22.12.2022
Þessir menn tóku daginn snemma með skák.
Magnús Þór 8 ára, sonur Thelmu iðjuþjálfa, kíkti við og lék skák við Björn í Glaumbæ á 2. hæðinni. Þá tók Doddi íþróttafræðingur við og þá var það hraðskák, takk fyrir.
22.12.2022
Grundarbandið kom nýlega til okkar og lék fyrir dansi. Það er alltaf gaman þegar þau gleðja okkur með dúndrandi stuði og notalegri nærveru. Heimilisfólk og starfsfólk hrífst með og svífur um hátíðarsalinn í ljúfum dansi.
21.12.2022
Föstudaginn 9. desember komu íbúar saman í Tónakvöldi í Kaffi Mörk. Jazzkvartett söngkonunnar Steingerðar Þorgilsdóttur kom og flutti ljúfa tóna við góðar undirtektir. Léttar veitingar og drykkir voru á boðstólnum. Viljum við þakka Steingerði og Jazzkvartett félögum hennar kærlega fyrir komuna og dásamlega kvöldstund.
16.12.2022
Það var stemning í Ási þegar keppst var við að skreyta piparkökuhús fyrir keppnina um flottasta piparkökuhúsið. Dómnefndin var skipuð starfsmönnunum Veru Sigurðardóttur, Þresti Helgasyni og Benedikt Sigurbjörssyni. Keppnin var hörð og ekki mörg stig sem skildu að. Jólaþorp hjúkrunar hreppti fyrsta sætið, þá húsið í Ásbyrgi og í þriðja sæti varð húsið í Bæjarási. Þáttakan var frábær við gerð og kynningu húsanna.
16.12.2022
Las fantagóða bók um daginn sem fóstursonur minn Bárður Jens lánaði mér. Við skiptumst dálítið á góðum bókum. Hún heitir „The Stoic Challange, a Philosopher´s guide to becoming tougher, calmer and more resilient.“ Fjallar í stuttu máli hvernig skynsamlegast er að bregðast við áföllum í lífinu. Stórum sem smáum. Höfundurinn, William B. Irvine, er prófessor í heimspeki í Wright háskólanum í Dayton Ohio. Hann hefur stúderað heimspekistefnu sem nefnist Stóustefnan. Sú stefna mótaðist í Aþenu undir lok 4. aldar fyrir Krist.
Ætla ekki út í smáatriði en eins og ég las og skildi bókina þá finnst mér hún vera að hluta til í það minnsta, nánari útfærsla á Æðruleysisbæninni. Hvernig maður tæklar þau áföll og aðstæður sem þeim fylgja dags daglega. Irvine skilgreinir áföllin sem próf Stóaguðanna sem okkur er falið að leysa. Hann tekur reyndar fram að Stóuguðirnir séu ekki til, frekar en aðrir guðir. Það mikilvægasta, til að leysa hvert próf með hæstu einkunn, er hvernig við bregðumst við áfallinu. Margir leita að sökudólgum, öðrum en sjálfum sér. Það sem kom fyrir er öðrum að kenna, ekki mér. Að tapa körfuboltaleik er dómaranum að kenna, ekki að liðið mitt hafi verið lélegra. Þekki þetta sem fyrrum körfuboltadómari.
Með því að líta á öll áföll, allar áskoranir sem verkefni eða próf, og leysa þau af bestu getu, með stóískri ró, líður okkur miklu betur en ella. Það að reiðast eða fara í fýlu ef á móti blæs er auðvitað tóm vitleysa. Auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. Mér fannst ég þó vera heldur á þessari leið Stóumanna en ekki, áður en ég las bókina góðu. Og lífið verður ennþá skemmtilegra og auðveldara að lifa ef maður nálgast þessi lífsviðhorf og fer eftir þeim.
Eitt vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar en það er umfjöllun höfundar um sorgarviðbrögð. Elisabeth Kübler-Ross geðlæknir setti fram kenningu um fimm stig sorgar, afneitun, reiði, viðræðuferli, þunglyndi og sátt. Eflaust margar þýðingar og skilgreiningar til á þessum stigum en læt þessar duga. Stóaheimspekingarnir segja að maður eigi að fara beint í sáttina. Við getum ekkert breytt því að einhver okkur náinn er látinn, við eigum ekki að eyða tíma og orku í hin stigin fjögur. Finnst þetta vera dálítið útópískt og líklega fæstir sem fara beint þangað. En ætla engu að síður að velta þessu aðeins fyrir mér.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
16.12.2022
Jólasveinar kíktu í heimsókn í Mörk í gær og Skjóða kom með þeim. Það var dansað í kringum jólatré og Skjóða sagði skemmtilega sögu. Auðvitað mættu jólasveinarnir með poka og glöddu ungviðið með límmiðum og ávaxtanammi.
09.12.2022
Það er heilmikil vinna fólgin í því að skreyta jólatré í Ási og hér er verið að setja ljós á stórt jólatré .
09.12.2022
Í tilefni af aldarafmæli Grundar fengum við nokkrar fallegar gjafir. Blóm, myndir, veglega peningagjöf og ýmislegt fleira. Það sem stóð upp úr, þó maður eigi nú kannski ekki að gera upp á milli afmælisgjafa lærði ég reyndar sem ungur maður, voru tónleikar sem tryggingafélagið VÍS færði heimilismönnum Grundar.
Tengiliður okkar hjá VÍS hafði samband við mig nokkru fyrir afmælið og spurði hvað okkur finndist um að fá í afmælisgjöf tónleika fyrir heimilisfólk Grundar með góðu tónlistarfólki. Mér leist mjög vel á hugmyndina og enn glaðari varð ég þegar ég heyrði að það var hljómsveitin GÓSS sem spiluðu og sungu fyrir heimilisfólkið þriðjudaginn í síðustu viku. GÓSS skipa þau Guðmundur Óskar, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson.
Fullur hátíðarsalur af heimilisfólki, aðstandendum og starfsmönnum nutu stundarinnar til fullnustu og það var mikið brosað og klappað. Fyrir hönd okkar allra á Grund þakka ég VÍS kærlega fyrir fallega, rausnarlega og nytsamlega gjöf.
Þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu kórum, tónlistarmönnum og hverjum öðrum þeim sem hafa gefið sér tíma og heimsótt Grundarheimilin með sína fallegu afþreyingu. Má þar meðal annars nefna nýleg dæmi eins og Jólakórinn, Laufáskórinn, skólahljómsveit Vesturbæjar, Lúðrasveitina Svan og svo mætti lengi telja. Við á Grundarheimilunum höfum notið menningar- og skemmtiframlags þúsunda í gegnum tíðina og vonandi heldur slíkt áfram um ókomna tíð.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
04.12.2022
Jólakórinn undir stjórn Hildigunnar Einarsdóttur hélt tónleika í hátíðarsal Grundar í gær, laugardaginn 3. desember. Sungin voru jólalög fyrir fullum sal og í lokin voru gestir hvattir til að syngja með Heims um ból. Hátíðleg stund og Jólakórnum er innilega þakkað fyrir frábæra tónleika og að gefa sér tíma til að koma og gleðja fólkið okkar með þessum yndislegu jólatónum.
02.12.2022
Fyrir skömmu kom Ólöf Árnadóttir fulltrúi frá Íslandsbanka færandi hendi, þegar hún afhenti Grund Hlýtt úti hjólastólagalla að gjöf. Hjólastólagallinn er frumkvöðlaverkefni sem Íslandsbanki styður, en gallinn er hlýr og einfaldur í notkun, og gerir heimilisfólki kleift að njóta betur útivistar allan ársins hring.
Við á Grund þökkum Íslandsbanka innilega fyrir þessa hugulsömu gjöf sem mun nýtast heimilisfólki vel í vetur. Gallann má nálgast hjá húsvaktinni.