20.01.2023
Það þarf ekkert endilega skipulagða skemmtidagskrá til að brjóta upp daginn. Stundum nægir bara samvera og sumir kjósa að dunda sér á meðan við prjónaskap, mála kannski, teikna eða lesa. Svo gerir náttúrulega útslagið að fá heitan bakstur á axlirnar.
20.01.2023
Þegar veðrið er ekkert ýkja gott er yndislegt að hlusta á góða sögu og kannski kúra undir teppi líka. Svoleiðis stund á annarri hæðinni í Mörk.
20.01.2023
Flestum okkar finnst sjálfsagt að búa við góða heilsu. Ég hef í það minnsta verið heppinn hingað til og verið heilsuhraustur það sem af er ævi. Minnist þess ekki að hafa legið á sjúkrahúsi eða veikst alvarlega. En það er síður en svo sjálfgefið hjá síðmiðaldra manni eins og mér. Engu að síður getur maður gleymt sér og fundist lífið eitthvað ómögulegt þegar það í raun blasir við manni, fullt af tækifærum og skemmtilegheitum.
Sleit sin í löngutöng um daginn, líklega í flugeldasölunni. Fremsta kjúkan lafði aðeins niður og ég fór ekki strax til læknis. Kíkti á HSU í síðustu viku og fékk þá þessa niðurstöðu með slitnu sinina. Og þar sem ég hafði trassað að láta kíkja á þetta þarf ég að vera með spelku á fingrinum næstu sjö vikurnar. Hefur aðeins takmarkandi áhrif á mig, get til dæmis ekki tekið þátt í björgunarsveitarstörfum af neinu viti fyrr en í mars. Var smá svekktur til að byrja með en var kippt gersamlega niður á jörðina í síðustu viku. Þurfti að fara í verslunina Stoð í Hafnarfirði að kaupa mér aðeins stærri spelku á puttann. Á undan mér í búðinni var ung kona, rúmlega tvítug, mjög líklega með einhvern ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm, var frekar veikburða að sjá. Hún var að fá nýjar hækjur og á hækjurnar var verið að setja færanlegan brodd til að setja niður til notkunar í hálkunni. Síðan var hægt með einu handtaki að setja broddinn til hliðar. Andlit hennar ljómaði yfir því sem hún var að fá og ég heyrði á henni hvað hún var glöð með þetta allt saman, hækjurnar og fiffið sem fólst í því að setja broddinn niður með einu handtaki. Ég dauðskammaðist mín yfir því að hafa dottið í hug að kvarta, reyndar bara innra með mér og við Öldu, vegna þessarar litlu fingurspelku. Ég get verið alveg klikk.
Þarna sá ég hversu lánsamur ég hef verið í gegnum tíðina og hef í raun yfir engu að kvarta. Munum þetta dæmi mitt næst þegar við dettum í einhvern dökkálfagír út af einhverjum smámunum, vondu veðri, óþekkum börnum eða slitnum sinum. Hlutskipti okkar gæti orðið að fagna með bros á vör og þakklæti brodd á hækjum, sem við þyrftum að nota fyrir lífstíð.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
17.01.2023
Reglulega er blásið til samverustundar í setustofunni á þriðju hæð Grundar. Það er engin dagskrá, bara samvera. Sumir prjóna, aðrir lita eða mála, leysa krossgátur eða spjalla bara við sessunauta. Jón Ólafur mætir svo oft með nikkuna og tekur nokkur lög og oftar en ekki fer heimilisfólk að raula með þegar lögin eru kunnugleg. Virkilega notalegar samverustundir.
13.01.2023
Kæru aðstandendur
Heilbrigðisyfirvöld mæla með Covid örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ef liðnir eru 4 mánuðir eða meira frá síðustu bólusetningu.
Í janúar munum við bjóða þeim sem þar sem liðið er meira en 4 mánuðir frá síðustu bólsetningu upp á Covid örvunarbólusetningu.
Við biðjum ykkur um að láta okkur vita eins fljótt og þið getið ef þið eruð alfarið á móti því að ykkar aðstandandi fái örvunarskammt. Best að láta viðkomandi deildarstjóra vita eða senda póst á sigridur@grund.is
13.01.2023
Var að spjalla við eiginkonuna og annan samstarfsmann um daginn. Ég eitthvað smá utan við mig og Alda segir að ég hafi öll einkenni athyglisbrests og ofvirkni. Ég, í alvörunni, hafði aldrei leitt hugann að þessu og brá talsvert. Hef svo sem gert mér grein fyrir því að ég er tiltölulega virkur og þokkalega duglegur að eðlisfari, en hafði aldrei leitt hugann að þessu áður. Fannst einhver veginn að flestir sem hefðu slík einkenni væru á einhvers konar lyfjum eða meðferðum vegna þessa. Og ég hef aldrei tekið nein slík lyf eða spáð í einhvers konar meðferð. Ferlegir fordómar og fáfræði af minni hálfu, en ég viðurkenni það þó, segi nánast alltaf það sem mér finnst.
Á það reyndar til að gleyma hlutum, vaða úr einu í annað, var í eldhúsinu áðan að taka úr uppþvottavélinni, datt þá í hug að sækja kjöt í frystinn niðri fyrir annað kvöld, hætti að taka úr hálfri vélinni, fór niður og tók úr þvottavélinni og setti í þurrkarann og gleymdi að taka kjötið úr frystinum. Týni hlutum tiltölulega auðveldlega, legg þá frá mér í hugsunarleysi og man svo ekkert hvar ég skildi þá eftir. Finn þá stundum nokkrum dögum síðar, eða bara alls ekki. Finn ekki, þrátt fyrir talsverða leit, einhverja hluti sem eru svo beint fyrir framan mig, næ bara ekki einbeitingu í leitinni.
Þegar ég skrifa á lyklaborðið skrifa ég stundum stafi úr næsta eða þarnæsta orði, er kominn á undan mér í huganum og átta mig ekki á því fyrr en ég er í raun kominn í næsta orð, án þess að vera búinn að skrifa orðið sem er á undan.
Er eins og áður sagði frekar ör, snöggur til, og jafnvel hvatvís. Hef þó aðeins, held ég, róast með árunum. Hef þó gengið þokkalega í skóla hingað til en líklega hefði ég verið settur á einhver lyf ef ég hefði fæðst þrjátíu árum síðar.
Líður bara vel með þessa greiningu eiginkonunnar en velti þessum hlutum þó aðeins fyrir mér. Ætla þó ekki að grípa til neinna aðgerða eða leita mér greiningar eða hjálpar. Líkar bara ágætlega við mig eins og ég er. Og líklegast hef ég bara allnokkur einkenni athyglisbrests og ofvirkni, ekki væg. Ég segi bara eins og hálfnafni minn: „Ég er eins og ég er.“
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
10.01.2023
Að venju voru jólin kvödd með pompi og prakt á Ási á þrettándanum. Kristján og félagar héldu uppi fjörinu með harmonikkutónum, jólasveinarnir kíktu í heimsókn og eldhúsið bauð upp góðar veitingar.
06.01.2023
Það er aldrei lognmolla þegar hún Hjördís Geirsdóttir leiðir söng og skemmtir. Hún er líka með frábæra hljómsveit með sér, fjölmarga
úrvals harmonikkuleikara úr Grundarbandinu og píanistann Sigmund Indriða Júlíusson. Þetta er alvöru þrettándaball sem nú stendur yfir í hátíðasal heimilisins þar sem heimilisfólk, aðstandendur og starfsfólk skemmta sér hið besta.
30.12.2022
Enn eitt skemmtilegt, viðburðar- og árangursríkt árið er rétt að renna sitt skeið. Tvennt stendur upp úr í mínum huga. Aldarafmæli Grundar og lok Covid 19 tímabilsins. Þó er óhætt að segja að við erum ekki alveg laus við Covid 19, heldur er það orðið hluti af okkar daglega lífi og ekki nauðsynlegt, í það minnsta ekki eins og er, að tækla smitin af þeirri hörku sem leiddu af sér einangrun heimilismanna og vanlíðanar þeirra, aðstandenda og ekki síður starfsfólks Grundarheimilanna.
Ég hef í fyrri pistlum fjallað um Covid 19, aðgerðir okkar, afleiðingar og læt þar við sitja í bili. Eflaust koma einhverjir aðrir slíkir sjúkdómar aftur sem gera okkur skráveifu, og þá tökum við á því eins og við þekkjum best til.
Hitt atriðið sem ég nefndi hér að framan er 100 ára afmæli Grundar. Ég er afskaplega stoltur og ánægður með hvernig til tókst að minnast þessara merku tímamóta. Það hefur þó líklega ekki hvarflað að langafa mínum Sigurbirni og hans samstarfsmönnum fyrir rúmum hundrað árum að Grund sé og hafi verið sá mikli máttarstólpi í öldrunarþjónustu landsins og raun ber vitni. Grund var fyrstu rúma þrjá áratugina eina alvöru öldrunarstofnun landsins og eftir að Hrafnista tekur til starfa á sjötta áratugnum þá hafa þessi tvö heimili verið tvö þau stærstu í öldrunarbransa landsins.
Það er vandaverk að halda áfram á þeirri góðu braut sem forfeður mínir mörkuðu og auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem þeir höfðu hælana. Framundan eru bjartir tímar og tímar mikilla áskorana í öldrunarþjónustu. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að neytendum öldrunarþjónustu kemur til með að fjölga verulega á næstu árum og áratugum, eitthvað sem margir aðrir atvinnuvegir búa ekki við.
Með pistli þessum vil ég nota tækifærið og þakka heimilisfólki Grundarheimilanna fyrir þrautseigju í Covid 19 faraldri og skilning aðstandenda á þeim aðgerðum sem við gripum til vegna faraldursins. Sérstakar þakkir færi ég öllu starfsfólki Grundarheimilanna fyrir það framúrskarandi góða starf sem þið hafið innt af hendi undir þeim mjög svo erfiðu kringumstæðum sem faraldur síðustu rúmlega tveggja ára hefur valdið okkur. Þið eruð ómetanleg.
Kveðja og gleðilegt nýtt ár,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna