir skömmu var haldið árlegt starfsmannakvöld í Mörk þar sem veittar voru starfsaldursviðurkenningar og fyrrum starsmenn heiðraðir. Það er einnig venja að bjóða starfsmönnum að borða saman kvöldverð og spila síðan að lokum um glæsilega bingóvinninga.

Draugagangur í Mörk

Þetta er það sem blasir við þegar fólk kemur í anddyri Markar í dag. Fatnaðurinn í Boggubúð meira að segja með drungalegu ívafi