Hitabakstrar og vinátta

Hiti á hendur og axlir og frábær félagsskapur. Það er ekki amalegt að byrja daginn svona. Hér eru stöllurnar Emelía, Aðalbjörg, Ingibjörg, Sólbjörg og Villa María að njóta.

Gleðilegt sumar

Heimilisfólkið í Mörk hefur unnið hörðum höndum að þessu fallega sumartré í vinnustofu iðjuþjálfunar. Við þökkum kærlega fyrir veturinn og förum brosandi inn í sumarið.

Spjallað og hlegið í saumaklúbb

Konur hittast og spjalla, deila sögum og ræða um daginn og veginn. Fátt skemmtilegra og oft köllum við þessa kvennafundi, saumaklúbba. Nýlega var efnt til saumaklúbbsstundar á V-2 og V-3 og það var svo sannarlega mikið skrafað og hlegið. Sérrí og makkarónur með kaffinu. Hversu dásamlegt.

Föstudagar eru kjóladagar

Á meðan Covid fárið stóð sem hæst og smitvarnirnar voru í algleymingi sátu þær á spjalli yfir góðum kaffibolla, Hulda Bergrós ritari og heimiliskonurnar Rúrí og Ragna. Talið barst að þessum skrítnu tímum sem við lifum á og hvað það væri mikil synd að eiga öll þessu fínu föt hangandi inn í fataskáp og geta ekki notað þau Hulda Bergrós kom með þá tillögu að þær myndu gera sér dagamun á föstudögum klæða sig upp í kjóla og jafnvel skreyta sig með perlufestum. Þetta gerðu þær stöllur alla föstudaga. Gleðin smitaði út frá sér og t.d. hefur iðjuþjálfunin tekið upp á því að mæta í kjólum á föstudögum.

Góða helgi

Stólaleikfimin nýtur vinsælda á Grund og hér eru það heimilismenn á Vegamótum sem kasta blöðru á milli sín og njóta augnabliksins. Við mætum helginni með bros á vör

Eldgosið

Þann 19. mars síðastliðinn hófst eldgos í Geldingadölum. Hefur ekki farið fram hjá neinum. Gosið er nálægt byggð, og þar að auki höfuðborgarsvæðinu, og því var ljóst frá upphafi að margir myndu leggja leið sína að gosstöðvunum. Björgunarsveitir landsins hafa komið að gæslu, umferðarstýringu, sjúkraflutningum og öðrum þeim verkefnum sem verða til við atburð sem þennan og hef ég notað nokkra sumarfrísdaga mína í að sinna þessum verkefnum. Mjög gaman og gefandi að taka þátt í því. Nú er það svo að þegar slíkir atburðir hafa staðið lengur en 72 klukkustundir þá greiðir ríkið fyrir vinnuframlag björgunarsveitanna. Um er að ræða samning milli Landsbjargar og ríkislögreglustjóra, sem er vel. Miðað er við útseldan tíma lögreglumanns og fyrir tæki er greitt samkvæmt kjörum á almennum markaði. Í þessu eldgosi hafa björgunarsveitir landsins lagt fram mörg þúsund vinnustundir. Bara sveitin mín, Hjálparsveit skáta í Hveragerði hefur lagt fram 431 klukkustund. Grindvíkingar eflaust mörg þúsund og aðrar sveitir eitthvað þar á milli. Við í Hveragerði eigum inni í dag hjá ríkinu um það bil fjórar milljónir króna. En það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Mér skilst að ríkið gefi sér marga mánuði, stundum upp í eitt ár, að greiða kostnað sem þennan til björgunarsveita landsins. Veit ekki af hverju, ætli það sé ekki bara af því bara, þau rök sem maður því miður fær af hendi ríkisvaldsins þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þetta er auðvitað ekki í lagi og ég mun skoða hvað er hægt að gera til að þetta sé ekki með þessum afar einkennilega hætti. Ætli maður fengi ekki tiltal frá skattinum, jafnvel lögfræðilegar innheimtuaðgerðir, ef maður segðist ætla að hinkra með skattgreiðslur sínar í nokkra mánuði, jafnvel eitt ár. Bara svona af því bara, af því að maður væri að nota aurinn í eitthvað annað. Því miður er það svo að það hallar yfirleitt, nánast alltaf, á þann sem á í samskiptum/viðskiptum við ríkið. Af því bara. En þetta þarf auðvitað ekki að vera svona. Við erum ríkið og við erum þau sem byggðum öll þessi kerfi upp. Breytinga er þörf En á jákvæðum nótum í lokin 😊 og afsakið neikvæðnina. Eldgosið er ægifagurt og tignarlegt. Jarðfræðingum finnst það lítið en það er algjörlega þess virði að ganga upp að því á góðum degi. Þessa dagana er mjög kalt. Skyggni misjafnt og gasmengun getur orðið til þess að svæðinu er lokað fyrirvaralaust. Farið og njótið en farið varlega, ég myndi helst ekki vilja hitta ykkur þarna upp frá í einhverri neyð. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Ljúfur páskadagur á Grund

Það var ljúft andrúmsloftið á Grund í morgun og starfsfólk að leggja sig fram um að gera hátíðlegt fyrir páskamáltíðina. Þessar myndir voru teknar á Vegamótum hér á Grund. Í dag verður svo boðið upp á dýrindis rjómatertu með kaffinu. Gleðilega páska

Páskaungar og lituð egg með naglalakki

Krúttlegir páskaungar vöktu mikla lukku í Vesturási nú fyrir páskana. Þá var sett upp hálfgert “tilraunaeldhús” þar sem egg voru skreytt og lituð með laukhýði og naglalakki. Það var bara nokkuð almenn ánægja með útkomuna.

Ný hársnyrtistofa á Grund

Það hefur ýmislegt komið útúr Covid, m.a. ný hársnyrtistofa á Grund. Þegar þurfti að hólfaskipta heimilinu var útbúin aðstaða í vesturhúsi Grundar og hún hefur reynst svo vel að hún er bara komin til að vera. Hér er hún Þórdís með Aðalbjörgu og Maren Kristínu í lagningu.

Páskaeggjabingó í Mörk

Í síðustu viku var haldið páskabingó á öllum hæðum Markar. Eins og sjá má á myndunum var mikil stemning meðal heimilismanna. Vinningshafar voru að vonum hæstánægðir með vinningana sína og enginn fór tómhentur frá borði því allir fengu málsháttaregg.