20.05.2021
Gleðilegt sumar - þið eruð frábær er tilefnið nú þegar forstjóri Grundarheimilanna, Gísli Páll Pálsson, fer á milli heimila og deilda og óskar starfsfólki sínu gleðilegs sumar og býður upp á hressingu. "Það er ekki sjálfgefið að hafa á að skipa jafn frábæru starfsfólki og við höfum á okkar heimilum og svo er komið sumar og sólin skín. Ekki hægt að hugsa sér betra tilefni til að fá sér köku og fagna; segir hann og brosir. Hér er hann ásamt starfsmönnunum Ingibjörgu, Jóhönnu og Dennis.
19.05.2021
Dagbjört og Steinunn Svanborg í Bæjarási fóru með Hnoðra í árlegt eftirlit til dýralæknis á Selfossi. Hnoðri, sem er að verða 12 ára, stóð sig með prýði, var stilltur og heyrðist ekki múkk frá honum. Hann fékk b-vítamín og ormalyf og svo þarf að passa upp á að hann fái nóg að éta því hann hefur aðeins lést.
19.05.2021
Í samráði við sóttvarnaryfirvöld gerum við nú tilslakanir á heimsóknarreglum. Áfram biðjum við gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri.
• Gestir og börn þeirra eru velkomin.
• Gestir dvelja ekki í sameiginlegum rýmum heimilanna eins og borðstofu og setustofu.
• Heimilismönnum er heimilt að fara út af heimilinu, í gönguferðir, í bíltúra og heimsóknir með sínum nánustu en gæta vel að sóttvörnum og spritta hendur við heimkomu.
• Gestir bera grímur, spritta hendur og fara beint inn á herbergi þar sem þeir geta tekið grímuna niður.
Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:
a. Eru í sóttkví en gera má undanþágur vegna lífslokameðferðar eða skyndilegra veikinda.
b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
c. Hafa dvalið erlendis og ekki eru liðnir 14 dagar frá heimkomu. Þetta ákvæði gildir þó ekki um fullbólusetta eða þá sem hafa fengið COVID-19. Eru þeir velkomnir í heimsókn svo fremi sem þeir framvísa gildum vottorðum og gæti vel að handhreinsun.
d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).
Mikilvægt er að hafa í huga að sömu samkomutakmarkanir gilda í Ási og almennt í samfélaginu og höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra.
Í Ási er búið að fullbólusetja allflesta heimilismenn og starfsmenn. Enn á eftir að bólusetja einhverja af vorboðunum okkar ljúfu, starfsmenn sem hófu störf á vormánuðum og eru komnir til að leysa okkur hin af í sumarfríi, ef af líkum lætur fá þau bólusetningu á næstu vikum.
Þó kalt hafi verið í veðri í morgun er sumarið heldur betur farið að minna á sig, trén að laufgast og grasið að grænka. Við sjáum fram á betri tíð eftir langan og erfiðan vetur.
Hjartans þakkir fyrir allt og gleðilegt sumar,
Birna
19.05.2021
Í samráði við sóttvarnaryfirvöld gerum við nú tilslakanir á heimsóknarreglum. Áfram biðjum við gesti að gæta ítrustu árverkni og hafa sóttvarnarráðstafanir í heiðri.
Gestir og börn þeirra eru velkomin.
Gestir dvelja ekki í sameiginlegum rýmum heimilanna eins og borðstofu og setustofu.
Gestir, börn og heimilismenn hjúkrunarheimilisins eru velkomnir í Kaffi Mörk á meðan sætarými leyfir.
Heimilismönnum er heimilt að fara út af heimilinu, í garðinn okkar fallega, í bílferðir og heimsóknir með sínum nánustu.
Gestir bera grímur, spritta hendur og fara beint inn á herbergi þar sem þeir geta tekið grímuna niður.
Aðalinngangur í Mörk er opinn milli kl.8-18.
Mikilvægt er að hafa í huga að sömu samkomutakmarkanir gilda í Mörk og almennt í samfélaginu og höfum hugfast að bólusettir einstaklingar geta smitast af Covid og smitað aðra.
Í Mörk er búið að fullbólusetja allflesta heimilismenn og starfsmenn. Enn er eftir að bólusetja vorboðana okkar ljúfu, starfsmenn sem hófu störf á vormánuðum og eru komnir til að leysa okkur hin af í sumarfrí, ef af líkum lætur fá þau bólusetningu á næstu vikum.
Ég tek heilshugar undir orð Gísla Páls forstjóri Grundarheimilanna það sem hann sagði meðal annars í pistli sínum 30.apríl síðastliðnum að lengsti og erfiðasti vetur á sinni starfsævi væri lokið. En þeir sem þekkja mig vita að ég er bjartsýnismanneskja að eðlisfari og nú horfir til betri tíðar þar sem sumarið er heldur betur farið að minna á sig og framundan er sól og sumarylur.
Hjartans þakkir fyrir allt og gleðilegt sumar,
Ragnhildur
17.05.2021
Í síðustu viku var haldið upp á breytingar sem gerðar hafa verið á annari hæð í austurhúsi Grundar, Þar eru nú komin sex ný einbýli með sér baðherbergjum og búið að rýmka í setustofu og á gangi. Frábærar breytingar sem miða að sjálfsögðu að því að betur fari um heimilismennina.
14.05.2021
Gylfaskýrslan er komin út. Þar kemur margt fróðlegt fram. Meðal annars að til þess að rekstur hjúkrunarheimila árið 2019 hefði verið í jafnvægi hefðu daggjöldin þurft að vera 6,3% hærri en þau voru. Og þá er reyndar búið að taka frá framlag sveitarfélaga til þeirra heimila sem þau reka. Með framlögunum hefði hækkunin ekki þurft að vera svo mikil. En þess ber að geta að sveitarfélögum landsins ber engin skylda til að greiða með rekstri hjúkrunarheimila.
Margir hafa brugðist við niðurstöðum skýrslunnar. Þar á meðal heilbrigðisráðherra. Á síðasta ári þegar vinna við gerð skýrslunnar var í fullum gangi sagði sami ráðherra, og reyndar nær allir þeir stjórnmála- og embættismenn sem tjáðu sig á annað borð, að það væri mjög mikilvægt að fá niðurstöður hennar til að átta sig á því hversu mikið fjármagn vantaði inn í rekstur hjúkrunarheimilanna. Sami ráðherra segir nú, þegar fyrir liggur að það vantar talsvert fjármagn inn í reksturinn að ríkisvaldið (ráðherrann) sé bundið af fjárlögum og það sé ekki hægt að bæta við fjármagni inn í vanfjármagnaðan rekstur hjúkrunarheimilanna. Sérstakt. Einnig bendir ráðherran á nauðsyn þess að huga að skipulagi öldrunarþjónustunnar, bæta í og auka við heimahjúkrun og eyða minni fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila. Hárrétt. Þetta eru reyndar gamlar lummur sem ég hef heyrt oft áður á þeim rúmu 30 árum sem ég hef starfað í öldrunarþjónustunni. Og hingað til hefur því miður oftar en ekki lítið orðið um efndir. En ég tek engu að síður undir þessi orð ráðherra og það er mjög mikilvægt að öllum þeim fjármunum sem varið er til umönnunar aldraðra sé sem best varið, fyrir alla aðila. En breyting á framtíðarfyrirkomulagi öldrunarþjónustu hjálpar ekki hjúkrunarheimilum landsins í núverandi rekstrarvanda.
Tel afar brýnt að sá vandi verður leystur með viðundandi hætti. Samtal milli aðila væri gott fyrsta skref. Búið er að skilgreina hver vandinn er, það kemur fram í skýrslunni góðu. Nú vantar bara góðan vilja ráðamanna landsins til að leysa hann. Hef fulla trú á því að það takist. Fjárlögum ríkisins hefur áður verið breytt af minna tilefni en því að halda rekstri hjúkrunarheimila hér á landi gangandi.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
11.05.2021
Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja
11.05.2021
Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja
30.04.2021
Lengsti og erfiðasti vetur á minni starfsævi er lokið. Vetur kvíða, vetur álags, vetur áhyggna, vetur andvöku en einnig vetur sigurs. Sigurs öldrunarþjónustunnar yfir Covid 19 veirunni. Allt það frábæra starfsfólk öldrunarþjónustu landsins, Grundarheimilanna þar á meðal, lagði á sig feikn mikið og fórnaði sínu hversdagslega lífi til að geta sinnt þeim sem hjá okkur búa. Voru meira og minna í sjálfskipaðri sóttkví síðastliðið ár. Og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Einnig er ég þakklátur því mikla æðruleysi sem heimilisfólkið sýndi í vetur. Auðvitað áttu margir þeirra erfitt og ekki síður aðstandendur þeirra. En með þrautseigju, góðu skipulagi og öllu þessu frábæra starfsfólki tókst okkur að komast í gegnum þessar hörmungar og getum borið höfuðið hátt. Þá sýndu aðstandendur þessum erfiðu aðstæðum skilning og nú er gaman að sjá hversu margir heimsækja sína nánustu. Takmarkanir á heimsóknum á Grundarheimilin eru í lágmarki og hverfa alveg á næstunni.
Framundan er sumar og sól. Hlýja, notalegheit, heimsóknir, lífsgleði, ferðir út í bæ, ferðir á kaffihús, sólbekkjaseta í görðunum okkar og svo mætti lengi telja. Ekki förum við til útlanda á næstunni, í það minnsta ekki fyrri part sumars. Njótum íslenska sumarsins saman og gerum eitthvað skemmtilegt. Bæði í vinnunni og í sumarfríinu langþráða. Að vakna snemma á morgnana, eins og í morgun, og sjá daginn verða til, fuglana vakna og vita og hlakka til þess að þessi dagur verði fallegur og góður. Þvílík tilfinning.
Njótum lífsins saman í sumar
Kveðja og gleðilegt sumar,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
27.04.2021
Stundum mætir Húni í vinnuna með Barböru Ösp Ómarsdóttur og þá er nú hátíð í bæ. Heimilisfólkið elskar Húna og það er svosem gagnkvæmt, hann kann sannarlega að meta athyglina sem hann fær frá heimilisfólki og sýnir sínar bestu hliðar.