Fréttir

Gleðigjafi í sjúkraþjálfun Markar

Fura er tæplega tveggja ára labrador tík sem mætir oft til vinnu í sjúkraþjálfun Markar með Heiðrúnu Helgu Snæbjörnsdóttur sjúkraþjálfara. Hún segir að Fura sé enn mikill fjörkálfur og því þurfi að passa vel upp á að hún haldi smá fjarlægð en hún er falleg og róleg ef hún fær ekki of mikla athygli. Heimilisfólkið er hrifið af henni og finnst notalegt að vita af henni.

Fiskidagurinn litli í Mörk

Fiskidagurinn litli var haldinn með pomp og prakt í Mörk. Boðið var upp á dýrindis hráefni frá Dalvík sem kokkarnir okkar matreiddu síðan. Fréttakona frá RÚV mætti og var með beina útsendingu frá viðburðinum og einnig mætti ljósmyndari Morgunblaðsins. Búið var að skreyta allt hátt og lágt með netum, netakúlum, teikningum og allskyns skrauti og tónleikar frá Fiskideginum mikla á Dalvík hljómuðu víða um hús.

Alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum

Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.

Kæru aðstandendur

Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu. Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi. Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar. Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni. Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis. Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. Eru í sóttkví. b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga. d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).

Kettlingar i heimsókn

Heimilisfólkið á 2. hæð í Mörk fékk aldeilis skemmtilega heimsókn í vikunni þegar aðstandandi kíkti við með kettlinga, sem vöktu að sjálfsögðu mikla gleði.

Sumarhátíð Markar

Það ríkti kátína í Mörk í síðustu viku þegar haldin var sumarhátíð í garðinum.Heimilisfólk og aðstandendur gerðu sér glaðan dag með ýmsum hætti. Barnabörnin og barnabarnabörnin skemmtu sér í hoppukastala, boðið var upp á andlitsmálningu, sumir púttuðu og svo bauð heimilisfólkið upp á ís í tilefni dagsins.

Sumarhátíð í Mörk

Heimilishundurinn Naomi

Hella heimilismaður var að fá þetta krútt sem herbergisfélaga. Hún heitir Naomi og er pínu feimin en alveg yndisleg.

Bauð frúnni í hjólatúr

Í mai var haldið hjólanámskeið á vegum Hjólað óháð aldri. Ólafur eiginmaður Hönnu Maju hér í Mörk bauð eiginkonunni í skemmtilega hjólaferð í rigningunni. María og Alda fóru einnig rúnt í garðinum. Áhugasamir aðstandendur um hjólaferðir með heimilisfólki geta nálgast nánari upplýsingar hjá sjúkraþjálfuninni eða í vinnustofu heimilisins.

Hjóluðu 739 kílómetra

Markarliðið í Hjólað í vinnuna lenti í 62.sæti í kílómetrakeppninni Lið Markar hjólaði alls 47 daga og var heildarvegalengd hjá Mörkinni 738.8 km. Markarliðið skipuðu Ragnhildur, Sigríður og Guðrún sem eru á myndinni en á myndina vantar tvo liðsfélaga Líney og Einar.