20.07.2023
Það stóð til í vikunni að bjóða upp á stólaleikfimi í sólinni sem leikið hefur við okkur undanfarið. En heimilisfólkið afþakkaði pent. Því fannst of heitt úti. Svo leikfimin var færð inn í hús og sumir höfðu bara sólhattana á sér áfram.
14.07.2023
Morgungangan síðasta mánudag var farin í bongóblíðu hér í Ási, alltaf gott að bæta smá D vítamíni í kroppinn.
10.07.2023
Það var "hamingjustund" fyrir lengra komna í Bæjarási í dag. Þar gæddi fólk sér á girnilegum veitingum bæði í fljótandi og föstu formi 🥂 Boðið var upp á dekur í formi andlitsmaska, andlitsnudd og handanudd 🤗…
það er óhætt að segja að fólkið okkar kunni að njóta lífsins ❤️
26.06.2023
Tónlistarmaðurinn Bjarni Hall mætti í Ásbúð nú fyrir helgina og tók nokkur skemmtileg lög með heimilisfólki. Hann tók bæði gömul og nýleg lög og sagði svo skemmtilega frá milli laga. Frábær byrjun á helginni. Takk Bjarni fyrir komuna.
16.06.2023
Starfsfólk eldhúss Grundarheimilanna, sem vinnur í Ás,i mætti í Mörk í morgun og aðstoðaði í eldhúsinu, m.a. stóð það í ströngu við bakstur. Á morgun 17. júní verður nefnilega boðið upp á rjómapönnukökur með kaffinu. Til að allir geti nú gætt sér á þessum þjóðlegu kræsingum, þurfti í morgun að baka 1.200 pönnukökur. Á þjóðhátíðardaginn verður svo boðið upp á hangikjöt með öllu tilheyrandi í hádeginu og ístertu í eftirmat.
14.06.2023
það er hefð fyrir því í Ási að heimilisfólkið sæki sér sumarblóm og setji í ker eða potta nú eða við dyrnar hjá sér. Það er stemning sem fylgir gróðursetningunni, mold í stórum körum og hægt að velja úr allskonar sumarblómum sem eru ræktuð í gróðurhúsum Grundarheimilanna.
14.06.2023
egar það kemur loksins sól og blíða þá grípum við tækifærið í Ási og færum okkur út í góða veðrið. Starfsfólk iðjuþjálfunar lumar á ýmsu til að fást við utandyra en svo er líka bara skemmtilegt að setjast niður í sól og spjalla um lífið og tilveruna.
16.05.2023
Það var Eurovision stemning í Ási fyrir helgina og vakti kátínu þegar boðið var upp á tónlistar bingó með Eurovison lögum. Heimilisfólk söng og dansaði með. Bingóvinningarnir voru í anda dagsins, sætindi og gos.
21.04.2023
Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.
19.04.2023
Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.