Deildu reynslusögum af ástinni

Það er eitthvað svo dásamlegt við vinnu iðjuþjálfunar í Ási sem ber yfirskriftina Lífsneistinn. Þar er leitast við að bæta andlega líðan og laða fram getu fólks sem virðist horfin. Að þessu sinni var það brúðarþema og þátttakendur deildu reynslusögum af ástinni.

Bleiki dagurinn á Grund

Það er bleikur dagur á Grund eins og á öðrum stöðum í samfélaginu en með því að klæðast bleiku erum við að sýna þeim konum samstöðu sem hafa þurft að kljást við krabbamein. Margir tóku þetta með trompi eins og myndir sýna.

Pissað í skóinn

Fékk símhringingu frá Sjúkratryggingum Íslands, eða heilbrigðisráðuneytinu, man það ekki alveg, fyrir nokkrum vikum. Tilefnið var mjög erfið staða Landspítalans á þá leið að þar dveldu allt of margir aldraðir einstaklingar, sem ættu frekar að búa á hjúkrunarheimili en að eyða síðustu ævidögunum á hátæknisjúkrahúsi. Sem er sko algjörlega satt. En símtalinu fylgdi ótrúleg beiðni. Hvort við gætum ekki bætt við rúmum í einstaklingsherbergi Grundar þannig að það kæmust tveir heimilismenn í eins manns herbergi. Hoppað áratugi aftur í tímann í einu símtali. Og pissað rækilega í báða skóna. Ég trúði varla því sem ég heyrði, en þetta er dagsatt. Við á Grundarheimilunum, á Grund og í Ási, höfum sl. áratugi verið að fækka tvíbýlum og útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi fyrir hvern og einn. Nokkur tvíbýli eru enn á Grund og sömu sögu er að segja úr Ási. Við stefnum að því að þau verði öll úr sögunni á næstu árum. En þarna var sem sagt verið að snúa við jákvæðri og skynsamlegri þróun undanfarinna ára á augabragði. Einhverjir gætu sagt að þetta yrði bara til bráðabirgða og stæði stutt yfir. En lítið til dæmis á Vífilsstaði sem Landspítalinn rekur. Hefðbundnum hjúkrunarheimilisrekstri var hætt þar árið 2010, enda húsnæðið og öll aðstaða allsendis ófullnægjandi til slíks. En viti menn, í lok árs 2013 var opnuð þar biðdeild LSH, til bráðabirgða og er enn rekið sem slík fyrir þá sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu og bíða þess að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þar búa í dag 42 einstaklingar. Átta ára bráðabirgðaúrræði? Hvað ætli langtímaúrræði nái yfir langan tíma? Stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á suðvesturhorni landsins um langt árabil. Reglulega dúkkar upp umræða meðal opinberra aðila um aukna heimahjúkrun og heimaþjónustu, en eins og hingað til eru slík vilyrði því miður frekar á orði en borði. Aukin þjónusta heim er að sjálfsögðu af hinu góða en hún dugar ekki til því aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við þurfum einnig ný hjúkrunarrými. Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og dregur til baka þessar forneskjulegu hugmyndir um að fjölga einstaklingum í þeim herbergjum sem núverandi heimilismenn hjúkrunarheimila búa í í dag. Pissið verður fljótt kalt í skónum. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Dömukaffi á Minni Grund

Það er alltaf notalegt þegar saumaklúbbar eða dömukaffi er á dagskrá hér á Grund. Og allir hlakka til. Hlý og notaleg stund á Minni Grund þar sem spjallað var um heima og geima. Með spjallinu var boðið upp á góðar veitingar.

Mía fékk óskipta athygli heimilismanna

Unnur Oddný er iðjuþjálfanemi í Ási og einn daginn mætti hún með litlu tíkina Míu í vinnuna. Mía fékk óskipta athygli heimilismanna og heillaði auðvitað alla uppúr skónum.

Markmiðið að bæta andlega líðan

Um árabil hefur Fanney Björg Karlsdóttir iðjuþjálfi í Ási leitt fundi þar sem hugmyndafræði lífsneistans er höfð að leiðarljósi við minningavinnu. Upphafskona hugmyndafræðinnar Spark of life er danska konan Jane Varity sem sjálf átti móður með minnissjúkdóm og þróaði starfsemina. Markmiðið með henni er að bæta andlega líðan og laða fram getu fólks sem virðist horfin. Í dag býr Jane í Ástralíu og þar eru höfuðstöðvar Spark of life í dag.

Vel mætt á æfingar Markarkórsins

Vetrarstarf Markarkórsins er farið af stað af fullum krafti og vel mætt á æfingar. Kristín Waage er kórstjóri Markarkórsins og heimilisfólk og starfsfólk hjartanlega velkomið að taka þátt. Æfingar eru haldnar einu sinni í viku, á þriðjudögum, frá 10.30 til 11.30..

Uppfæra netföngin

Til stendur að senda rafræna þjónustukönnun til aðstandenda heimilisfólks á Grundarheimilunum nú í október og mikilvægt að hún komist til skila. Aðstandendur eru því beðnir um að senda á netfangið hér að neðan ef einhverjar breytingar hafa orðið á tölvupóstfangi. Aðstandendur fylla út könnunina og senda rafrænt. Einnig er könnun fyrir heimilisfólkið í sama tölvupósti sem aðstandendur eru beðnir um að fylla út með heimilisfólkinu. Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri fræðslu- og gæðasviðs Grundarheimilanna gefur allar frekari upplýsingar og tekur við upplýsingum um netföng. Netfang Sigríðar er sigridur@grund.is

Réttardagurinn í Ási

Það var góð stemning á réttardeginum í Ási, heimilisfólk kom saman í vinnustofunni Ásbyrgi og horfði á myndina Fjallkóngar. Heimiliskonan Guðrún Jóhanna kom óvænt og bauð upp á köku með rjóma og sultu.

Kjósum betri útivist

Þessa dagana er hægt að kjósa um ýmis verkefni á vegum borgarinnar. Borgaryfirvöld bjóða íbúum að koma tillögur að betra umhverfi. Einn íbúi íbúðanna við Suðurlandsbrautina kom með þá snilldartillögu að útbúinn verði almenningsgarður á svæðinu norðan Suðurlandsbrautarinnar á móts við íbúðir við 58 – 62 og hjúkrunarheimilið. Garðurinn yrði aðgengilegur öllum, bæði gangandi, í hjólastólum og þeim sem á einhvern hátt annan eiga erfitt með að fara um og nota til þess ýmiskonar hjálpartæki. Þetta svæði, ef af verður, kæmi til með að nýtast öllum íbúum íbúðanna og hjúkrunarheimilisins, starfsmanna, aðstandenda og annarra gesta. Til þess að auka möguleika þess að þetta verði að veruleika þurfum við að kjósa um málið á www.hverfidmitt.is og geta allir fæddir 2006 og fyrr tekið þátt. Allir kjósendur borgarinnar hafa atkvæðisrétt óháð búsetu en ef þú kýst í öðru hverfi en þú býrð í, þá máttu ekki kjósa annars staðar. Það þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða íslykli í lokin til að skila gildu atkvæði. Það er hægt að stjörnumerkja atkvæðið sitt og gefa því þannig tvöfalt vægi. Áhugasemir geta fengið aðstoð hjá Guðrúnu Birnu á skrifstofu GM og ÍEB að Suðurlandsbraut 64 á mánudag og þriðjudag. Þetta er mjög jákvætt mál og hvet ég alla til að kynna sér málið og ef ykkur líst á, að greiða því ykkar atkvæði. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna