16.06.2024
Bara svo þið séuð með það alveg á hreinu þá eru það þessi fjögur fræknu sem pakka inn grænmetinu okkar í Ási og passa að það komist í eldhús Grundarheimilanna og í sölu í verslanirnar okkar þrjár. Frá vinstri Alyssa Rós, Rakel Rós, Siggi sæti og Viktor Berg.
14.06.2024
Blómaklúbbur Mörk 60+ fékk að sjálfsögðu líka blóm úr garðyrkjustöðinni í Ási. Þær Sigrún Hjartardóttir, Una Stefanía Sigurðardóttir, Aðalbjörg Ingvarsdóttir og Björg Skarphéðinsdóttir settu niður blóm við garðskálann með góðri hjálp frá Jónasi í Ási og sumarstarfsfólkinu.
14.06.2024
Árlegir sumartónleikar Grundar og Markarkórsins voru haldnir í hátíðasal heimilisins nú í vikunni. Það var vel mætt á þessa notalegu tónleika kóranna en þá skipar heimilisfólk á Grund og í Mörk sem og íbúar hjá Íbúðum 60+. Þá eru nokkrir starfsmenn einnig í kórunum og það má geta þess að aðstandendur eru einnig velkomnir. Kórastarfið hefst að nýju í haust.
14.06.2024
Það er alveg sérstök stemning í Ási þegar sumarblómin úr gróðurhúsunum koma á svæðið. Heimilisfólk kemur og velur sér sumarblóm í potta og ker og svo hjálpast starfsfólk og heimilisfólk að við gróðursetninguna
12.06.2024
Sumir dagar eru aðeins betri en aðrir og þannig var það nú nýlega þegar skellt var í vöfflur og heimilismönnum boðið til veislu. Það er alveg sérstök stemmning sem fylgir þegar boðið er upp á nýbakaðar vöfflur með sultu og rjóma.
12.06.2024
Stundum þarf ekki annað til en að vera bara í stíl og dagurinn verður bjartur og skemmtilegur.😍🥰 Hér eru vinkonurnar Birna, Elín Magnea og Guðmunda hressar og kátar að venju.
11.06.2024
Þá eru sumarblómin komin til okkar beint frá Hveragerði úr gróðurhúsunum okkar. Stúlkurnar í ræstingunni sjá alltaf um að planta blómunum í beðin fyrir framan hjúkrunarheimilið. Það er orðið blómlegt og fallegt í beðunum.
07.06.2024
Starfsfólk og heimilisfólk á 2. hæð í Mörk lætur hráslagalegt veður ekki aftra sér frá að gróðursetja sumarblóm og gera svalirnar huggulegar fyrir sólríka og bjarta daga. Þessi litríku og fallegu blóm koma úr gróðurhúsi Grundarheimilanna í Ási í Hveragerði.
04.06.2024
Lionsklúbburinn Njörður færði heimilinu rausnarlega gjöf á dögunum, fjölþjálfa sem fulltrúar klúbbsins færðu sjúkraþjálfuninni okkar hér í Ási. Fjölþjálfinn á eftir að koma sér vel og nýtast mörgum heimilismönnum. Lionsklúbbnum eru færðar bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf.
03.06.2024
Heimildarmynd sem starfsmaður Grundar og kvikmyndagerðarkonan, Yrsa Þurí Roca Fannberg, á heiðurinn af. Það verður spennandi að sjá hana þegar hún kemur af klippiborðinu og úr hljóðvinnslu.