Vikupistlar forstjóra

Kjósum betri útivist

Þessa dagana er hægt að kjósa um ýmis verkefni á vegum borgarinnar. Borgaryfirvöld bjóða íbúum að koma tillögur að betra umhverfi. Einn íbúi íbúðanna við Suðurlandsbrautina kom með þá snilldartillögu að útbúinn verði almenningsgarður á svæðinu norðan Suðurlandsbrautarinnar á móts við íbúðir við 58 – 62 og hjúkrunarheimilið. Garðurinn yrði aðgengilegur öllum, bæði gangandi, í hjólastólum og þeim sem á einhvern hátt annan eiga erfitt með að fara um og nota til þess ýmiskonar hjálpartæki. Þetta svæði, ef af verður, kæmi til með að nýtast öllum íbúum íbúðanna og hjúkrunarheimilisins, starfsmanna, aðstandenda og annarra gesta. Til þess að auka möguleika þess að þetta verði að veruleika þurfum við að kjósa um málið á www.hverfidmitt.is og geta allir fæddir 2006 og fyrr tekið þátt. Allir kjósendur borgarinnar hafa atkvæðisrétt óháð búsetu en ef þú kýst í öðru hverfi en þú býrð í, þá máttu ekki kjósa annars staðar. Það þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða íslykli í lokin til að skila gildu atkvæði. Það er hægt að stjörnumerkja atkvæðið sitt og gefa því þannig tvöfalt vægi. Áhugasemir geta fengið aðstoð hjá Guðrúnu Birnu á skrifstofu GM og ÍEB að Suðurlandsbraut 64 á mánudag og þriðjudag. Þetta er mjög jákvætt mál og hvet ég alla til að kynna sér málið og ef ykkur líst á, að greiða því ykkar atkvæði. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Sonur minn er enginn hommi

hann er fullkominn eins og ég, söng Bubbi Morthens fyrir nokkrum áratugum. Ferlega flottur texti hjá þessum frábæra tónlistarmanni. Hárbeitt ádeila um fordóma margra á þeim tíma í garð samkynhneigðra. Fordóma sem því miður fyrirfinnast enn þann dag í dag, en í talsvert minna mæli en áður. Eitt af því sem hefur slegið á þessa fordóma er þrotlaust starf Samtakanna 78 og svo eru það Hinsegin dagarnir sem hafa verið haldnir frá því um aldamótin. Held að Gleðigangan hafi verið upphafið, eða öfugt, skiptir ekki máli. Við búum í fjölbreyttu samfélagi. Kynhneigð og menning er margskonar. Við erum eins og við erum, tilvitnun í annan frábæran tónlistarmann, Pál Óskar. Sem by the way, ætlar að dvelja á Glitter Grund í ellinni, það tilkynnti hann á tónleikum sínum sem ég sótti með Öldu fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir viðsjárverða tíma þessi misserin þá höldum við á Grundarheimilunum Hinsegin dagana hátíðlega í dag þó við njótum ekki heimsókna á Grund og heimsóknartakmarkana á hinum heimilunum. Við flöggum Regnbogafánanum víða og kokkarnir okkar bjóða upp á litríkt bakkelsi í anda Hinsegin daganna. Þá verður sýnd heimildarmyndin Fjaðrafok sem fjallar um þróun og þroska Gleðigöngunnar. Njótum litríks samfélags saman 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Ótímabærar áhyggjur stjórnvalda

Kristján X konungur Dana og Íslendinga á þeim tíma, undirritaði skipulagsskrá Grundar árið 1925. Samkvæmt henni er sú skylda skýr, að ef einhver hagnaður myndast af starfseminni skuli honum varið til áframhaldandi uppbyggingar heimilisins. Engin heimild er til þess að greiða arð eða verja hagnaði í óskylda starfsemi. Síðan er bráðum liðin heil öld af farsælum rekstri Grundarheimilanna og við þetta ákvæði í skipulagsskránni, sem að mestu leyti hefur verið óbreytt frá upphafi, hefur ávallt verið staðið. Þess vegna hefur umfang starfseminnar vaxið hægt og bítandi. Hin síðustu ár hefur reyndar því miður ekki reynt á skilyrðið um ráðstöfun hagnaðar - taprekstur þorra hjúrunarheimilanna hefur verið viðvarandi árum saman og Grundarheimilin eru þar engin undantekning. Allir finna fyrir þeirri naumhyggju sem einkennir fjárveitingar frá stjórnvöldum enda þótt þau hafi lögboðnar skyldur gagnvart þessari þjónustu við þá elstu og veikustu. Stjórnvöld hafa auglýst eftir aðilum sem taka vilja við rekstri hjúkrunarheimila sem sveitarfélögin hafa gefist upp á að reka áfram vegna lágra daggjalda og viðvarandi tapreksturs. Er það tekið sérstaklega fram að það sé æskilegt að viðkomandi aðilar nálgist verkefnið á félagslegum grunni, t.d. eins og Grund, og að mögulegum hagnaði verði ekki varið í óskyld verkefni. Þegar rekstur og þjónusta hjúkrunarheimilanna er annars vegar geta stjórnvöld þessa dagana fundið sér margt þarfara til að hafa áhyggjur af' en mögulegum hagnaði af rekstri hjúkrunarheimila. Þau gætu t.d. einbeitt sér að lausnum á viðvarandi taprekstri þeirra, menntunarstigi starfsmanna, þjónustustigi og magni umönnunar, óleystra húsnæðismála, afleiðingum af styttingu vinnuvikunnar, löngum biðlistum og áfram mætti lengi telja. Áhyggjur af mögulegri gróðamyndun komast ekki einu sinni á topp tíu listann. Vonandi rennur sú stund engu að síður upp, að ráðstöfun hagnaðar verði á nýjan leik á meðal verkefna stjórnenda hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Til þess þarf mikla viðhorfsbreytingu. Ekki hjá þjóðinni heldur kjörnum fulltrúum hennar á þingi. Hávær umræða í fjölmiðlum og sem betur fer einnig innan veggja Alþingis hefur leitt til þess að örlítið er þessa dagana verið að koma til móts augljósar nauðþurftir hjúkrunarheimilanna. Reynt er að stoppa í götin með fjármagni sem vissulega fleytir rekstrinum áfram um sinn en betur má þó ef duga skal. Langt er í frá, að daggjöld hafi fylgt launaskriði undanfarinna ára, enda þótt launaliðurinn sé um 80% af rekstrarkostnaði. Stytting vinnuvikunnar er nú komin til fullrar framkvæmdar og ljóst er að henni fylgir mikill kostnaðarauki. Við á Grund höfum barist fyrir því í mörg ár að fá greidda eðlilega húsaleigu fyrir það húsnæði sem við leggjum undir hjúkrunarheimili Grundar og Áss, en við því hefur verið daufheyrst með alls kyns undanbrögðum. Við höfum einnig bent á miklar hækkanir á lyfjakostnaði og einnig aukna umönnunarþörf vegna hækkandi aldurs og um leið verri heilsu heimilisfólks okkar. Svo virðist sem það örli á auknum skilningi stjórnvalda á þessum þáttum. Einhvers staðar í enda ganganna virðist því vera örlítil ljóstýra. Það er góð tímasetning þegar haft er í huga að sumarsólstöður, og um leið bjartasti dagur ársins, eru innan fárra daga. Vonandi er að við eigum bæði sólríkt og skilningsríkt sumar framundan og að skammdegið sem grúft hefur yfir hjúkrunarheimilisrekstrinum alltof lengi komi aldrei aftur, enda þótt það sé árvisst að það hausti með haustinu eins og einhver sagði. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Tölum meiri íslensku

Á Grundarheimilunum þremur vinna margir erlendir starfsmenn. Og standa sig mjög vel. Án þeirra værum við í miklum vandræðum með að sinna þeim fjögur hundruð heimilismönnum sem hjá okkur búa. Langflestir tala íslensku, eðlilega mis góða. Allt eftir því hversu lengi hver og einn hefur búið á Íslandi en einnig eftir því hversu mikill áhugi er hjá viðkomandi að tala tungumálið. Ég hef alltaf hvatt alla þá erlendu starfsmenn sem ég hitti og vinna hjá okkur að læra og nota íslenskuna eins fljótt og vel og kostur er. Til að geta átt samskipti og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi er að mínu mati lífsnauðsynlegt að geta talað þokkalega íslensku. Ég er ekki að tala um óaðfinnanlega íslensku með öllum beygingum réttum, nei, bara þannig að hægt sé að eiga samskipti um daglega hluti við heimilisfólkið og annað starfsfólk. Við á Grundarheimilunum höfum í gegnum árin haldið íslenskunámskeið og þá oft í samvinnu við stéttarfélögin. Stéttarfélögin styðja einnig sína félagsmenn til að sækja íslenskunámskeið og greiða allt að 90% af námskeiðsgjaldinu. Við í framkvæmdastjórninni erum að skoða hvaða leiðir eru færar til að efla enn frekar íslenskunám fyrir okkar erlendu starfsmenn. Við sem vinnum með erlendum starfsmönnum dettum eflaust oft í þann þægindagír að tala bara ensku við viðkomandi starfsmann, ef íslenskan er erfið. Það er eitthvað sem mér finnst að við eigum að forðast eins mikið og hægt er. Ef við tölum ekki íslensku, eða í það minnsta bjóðum upp á slíkt, við erlenda samstarfsmenn, þá æfast þeir ekki í íslenskunni. Og það er eitthvað sem er svo mikilvægt fyrir okkur öll, að allir þeir sem vinna á Grundarheimilunum geti og vilji tala íslensku, allra vegna. Gerum okkur öllum stóran greiða, tölum meiri íslensku 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Málþing í gær

Í gær stóðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að málþingi um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila í tilefni af útkomu svo kallaðrar Gylfaskýrslu. Heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna, Gylfi Magnússon fór rækilega yfir niðurstöður skýrslunnar, Haraldur Benediktsson varaformaður fjárlaganefndar og Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar voru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu. Ingibjörg Hjaltadóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun kynnti fyrir fundarmönnum heilsufar og neikvæða þróun þess hjá heimilismönnum hjúkrunarheimila og Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fór yfir málefnið út frá sjónarmiði sveitarfélaganna. Í máli Gylfa kom meðal annars fram að 87% hjúkrunarheimila landsins voru rekin með halla árið 2019 og hefðu daggjöld þurft að hækka á því ári um 6,3% þannig að þau væru réttu megin við núllið. Einnig að nær öll heimilin ættu langt í land með að ná lágmarks umönnunarklukkustundum heimilismanna eins og embætti landlæknis skilgreinir það. Fleira miður gott fylgdi. Engu að síður kom einnig margt gott fram á málþinginu. Meðal annars það að á næstunni verður lagt fram á Alþingi fjáraukafrumvarp sem inniheldur vonandi eitthvað sem skiptir aðildarfélög SFV máli. Fyrir utan vænta hækkun daggjalda vegna styttri vinnutíma vaktavinnufólks, vonast ég til að þess að með þessum auknu tekjum hjúkrunarheimilanna verði fleiri þeirra rekin með afgangi í ár en verið hefur undanfarin misseri. Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin. Áður hefur verið lofað að koma til móts við rekstrarvanda aðildarfélaga SFV, en ekki alltaf staðist, því miður. Tek undir orð heilbrigðisráðherra á þá leið að það þurfi að skoða möguleika þess að nýta sem best það takmarkaða fjármagn sem er til skiptanna við veitingu öldrunarþjónustu. Og þar er ráðherrann að vísa til eins manns nefndarinnar sem Halldór Guðmundsson á Akureyri skipar. Bind miklar vonir við niðurstöðu þeirrar nefndar en það kemur þó ekki til með að bjarga núverandi neyðarástandi hjúkrunarheimilanna. Til þess þarf að grípa til skjótra ráðstafana. Góð orð Haraldar Benediktssonar varaformanns fjárlaganefndar á málþinginu í gær gefa væntingar um að stjórnarmeirihlutinn hafi séð ljósið, og ætli að koma hjúkrunarheimilunum til bjargar. Betra er seint en aldrei. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Bollakökur og fleira

Nú í vikunni fór ég ásamt fulltrúum mannauðsdeildar Grundarheimilanna með bollakökur og appelsín og kók í gleri til þeirra starfsmanna sem voru í vinnunni á Grundarheimilunum þremur. Náðum ekki til alveg allra. Það var gaman að fá að hitta svona marga starfsmenn, eitthvað sem ég hef forðast að gera undanfarið ár vegna Covid 19. Þess utan er ég nú ekki týpan í að vísitera einstaka einingar/heimili Grundarheimilanna bara til að spjalla. Finnst alltaf að ég þurfi að hafa eitthvað erindi, eitthvað að gera. Ekki alveg eins og móðir mín og fyrrum forstjóri Grundar, sem var og er alveg dásamleg í að rölta um heimilið og spjalla við heimilis- og starfsfólkið með sinni alúð og hlýju. En svo er það einhvern veginn þannig, að þegar ég er kominn af stað, þá er þetta bara ferlega skemmtilegt. Og gagnlegt. Maður kynnist alltaf einhverjum nýjum og fær aðra sýn á hitt og þetta í daglegum rekstri heimilanna. Hugmyndin að bollakökunum kom frá mannauðsdeildinni og er hugsuð sem smá þakklætisvottur til starfsmanna Grundarheimilanna fyrir erfiðan en árangursríkan vetur. Mjög flott hugmynd Íris, Dennis og Ingibjörg. En ekki fleiri orð um veturinn, hann er búinn og sólríkt sumarið framundan. Ítreka ég enn og aftur þakklæti mitt til allra starfsmanna Grundarheimilanna sem hafa staðið sig eins og hetjur undanfarin misseri. Heyrði á nokkrum stöðum vangaveltur af hverju heimilisfólkið fengi ekki líka bollakökur. Skiljanlegt. En þessi atburður beindist sem sagt eingöngu að starfsfólkinu í þetta skiptið, það koma önnur tækifæri og aðrir viðburðir til að gleðja heimilisfólkið. Starfsfólkið á þetta svo sannarlega skilið en þar með er ekki sagt að það megi/eigi ekki að gleðja heimilisfólkið, síður en svo. Við notum önnur tækifæri til þess í sumar. Sitthvað fleira stendur til að gera fyrir okkar góða starfsfólk í sumar, kemur í ljós hvað það verður. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Hárrétt hjá heilbrigðisráðherra

Gylfaskýrslan er komin út. Þar kemur margt fróðlegt fram. Meðal annars að til þess að rekstur hjúkrunarheimila árið 2019 hefði verið í jafnvægi hefðu daggjöldin þurft að vera 6,3% hærri en þau voru. Og þá er reyndar búið að taka frá framlag sveitarfélaga til þeirra heimila sem þau reka. Með framlögunum hefði hækkunin ekki þurft að vera svo mikil. En þess ber að geta að sveitarfélögum landsins ber engin skylda til að greiða með rekstri hjúkrunarheimila. Margir hafa brugðist við niðurstöðum skýrslunnar. Þar á meðal heilbrigðisráðherra. Á síðasta ári þegar vinna við gerð skýrslunnar var í fullum gangi sagði sami ráðherra, og reyndar nær allir þeir stjórnmála- og embættismenn sem tjáðu sig á annað borð, að það væri mjög mikilvægt að fá niðurstöður hennar til að átta sig á því hversu mikið fjármagn vantaði inn í rekstur hjúkrunarheimilanna. Sami ráðherra segir nú, þegar fyrir liggur að það vantar talsvert fjármagn inn í reksturinn að ríkisvaldið (ráðherrann) sé bundið af fjárlögum og það sé ekki hægt að bæta við fjármagni inn í vanfjármagnaðan rekstur hjúkrunarheimilanna. Sérstakt. Einnig bendir ráðherran á nauðsyn þess að huga að skipulagi öldrunarþjónustunnar, bæta í og auka við heimahjúkrun og eyða minni fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila. Hárrétt. Þetta eru reyndar gamlar lummur sem ég hef heyrt oft áður á þeim rúmu 30 árum sem ég hef starfað í öldrunarþjónustunni. Og hingað til hefur því miður oftar en ekki lítið orðið um efndir. En ég tek engu að síður undir þessi orð ráðherra og það er mjög mikilvægt að öllum þeim fjármunum sem varið er til umönnunar aldraðra sé sem best varið, fyrir alla aðila. En breyting á framtíðarfyrirkomulagi öldrunarþjónustu hjálpar ekki hjúkrunarheimilum landsins í núverandi rekstrarvanda. Tel afar brýnt að sá vandi verður leystur með viðundandi hætti. Samtal milli aðila væri gott fyrsta skref. Búið er að skilgreina hver vandinn er, það kemur fram í skýrslunni góðu. Nú vantar bara góðan vilja ráðamanna landsins til að leysa hann. Hef fulla trú á því að það takist. Fjárlögum ríkisins hefur áður verið breytt af minna tilefni en því að halda rekstri hjúkrunarheimila hér á landi gangandi. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Gleðilegt sumar

Lengsti og erfiðasti vetur á minni starfsævi er lokið. Vetur kvíða, vetur álags, vetur áhyggna, vetur andvöku en einnig vetur sigurs. Sigurs öldrunarþjónustunnar yfir Covid 19 veirunni. Allt það frábæra starfsfólk öldrunarþjónustu landsins, Grundarheimilanna þar á meðal, lagði á sig feikn mikið og fórnaði sínu hversdagslega lífi til að geta sinnt þeim sem hjá okkur búa. Voru meira og minna í sjálfskipaðri sóttkví síðastliðið ár. Og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Einnig er ég þakklátur því mikla æðruleysi sem heimilisfólkið sýndi í vetur. Auðvitað áttu margir þeirra erfitt og ekki síður aðstandendur þeirra. En með þrautseigju, góðu skipulagi og öllu þessu frábæra starfsfólki tókst okkur að komast í gegnum þessar hörmungar og getum borið höfuðið hátt. Þá sýndu aðstandendur þessum erfiðu aðstæðum skilning og nú er gaman að sjá hversu margir heimsækja sína nánustu. Takmarkanir á heimsóknum á Grundarheimilin eru í lágmarki og hverfa alveg á næstunni. Framundan er sumar og sól. Hlýja, notalegheit, heimsóknir, lífsgleði, ferðir út í bæ, ferðir á kaffihús, sólbekkjaseta í görðunum okkar og svo mætti lengi telja. Ekki förum við til útlanda á næstunni, í það minnsta ekki fyrri part sumars. Njótum íslenska sumarsins saman og gerum eitthvað skemmtilegt. Bæði í vinnunni og í sumarfríinu langþráða. Að vakna snemma á morgnana, eins og í morgun, og sjá daginn verða til, fuglana vakna og vita og hlakka til þess að þessi dagur verði fallegur og góður. Þvílík tilfinning. Njótum lífsins saman í sumar Kveðja og gleðilegt sumar, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Eldgosið

Þann 19. mars síðastliðinn hófst eldgos í Geldingadölum. Hefur ekki farið fram hjá neinum. Gosið er nálægt byggð, og þar að auki höfuðborgarsvæðinu, og því var ljóst frá upphafi að margir myndu leggja leið sína að gosstöðvunum. Björgunarsveitir landsins hafa komið að gæslu, umferðarstýringu, sjúkraflutningum og öðrum þeim verkefnum sem verða til við atburð sem þennan og hef ég notað nokkra sumarfrísdaga mína í að sinna þessum verkefnum. Mjög gaman og gefandi að taka þátt í því. Nú er það svo að þegar slíkir atburðir hafa staðið lengur en 72 klukkustundir þá greiðir ríkið fyrir vinnuframlag björgunarsveitanna. Um er að ræða samning milli Landsbjargar og ríkislögreglustjóra, sem er vel. Miðað er við útseldan tíma lögreglumanns og fyrir tæki er greitt samkvæmt kjörum á almennum markaði. Í þessu eldgosi hafa björgunarsveitir landsins lagt fram mörg þúsund vinnustundir. Bara sveitin mín, Hjálparsveit skáta í Hveragerði hefur lagt fram 431 klukkustund. Grindvíkingar eflaust mörg þúsund og aðrar sveitir eitthvað þar á milli. Við í Hveragerði eigum inni í dag hjá ríkinu um það bil fjórar milljónir króna. En það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Mér skilst að ríkið gefi sér marga mánuði, stundum upp í eitt ár, að greiða kostnað sem þennan til björgunarsveita landsins. Veit ekki af hverju, ætli það sé ekki bara af því bara, þau rök sem maður því miður fær af hendi ríkisvaldsins þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þetta er auðvitað ekki í lagi og ég mun skoða hvað er hægt að gera til að þetta sé ekki með þessum afar einkennilega hætti. Ætli maður fengi ekki tiltal frá skattinum, jafnvel lögfræðilegar innheimtuaðgerðir, ef maður segðist ætla að hinkra með skattgreiðslur sínar í nokkra mánuði, jafnvel eitt ár. Bara svona af því bara, af því að maður væri að nota aurinn í eitthvað annað. Því miður er það svo að það hallar yfirleitt, nánast alltaf, á þann sem á í samskiptum/viðskiptum við ríkið. Af því bara. En þetta þarf auðvitað ekki að vera svona. Við erum ríkið og við erum þau sem byggðum öll þessi kerfi upp. Breytinga er þörf En á jákvæðum nótum í lokin 😊 og afsakið neikvæðnina. Eldgosið er ægifagurt og tignarlegt. Jarðfræðingum finnst það lítið en það er algjörlega þess virði að ganga upp að því á góðum degi. Þessa dagana er mjög kalt. Skyggni misjafnt og gasmengun getur orðið til þess að svæðinu er lokað fyrirvaralaust. Farið og njótið en farið varlega, ég myndi helst ekki vilja hitta ykkur þarna upp frá í einhverri neyð. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

100 ára afmæli – hvað eigum við að gera?

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því að Grund tók til starfa. Upphafið má rekja til ársins 1913 þegar þeir Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, langafi minn, og Páll Jónsson kaupmaður frá Hjarðarholti ræða fátækt og bjargarleysi margra í Reykjavík, sérstaklega þeirra sem eru aldraðir. Þetta er löngu fyrir tíma opinberra framkvæmda í málum sem þessum. Slíkt á sér ekki stað fyrr en um það bil hálfri öld síðar. En þessir tveir menn leggja af stað, fá að sjálfsögðu fleiri með sér í lið á vettvangi Góðtemplarareglunnar og safna peningum til að gefa börnum og eldra fólki í Reykjavík mat. Í framhaldinu verður til líknarfélagið Samverjinn sem stendur að uppbyggingu Grundar. Sumarið 1921 voru síðan haldnar „gamalmennaskemmtanir“ til að safna fé til kaupa og/eða byggingar á öldrunarheimili. Húsið Grund við Kaplaskjólsveg var síðan keypt árið 1922 og var það vígt 29. október sama ár. Grund við Hringbraut er síðan byggð og tekin í notkun árið 1930. Í stuttu máli þá var bætt við Grund eftir því sem árin liðu auk nýrra bygginga á því svæði, bæði húsin Minni Grund og Litla Grund til dæmis. Þá tók Grund að sér rekstur á öldrunarheimili í Ási í Hveragerði sumarið 1952. Árið 2010 gerði Grund síðan samning við heilbrigðisyfirvöld um rekstur Markar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbrautina. Samhliða því keypti Grund 78 íbúðir fyrir 60 ára og eldri vestan megin við hjúkrunarheimilið og byggði svo til viðbótar 74 slíkar austan megin árið 2018. Þá byggðum við nýtt þvottahús í Hveragerði árið 2006. Nú stendur til að fagna þessum merkilegu tímamótum á næsta ári. Stjórn Grundar hefur þegar ákveðið að halda upp á afmælið með ýmiskonar hætti. En okkur vantar fleiri góðar hugmyndir. Hvað finnst ykkur við hæfi að gera við svona stór tímamót sem þessi? Einu slæmu hugmyndirnar eru þær sem aldrei koma fram. Um að gera að senda mér allt skynsamlegt og skemmtilegt sem ykkur dettur í hug takk. Í versta falli þá mun ég brosa, jafnvel hlægja, og það getur nú ekki skaðað neinn. En eflaust fæ á mýgrút af góðum hugmyndum sem við í stjórn Grundar munum moða úr við skipulagningu afmælisins. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna