01.11.2024
Í vikunni var kaffihúsið Kaffi Grund formlega vígt
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að aðstaða til að hittast og spjalla á Grund hafi verið ágæt en verði með þessari viðbót framúrskarandi góð. Það að eiga samskipti við annað fólk er einn mikilvægasti þáttur í góðri heilsu hvers og eins.
„Okkur á Grund finnst hafa tekist feikn vel til með þessa aðstöðu, bæði inni og úti og kemur hún til með að gagnast heimilisfólki, aðstandendum þeirra, starfsmönnum og öðrum gestum um ókomna tíð.
Þó að við séum að vígja þessa fallegu aðstöðu í dag er þannig málum háttað að við getum ekki hafið rekstur kaffihússins strax. Að fá rekstrarleyfi fyrir svona tiltölulega hógværri starfsemi er meira en að segja það. Við höfum um all langt skeið unnið að því að afla viðeigandi leyfa en þau eru því miður ekki komin í hús.
Til að byrja með verður því aðstaðan einungis opin heimilisfólki og aðstandendum þeirra og boðið verður upp á kaffi og kleinur. ☕Vonandi styttist í að við getum opnað kaffihúsið og selt veitingar og þá eru nágrannar okkar í Vesturbænum líka hjartanlega velkomnir.“
Fljótlega í undirbúningsferlinu var ákveðið að fá listaverk í garðinn sem gestir kaffihússins gætu notið. Helgi Gíslason myndhöggvari tók verkið að sér og tengist listaverkið vatni og stendur við kaffihúsið í lítilli tjörn. Minningarsjóður Grundar greiddi fyrir verkið og vill þannig minnast allra þeirra heimilismanna sem dvalið hafa á Grund í 102 ár.
Hönnun var í höndum ASK arkitekta og hönnun garðsins og umhverfis í höndum Landslags.
Kjartan Örn Júlíusson tók myndir við þetta tækifæri.
01.11.2024
Grund fagnaði 102 ára afmæli þann 29. október og af því tilefni var haldið afmælis- og foreldrakaffi í hátíðasal heimilisins tvo daga í röð, í gær og í fyrradag.
Reyndar er talað um afmælis- og foreldrakaffi. Ástæðan er sú að þegar Grund var í byggingu kom Sveinn Jónsson í Völundi á fund stjórnarinnar og gaf peninga í byggingarsjóð en bað um að ávallt yrði haldið upp á brúðkaupsdag foreldra hans. Það hefur verið gert æ síðan og er nú gert í tengslum við afmælið