25.01.2021
Þegar bóndadagur rann upp sl. föstudag sigldi þorraskipið inn í Mörk
22.01.2021
Í vikunni lauk bólusetningu heimilismanna Grundarheimilanna. Til að vörn sé til staðar þurfa að líða um það bil 10 dagar frá seinni bólusetningu, þannig að eftir næstu viku, væntanlega frá og með mánudeginum 1. febrúar verður hægt að minnka þær takmarkanir sem hafa verið á heimsóknum aðstandenda til heimilismanna. Þær breytingar verða kynntar rækilega í lok næstu viku. Ekki verður hægt að hafa allt eins og áður var, því eftir er að bólusetja starfsfólkið. Vonandi verður það gert í apríl eða maí mánuði og þannig fáum við eðlilegt líf á heimilin okkar þrjú í byrjun sumars.
Við sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi höfum í gegnum covid 19 öldusjóinn notið öruggrar forystu þríeykisins góða og starfsmanna þeirra embætta sem þau veita forstöðu og fyrir það ber að þakka með bros á vör. Einnig ber að þakka kærlega fyrir þær bólusetningar sem þegar hafa átt sér stað auk þeirra sem væntanlegar eru út árið. Fumlaus og markviss vinnubrögð heilbrigðisráðherra í nánu samstarfi við Evrópusambandið hefur tryggt okkur yfir milljón skammta af bóluefninu góða, sem dugar til að bólusetja vel rúmlega þjóðina alla. Og sýnist að það verði komið þokkalegt ástand í þjóðfélaginu næsta haust, miðað við fréttir af afhendingu bóluefnisins, sem breytast reyndar dálítið eins og íslenska veðrið. Kannski verður búið að bólusetja meirihluta þjóðarinnar fyrr. Vonandi.
Talandi um Evrópusambandið, þá las ég það í fréttum um daginn að allar þær þjóðir sem ættu aðild að því innkaupafyrirkomulagi sem hjá þeim/okkur gildir, mættu ekki reyna að útvega sér bóluefni fram hjá því samkomulagi. Svo sér maður einnig í fréttum að Þjóðverjar, sem ku vera nokkuð stór þjóð innan Evrópusambandsins og dulítið í forystu þess, hafi engu að síður gert slíka framhjásamninga og tryggt sér bóluefni umfram það sem Evrópusambandið var búið að semja um. Hvurslags græðgi er þetta eiginlega. Svei þeim.
Ég horfi bjartsýnn fram á veginn og vorið og vona að við komum til með að eiga saman ánægjulegt sumar, líklegast með litlum sem engum takmörkunum á heimsóknir til heimilismanna heimilanna okkar þriggja. Það verður nú munur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
19.01.2021
Unnur Jónsdóttir sem býr á Frúargangi hér á Grund hefur verið að dunda sér við að búa til töskur úr afgöngum með aðstoð Valdísar Viðarsdóttur sem starfar í vinnustofunni. Svo fallegar töskur og ekki amalegt ef einhver heppinn fær svona gersemi í afmælis- eða jólagjöf.
15.01.2021
Í dag verður tekið fyrir í Hæstarétti málshöfðun Gundarheimilanna og Hrafnistu gegn ríkinu til greiðslu húsaleigu. Við höfum þegar tapað málinu í héraðsdómi og fyrir Landsrétti en Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir. Sem er í sjálfu sér gott fyrsta skref í að við vonandi höfum sigur að lokum. Ég er þó mátulega bjartsýnn.
Málið snýst um að fyrir húsnæði Grundar og Áss sem er nýtt undir öldrunarþjónustu hefur ríkið neitað að greiða húsaleigu, um það bil 15.000 fermetrar. Í rúmlega 15 ár höfum við reynt að fá ríkið til að greiða sanngjarna leigu án árangurs. Það var því árið 2016 sem við ákváðum að höfða mál á hendur ríkinu, sem eins og áður segir við höfum tapað í tvígang. Fer ekki djúpt í röksemd fyrir þeim dómum en má til með að nefna eina röksemd; að þar sem að við á Grund höfum fengið gjafafé og Hrafnista haft arð af happadrætti, þá sé það í raun í lagi að nýta húsnæðið (allan sólarhringinn, allan ársins hring) af hálfu ríkisins án leigugreiðslna. Það væri svona svipað og ef einhver einstaklingur út í bæ fengi hús í arf frá foreldrum sínum, að þá gæti ríkið nýtt húsnæðið til almannaþjónustu af því að hann hefði ekki þurft að borga fyrir það.
Á sama tíma og ríkið neitar að greiða húsaleigu þá rukkar það einstaka sveitarfélög fyrir afnot þeirra af húsnæði í eigu ríkisins sem sveitarfélagið notar til að veita öldrunarþjónustu. Öldrunarþjónustu sem ríkisvaldið hefur sett lög um að það (ríkisvaldið) skuli veita. Það húsnæði höfum við öll í sameiningu greitt fyrir með sköttunum okkar. Hef á tilfinningunni að jafnræði aðila sé ekki að fullu virt.
Þar sem við höfum þegar tapað málinu tvisvar finnst mér líklegra en ekki að við töpum í þriðja skiptið. En maður veit aldrei. Fari svo ólíklega að við vinnum, þá munu Grundarheimilin hafa úr talsverðu fjármagni að moða við endurbætur húsnæðisins við Hringbrautina og í Hveragerði. Fari aftur svo að við töpum málinu endanlega, þurfum við líklega að endurskoða not húsnæðisins. Það gengur ekki til lengdar að fá ekki greidda húsaleigu til að halda húsnæðinu við og endurbæta það eftir því sem kröfur nútímans segja til um.
Krosslegg fingur.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
14.01.2021
Það vakti mikla lukku þegar Erla ræstingastjóri í Ási kom með litlu ferfætlingana þá Sleipni og Kol í heimsókn í vinnuna
08.01.2021
Gleðilegt nýtt ár !!
Síðasti pistill minn um að vera í vinnunni, ekki símanum, vakti nokkur viðbrögð. Blendin. Sem er ánægjulegt.
Nokkrir voru umræðunni fegnir og tóku heils hugar undir ábendingar þess efnis um nauðsyn þess að taka á málinu. Aðrir voru ósáttir við mínar hugleiðingar og að ég ætti nú barasta ekki að vera með þær á þessum vettvangi. Hvoru tveggja gagnlegar og skemmtilegar ábendingar sem ég fagna og tek til skoðunar ásamt mínu samstarfsfólki.
Ég er svo feginn að við erum ekki öll sammála og þegar ég fæ frá lesendum pistlanna rökstuddar hugleiðingar í framhaldi af pistlasendingunum, verður oft eitthvað gott til úr því. Það væri lítið gagn af skrifum mínum ef ég fengi aldrei viðbrögð og ef allir væru sammála mér. Skiptar skoðanir eru okkur öllum mjög mikilvægar. Dettur í hug ummæli Víðis (hins eina sanna) að hann tæki alla gagnrýni og ábendingar sem betur mætti fara hjá þríeykinu vel. Og þau skoðuðu það allt saman af kostgæfni og skiptu stundum um skoðun ef þeim fannst það rökrétt.
Ég hef einstaka sinnum fengið beiðnir frá einstaklingum um að vera teknir af póstlistanum, sem er alveg sjálfsagt mál og ég læt græja það strax. Önnur leið, ef svo ólíklega vill til að viðkomandi hefur kannski áhuga á innihaldi einhvers pistils síðar, er að eyða honum hið snarasta, tekur um það bil tvær sekúndur.
Heiðarleg skoðanaskipti eru okkur öllum til góðs og hlakka til þeirra á þessu bjarta og fallega ári.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
06.01.2021
Ég óska heimilisfólki og starfsfólki Grundarheimilanna gleðilegs árs og farsældar á nýju ári.
Ég þakka af alhug þá þrautseigju, fórnfýsi, hlýju og kærleika sem þið hafið öll sýnt á þessu sérstaka ári sem nú er liðið.
Við horfum bjartsýn til nýs árs.
Hugheilar kveðjur.
Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna.