25.10.2023
Á þriðjudag í næstu viku, 24. október er boðað kvennaverkfall þar sem að konur og kvár eru hvött til að leggja niður störf þann dag. Grundarheimilin eru stór vinnustaður þar sem að konur starfa í miklum meirihluta. Það er ekki hægt annað en styðja við og sýna því skilning að við þurfum að ná lengra í jafnréttisátt, þá hvað okkar geira varðar að ná fram réttlátari launum fyrir okkar störf til samræmis við jafnverðmæt hefðbundin karlastörf. Að vinna á hjúkrunarheimili er erfið vinna og reynir mikið á það frábæra fólk sem að þar starfar bæði líkamlega og ekki síður andlega, óháð kyni. Mældur launamunur kynjana á Grundarheimilunum er nánast enginn og mælingar sýna til skiptis að launamunur sé konum og körlum í vil, en munurinn er það lítill að hann telst ekki marktækur. Launasetning á okkar heimilum byggist að lang mestu leiti á taxtalaunum skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni. Vandamálið er því ekki innanhús hjá okkur heldur er verðmætamat starfanna í samfélaginu ekki réttlátt. Kjarasamningar þeir sem að við störfum eftir fylgja kjarasamningum ríkisins við sömu stéttir, enda fáum við fjármögnun á fjárlögum á grundvelli kostnaðarmats kjarasamninga ríkisins. Við myndum gjarnan vilja sjá hækkanir á þessum launum sem að endurspeglar raunverulegt verðmæti starfanna fyrir samfélagið.
Mikilvægi starfanna hjá okkur er okkur öllum augljós. Einmitt þess vegna er ekki hægt að leggja niður störf allra kvenna og kvára í heilan dag á hjúkrunarheimili, það er óumdeilt og aðstandendur átaksins sýna því skilning. Á okkar heimilum stöndum við öll saman vaktina til klukkan 13 nk. þriðjudag og sýnum samstöðu með þeim sem að geta ekki lagt niður störf allan daginn án þess að stefna öryggi okkar heimilisfólks í hættu. Frá klukkan 13 förum við niður í skilgreinda öryggismönnun á hjúkrunardeildum til þess að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í skipulagðri dagskrá dagsins. Kvöld- og næturvaktir verða fullmannaðar enda er þar um að ræða öryggismönnun. Reikna má með þjónustuskerðingu að einhverju leiti að þessum sökum en reiknað er með að það náist að tryggja öryggi með lágmarksmannskap.
Við öll á Grundarheimilunum styðjum baráttuna og hvetjum stjórnvöld til þess að tryggja það að nauðsynlegar kjarabætur náist fram sem að endurspeglar verðmæti starfanna.
Kveðja og góða helgi
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna
18.10.2023
Í tómstundaherbergjum okkar í Mörk hittist fólk í hverri viku og spilar. Móinn er tómstundarými með spilaborðum og þar er skipulögð spila dagskrá í hverri viku. Á mánudögum kl.13:00 er spiluð vist, á miðvikudögum kl.13:00 er canasta spiluð og á föstudögum kl. 13:00 er bridds spiluð. Allir íbúar sem hafa áhuga eru velkomnir í spilin.
04.10.2023
Framkvæmdir á þriðju hæð í austurhúsi Grundar ganga vel. Þar er verið að útbúa einbýli með snyrtingu.
04.10.2023
Nú er búið að steypa upp alla veggi garðhússins hér á Grund og verið að undirbúa uppsetningu límtrésbita í þakið
29.09.2023
Ekki amalegt að fá svona heimsókn. Hingað stormuðu hressir krakkar frá leikskólanum Sælukoti og fóru um húsið syngjandi kát. Mikið var gaman að fá þessi líflegu og skemmtilegu börn til okkar. Við þökkum starfsfólkinu innilega fyrir að koma með þessa yndislegu gleðigjafa á Grund.
28.09.2023
Um nokkurn tíma hefur rekstur Grundarheimilanna þyngst. Skýringuna má að mestu finna í fækkun heimilisfólks, meðal annars vegna breytinga á húsnæði og vegna þess að rýmin henta síður veikara fólki sem fjölgar ört. Á síðustu árum hefur heimilisfólki í Ási fækkað um 25 og á Grund um 13 (auk tímabundinnar fækkunar vegna framkvæmda). Rekstrarkostnaður ýmissar stoðþjónustu hefur ekki lækkað í sama hlutfalli og þar með geta heimilin ekki staðið undir honum til framtíðar að óbreyttu. Því þarf að ráðast í mjög þungbærar en nauðsynlegar skipulagsbreytingar.
22.09.2023
Í dag fengum við skemmtilega heimsókn í hátíðasal. Tríóið Gadus Morhua hélt tónleika fyrir heimilisfólkið en þar eru á ferð Björk Níelsdóttir, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson. Yfirskrift tónleikanna var Fjárlög í fínum fötum. Samhljómur langspils og barokksellós var útgangspunktur hópsins, en tónlistarsköpunin einskonar baðstofubarrokk, Tónleikarnir voru endurskoðun á Fjárlögunum alkunnu, Íslensku söngvasafni sem kom út á árunum 1915-1916 og lögunum sem hafa verið sungin á nánast hverju heimili í rúmlega öld.
Tríóinu eru færðar bestu þakkir fyrir frábæra tónleika.
22.09.2023
Eitt af því sem að við þurfum stöðugt að vera með í huga á heimilunum okkar er sóun. Manneskjan virðist eiga það sameiginlegt nánast hvar sem er í heiminum að ganga illa um og ekki vera sérlega nýtin. Öll þessi sóun kostar fjármuni sem að gaman væri að nýta í að gera eitthvað skemmtilegt. Við þekkjum öll þetta orð, sóun, en hugsum kannski minna um hvað það nákvæmlega er.
Að hafa skrúfað frá öllum ofnum og opna glugga er sóun. Að hafa kveikt ljós í björtu er sóun. Við getum líka sóað tíma. Tíma einhvers getur verið betur varið í önnur verk og verkefni en hann er akkúrat að sinna. Við getum líka sóað tíma með því að vera föst í ákveðnu verklagi sem að væri hægt að eindfalda. Þetta eru dæmi um sóun sem að við sjáum ekki endilega lenda í ruslinu. Úrgangur og sorp er svo önnur tegund sóunar.
Magn sorps frá heimilunum okkar er um 3 kíló fyrir hvern heimilismann á dag, alla daga ársins. Það eru tæplega 400 þúsund kíló á ári sem að samsvarar um það bil 350 stykkjum af Toyota Aygo bílum, næstum því einn á dag.
Því miður þá er það þannig að sorpið sem að kemur úr okkar starfsemi er að miklu leyti óhjákvæmlilegt vegna eðlis starfseminnar. Við þurfum þó að skoða ýmislegt sem að endar í ruslinu.
Við hendum t.d. of miklum mat á Grundarheimilunum sem er eitthvað sem að við þurfum að skoða og ég kalla eftir aðstoð samstarfsfólksins míns við að finna hvar við getum gert betur þar.
Sérfræðingarnir í dags daglegum störfum innan heimilanna sjá þetta lang best. Sýnum samfélagslega ábyrgð og tökum þátt, ég held að það gæti bara verið skemmtilegt líka ef að við fáum einhverjar góðar hugmyndir.
Kveðja og góða helgi
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna
22.09.2023
Það er margt um að vera hérna í Mörk. Á fimmtudögum kl. 13:30 hittast þeir íbúar sem hafa áhuga á prjónaskap eða öðrum hannyrðum í Mýrinni. Það er hellt upp á kaffi, prjónað og spjallað um allt milli himins og jarðar. Notaleg stund og eru allir íbúar sem hafa áhuga á velkomnir.
21.09.2023
Það er alltaf verið að dytta að á Grund og fegra umhverfið. Hann Toddi hefur unnið lengi á Grund og hann sér um að mála innanhúss þegar á þarf að halda. Hann lætur ekki þar við sitja og málar líka úti þegar þarf. Þessa dagana eru það gluggarnir sem hann er að nostra við og gera fína fyrir veturinn.