20.08.2021
Það ríkti tilhlökkun alla vikuna fyrir Fiskideginum litla sem haldinn var nú í fyrsta sinn á Grund. Heimilismenn og starfsfólk skreyttu með úrklippum, blöðrum, veifum, kúlum og baujum. Deildir hér á Grund fengu ný nöfn eins og Lýsuhólar, Síldargata, Rauðmagastræti og svo framvegis. Þá fengum við fiskmeti frá Dalvík, upptökur af tónleikum sem haldnir hafa verið á Fiskideginum mikla á Dalvík og bókina um þessa árlegu skemmtun á Dalvík sem við lásum uppúr.
16.08.2021
Hún Margrét sem býr hér á fjórðu hæðinni í Mörk prjónar gjarnan þegar hún kemur niður í vinnustofu heimilisins. Nýlega varð þessi skemmtilegi ormur til á prjónunum hjá henni.
11.08.2021
Það er um að gera að nýta góða veðrið og heimilismenn á A-2 hér á Grund ákváðu að bregða sér út í garð í gær og þá var auðvitað boðið upp á ís.
06.08.2021
Við í Ási fengum Jón Gnarr til okkar um daginn og hann flutti fyrir okkur Völuspá. Fólkið okkar varð alveg heillað og margir lyngdu aftur augunum og við sáum varir bærast og það var eins og folk kynni þetta og væri að fara með Völuspána með honum. Það skapaðist mikil umræða um þetta dagana á eftir
"Völuspá hefur alltaf verið mér hugleikin frá því að ég var barn" sagði Jón Grann. "Ég hef undanfarið lagt stund á MFA nám í sviðslistafræðum við Listaháskóla íslands og ákvað að gera flutning á völuspá að lokaverkefni. Ég sem lagið sjálfur en hef notið leiðsagnar Hilmars Arnar Agnarssonar organista og stórmúsíkants. Auk hans koma að verkinu Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði og Páll á Húsafelli. Ég vel konungsbókarútgáfu Völuspár og hef notið leiðsagnar Gísla Sigurðssonar prófessors hjá Árnastofnun í meðferð og túlkun textans. Boðskapur völuspár er kyngimagnaður og á jafn vel við í dag og þegar hún var samin. "
Verkið verður formlega flutt í Þjóðminjasafni Íslands 26 ágúst og þá bætast söngkonur og lúðrablásarar í hópinn.
15.07.2021
Það var húsfyllir í nýja matsalnum í Ási fyrir skömmu þegar heimilisfólkið kom þar saman og spilaði bingó.
12.07.2021
Nýlega var haldin sumarhátíð í Ási. Frábær dagur þar sem heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk fögnuðu saman sumri og sól…
Hjónin Unnur Birna Björnsdóttir og Sigurgeir Skafti Flosason glöddu viðstadda með frábærum tónlistarflutningi og söng.
Hoppukastali,ís frá Kjörís, sápukúlur, krikket og kubbur glöddu unga sem aldna.
12.07.2021
Heimilisfólkið á 2. hæð í Mörk fékk aldeilis skemmtilega heimsókn í vikunni þegar aðstandandi kíkti við með kettlinga, sem vöktu að sjálfsögðu mikla gleði.
30.06.2021
Það ríkti kátína í Mörk í síðustu viku þegar haldin var sumarhátíð í garðinum.Heimilisfólk og aðstandendur gerðu sér glaðan dag með ýmsum hætti. Barnabörnin og barnabarnabörnin skemmtu sér í hoppukastala, boðið var upp á andlitsmálningu, sumir púttuðu og svo bauð heimilisfólkið upp á ís í tilefni dagsins.
24.06.2021
Það er ljóst að sumarið er komið í Ási og hvert sem litið er gefur á að líta falleg sumarblóm sem heimilis- og starfsmenn hafa hjálpast að við að gróðursetja….
24.06.2021
Loksins eru þær komnar heim hænurnar sem dvöldu í góðu yfirlæti í vetur í Ásahreppi. Hænurnar eru búsettar í hænsnahöll á lóðinni í Bæjarási í Ási. Það var tekið vel á móti þeim þegar komið var með þær úr sveitinni