26.03.2021
Jónína Bergmann hlaut 1. vinning í páskabingói í austurhúsi Grundar fyrr í vikunni. Henni fannst eggið alltof stórt fyrir sig en Ingibjörg Magnúsdóttir var svo glöð fyrir hönd Jónínu að hún lyfti egginu hátt á loft. Þeir sem ekki fengu páskaeggjavinning fengu engu að síður lítið málsháttaregg.
Sívinsæli Jón Ólafur mætti með harmonikkuna og heimilismenn tóku vel undir sönginn.
26.03.2021
Salome Guðmundsdóttir söngkona og veflistakona kom færandi hendi á Grund á dögunum. Hún gaf V2 afar fallegt handofið sjal og blóm til minningar um söngkennara sinn Guðmundu Elíasdóttur sem bjó á V-2 sín síðustu æviár. Hún lést árið 2015. Á myndinni er Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar, að taka við gjöfinni frá Salome.
26.03.2021
Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að Grund tók til starfa. Upphafið má rekja til ársins 1913 þegar þeir Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, langafi minn, og Páll Jónsson kaupmaður frá Hjarðarholti ræða fátækt og bjargarleysi margra í Reykjavík, sérstaklega þeirra sem eru aldraðir. Þetta er löngu fyrir tíma opinberra framkvæmda í málum sem þessum. Slíkt á sér ekki stað fyrr en um það bil hálfri öld síðar.
En þessir tveir menn leggja af stað, fá að sjálfsögðu fleiri með sér í lið á vettvangi Góðtemplarareglunnar og safna peningum til að gefa börnum og eldra fólki í Reykjavík mat. Í framhaldinu verður til líknarfélagið Samverjinn sem stendur að uppbyggingu Grundar. Sumarið 1921 voru síðan haldnar „gamalmennaskemmtanir“ til að safna fé til kaupa og/eða byggingar á öldrunarheimili. Húsið Grund við Kaplaskjólsveg var síðan keypt árið 1922 og var það vígt 29. október sama ár. Grund við Hringbraut er síðan byggð og tekin í notkun árið 1930.
Í stuttu máli þá var bætt við Grund eftir því sem árin liðu auk nýrra bygginga á því svæði, bæði húsin Minni Grund og Litla Grund til dæmis. Þá tók Grund að sér rekstur á öldrunarheimili í Ási í Hveragerði sumarið 1952. Árið 2010 gerði Grund síðan samning við heilbrigðisyfirvöld um rekstur Markar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbrautina. Samhliða því keypti Grund 78 íbúðir fyrir 60 ára og eldri vestan megin við hjúkrunarheimilið og byggði svo til viðbótar 74 slíkar austan megin árið 2018. Þá byggðum við nýtt þvottahús í Hveragerði árið 2006.
Nú stendur til að fagna þessum merkilegu tímamótum á næsta ári. Stjórn Grundar hefur þegar ákveðið að halda upp á afmælið með ýmiskonar hætti. En okkur vantar fleiri góðar hugmyndir. Hvað finnst ykkur við hæfi að gera við svona stór tímamót sem þessi? Einu slæmu hugmyndirnar eru þær sem aldrei koma fram. Um að gera að senda mér allt skynsamlegt og skemmtilegt sem ykkur dettur í hug takk. Í versta falli þá mun ég brosa, jafnvel hlægja, og það getur nú ekki skaðað neinn. En eflaust fæ á mýgrút af góðum hugmyndum sem við í stjórn Grundar munum moða úr við skipulagningu afmælisins.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
25.03.2021
Ekki voru upplífgandi fréttirnar í gær með aukningu smita í samfélaginu og verðum við að bregðast við. Við minnum á að halda sig heima finni fólk fyrir minnstu einkennum sem gætu bent til Covid smits og fara í sýnatöku. Auðvitað gildir það sama ef fólk er í sóttkví.
Heimilisfólk hefur langflest verið fullbólusett, þó ekki allir og starfsfólk fengið fyrstu bólusetningu en einstaklingar sem eru ekki fullbólusettir geta fengið veiruna og borið hana á milli og verðum við áfram að fara varlega.
Heimsóknartakmarkanir eru eftirfarandi:
*Hjúkrunarheimilinu verður læst þannig að hringja þarf bjöllu til að komast inn. Tilkynna þarf hvern er verið að heimsækja og á Minni og Litlu Grund verður dyravörður og heimsóknir skráðar einsog áður var.
*Óbreyttur heimsóknartími verður eða frá kl.. 13-18
*Einungis 2 gestir mega koma yfir daginn til heimilismanna, þeir mega koma saman eða í sitthvoru lagi. Við gerum ráð fyrir að einungis nánustu aðstandendur komi í heimsókn.
*Börn yngri en 18 ára mega EKKI koma í heimsókn.
*Heimsóknargestir skulu vera með maska, spritta hendur við komu og fara beint inn á herbergi heimilismanns.
*Fara skal styðstu leið inn og út af heimilinu og ekki staldra við til að ræða við starfsfólk. Það skal gert símleiðis.
*Heimsóknargestum er óheimilt að dvelja í sameiginlegum rýmum, eins og setustofum.
*Áfram er heimilt að bjóða heimilismönnum út t.d. í bíltúra en gæta þarft að fjöldatakmörkunum samfélagsins (10 manns) og forðast mannmarga staði. Virða þarf grímuskyldu utan heimilisins.
*Ef heimilsmaður hefur farið út þarf hann að þvo hendur og spritta sig þegar hann kemur inn aftur á heimilið.
*Við hvetjum fólk til að fara út í göngutúra og njóta útiverunnar.
Gætum að persónubundnum sóttvörunum og saman komumst við í gegnum þetta eins og áður
Mússa
25.03.2021
Nú eru blikur á lofti og hópsmit Covid-19 að greinast í samfélaginu. Við erum, eins og þið vitið, búin að fullbólusetja alla heimilismenn og flestir starfsmenn hafa fengið fyrri bólusetningu. Þó er það svo að ekki hafa allir starfsmenn getað þegið bólusetningu af ýmsum ástæðum og er enn ástæða til þess að fara varlega. Það er vert að minna á að þrátt fyrir bólusetningu getur fólk enn smitast af Covid-19 og eins geta bólusettir borið með sér smit. Við biðjum ykkur þess vegna um að fara varlega næstu daga og gæta vel að persónubundnum sóttvörnum. Vinsamlega kynnið ykkur eftirfarandi puntka:
Gætum öll að persónubundnum sóttvörnum.
Á hverjum degi eru leyfðir 2 heimsóknargestir á hvern íbúa á milli kl. 13-18. Við biðjum gesti um að fara beint inn í herbergi til íbúa og dvelja ekki í sameiginlegum rýmum. Gestir bera grímur og spritta hendur við komu.
Við biðjum um að börn, 18 ára og yngri, komi ekki í heimsókn að svo stöddu þar sem mikill fjöldi smita er að greinast í þeirra hópi.
Heimilismenn mega enn fara í heimsóknir út af heimilinu en við biðjum ykkur um að fara varlega og gæta þess að öllum sóttvarnarreglum sé fylgt. Við komu á heimilið aftur er heimilismaður beðinn um að spritta hendur.
Nú gildir enn og aftur að standa saman eins og við erum orðin svo þjálfuð í.
Við gerum þetta saman.
Birna
25.03.2021
Ekki voru upplífgandi fréttirnar í gær með aukningu smita í samfélaginu og verðum við að bregðast við. Við minnum á að halda sig heima finni fólk fyrir minnstu einkennum sem gætu bent til Covid smits og fara í sýnatöku.
Auðvitað gildir það sama ef fólk er í sóttkví.
Heimsóknartakmarkanir eru eftirfarandi:
• Hjúkrunarheimilinu verður læst - hringja þarf bjöllu til að komast inn.
• Óbreyttur heimsóknartími verður eða frá kl. 13-18.
• Einungis 2 gestir mega koma yfir daginn til heimilismanna, þeir mega koma saman eða í sitthvoru lagi. Við biðjum um að einungis nánustu aðstandendur komi í heimsókn.
• Börn yngri en 18 ára mega EKKI koma í heimsókn þar sem mikill fjöldi smita er að greinast í þeirra hópi.
• Heimsóknargestir skulu vera með maska, spritta hendur við komu og fara beint inn á herbergi heimilismanns.
• Fara stystu leið inn og út af heimilinu.
• Heimsóknargestum er óheimilt að dvelja í sameiginlegum rýmum, eins og setustofum og Kaffi Mörk.
• Áfram er heimilt að bjóða heimilismönnum út t.d. í bíltúra en gæta þarf að fjöldatakmörkunum samfélagsins (10 manns) og forðast mannmarga staði.
• Ef heimilsmaður fer út af heimilinu þarf hann að þvo hendur og spritta sig þegar hann kemur inn aftur.
Aukin áhersla er nú lögð á þrif á sameiginlegum snertiflötum innan heimilisins.
Starfsfólk sem er óbólusett og þeir starfsmenn sem þess óska bera áfram maska við störf sín og alltaf þegar verið er að aðstoða óbólusettan heimilismann.
Gætum að persónubundnum sóttvörunum og saman komumst við í gegnum þetta eins og áður.
Bestu kveðjur, Ragnhildur
25.03.2021
Það var nýlega boðið upp á páskabingó í Ási. Veglegir súkkulaðivinningar og frábær stemmning.
24.03.2021
Páskastemningin er allsráðandi á vinnustofu Iðjuþjálfunar í Mörk. Flestir hafa áhuga á að þæfa lítil egg á greinar úr garðinum eða lita páskaegg.
24.03.2021
Það mátti heyra saumnál detta þegar leið á bingóspilið um aðalvinninginn í páskabingóinu á Litlu og Minni Grund sem haldið var nú í vikunni.
22.03.2021
Hvað er notalegra en setjast niður í góðum félagsskap, fá heita bakstra á axlir, hita á hendur og hlusta á fallegt ljóð eða lygna aftur augum og láta hugann reika. Það er nákvæmlega það sem heimiliskonurnar á Grund, Elín Sigríður, Sigurlaug og Þorbjörg Rafnar gerðu, einn morguninn fyrir skömmu.