16.12.2022
Það var stemning í Ási þegar keppst var við að skreyta piparkökuhús fyrir keppnina um flottasta piparkökuhúsið. Dómnefndin var skipuð starfsmönnunum Veru Sigurðardóttur, Þresti Helgasyni og Benedikt Sigurbjörssyni. Keppnin var hörð og ekki mörg stig sem skildu að. Jólaþorp hjúkrunar hreppti fyrsta sætið, þá húsið í Ásbyrgi og í þriðja sæti varð húsið í Bæjarási. Þáttakan var frábær við gerð og kynningu húsanna.
09.12.2022
Það er heilmikil vinna fólgin í því að skreyta jólatré í Ási og hér er verið að setja ljós á stórt jólatré .
30.11.2022
Í Ási er bíóstjóri, Eðvarð Guðmannsson eða Eddi bílstjóri sem hefur undanfarin ár verið með bíósýningar tvisvar í mánuði og sýnt myndir sem heimilsmenn óska eftir að fá að sjá. Í fyrrakvöld var sýnd myndin Red Heat. Eldhúsið býður alltaf upp á snakk og gos og þetta vekur alltaf mikla lukku, þó svo mætingin sé misjöfn eftir þeirri mynd sem verið er að sýna. Guðrún Lilja átti leið um og smellti mynd af strákunum.
28.11.2022
Í síðustu viku tók heimilisfólk og starfsfólk sig til og útbjó aðventukransa fyrir Ás. Þetta er árlegur siður sem beðið er eftir með tilhlökkun. Útkoman var glæsilega eins og við var að búast.
16.11.2022
Í tilefni aldarafmælis Grundar var gefið út afmælisrit um heimilið, saga Grundar í 100 ár. Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, fór um heimilið og færði heimilismönnum bókina að gjöf auka borðdagatals með gömlum myndum frá Grund. Gísli Páll segir þessar heimsóknir hafa veitt sér gleði og hann er mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til að spjalla við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Hann segir að margir hafi verið afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Gísli Páll segir að það hafi verið notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel á heimilunum.
Það voru feðginin sr. Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R Guðmundsdóttir sem rituðu bókina, Guðmundur Óskar sá um að rita 75 ára sögu heimilisins fyrir aldarfjórðungi og síðan bætti dóttir hans Guðbjörg við 25 árum svo úr varð 100 ára saga heimilisins.
28.10.2022
Öll Grundarheimilin skarta bleiku í ár, í afmælismánuði Grundar sem fagnar aldarafmæli á morgun, laugardaginn 29. október.
14.10.2022
Thelma Hafþórsdóttir Byrd er iðjuþjálfi í Mörk og hér skrifar hún fallega hugleiðingu um fólk og fjársjóði.
03.10.2022
Um þrjátíu starfsmenn Grundarheimilanna sóttu fræðslu sem líknarteymi LSH hélt í síðustu viku í hátíðarsal Grundar. Að auki voru 19 starfsmenn í fjartengingu. Gagnleg og góð fræðsla.
23.09.2022
Það var hátíð á öllum Grundarheimilunum í gær þegar heimiliskonan Sigrún Þorsteinsdóttir fagnaði aldarafmæli sínu. Hún býr á Ási í Hveragerði. Sigrún er einmitt á sama aldri og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Í tilefni dagsins var flaggað á öllum heimilunum, bornar fram marsípantertur og boðið upp á heitt súkkulaði. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna heimsótti Sigrúnu, færði henni blómvönd og spjallaði við afmælisbarnið. Til hamingju elsku Sigrún.