Allar fréttir

Gleðilegt sumar frábæra starfsfólk

Gleðilegt sumar - þið eruð frábær er tilefnið nú þegar forstjóri Grundarheimilanna, Gísli Páll Pálsson, fer á milli heimila og deilda og óskar starfsfólki sínu gleðilegs sumar og býður upp á hressingu. "Það er ekki sjálfgefið að hafa á að skipa jafn frábæru starfsfólki og við höfum á okkar heimilum og svo er komið sumar og sólin skín. Ekki hægt að hugsa sér betra tilefni til að fá sér köku og fagna; segir hann og brosir. Hér er hann ásamt starfsmönnunum Ingibjörgu, Jóhönnu og Dennis.

Hnoðri heimsækir dýralækninn

Dagbjört og Steinunn Svanborg í Bæjarási fóru með Hnoðra í árlegt eftirlit til dýralæknis á Selfossi. Hnoðri, sem er að verða 12 ára, stóð sig með prýði, var stilltur og heyrðist ekki múkk frá honum. Hann fékk b-vítamín og ormalyf og svo þarf að passa upp á að hann fái nóg að éta því hann hefur aðeins lést.

Breytingum á A-2 fagnað

Í síðustu viku var haldið upp á breytingar sem gerðar hafa verið á annari hæð í austurhúsi Grundar, Þar eru nú komin sex ný einbýli með sér baðherbergjum og búið að rýmka í setustofu og á gangi. Frábærar breytingar sem miða að sjálfsögðu að því að betur fari um heimilismennina.

Viðtal úr Morgunblaðinu við Jón Ólaf Þorsteinsson.

Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja

Viðtal úr Morgunblaðinu við Jón Ólaf Þorsteinsson.

Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja

Húni mætir í vinnu

Stundum mætir Húni í vinnuna með Barböru Ösp Ómarsdóttur og þá er nú hátíð í bæ. Heimilisfólkið elskar Húna og það er svosem gagnkvæmt, hann kann sannarlega að meta athyglina sem hann fær frá heimilisfólki og sýnir sínar bestu hliðar.

Hitabakstrar og vinátta

Hiti á hendur og axlir og frábær félagsskapur. Það er ekki amalegt að byrja daginn svona. Hér eru stöllurnar Emelía, Aðalbjörg, Ingibjörg, Sólbjörg og Villa María að njóta.

Gleðilegt sumar

Heimilisfólkið í Mörk hefur unnið hörðum höndum að þessu fallega sumartré í vinnustofu iðjuþjálfunar. Við þökkum kærlega fyrir veturinn og förum brosandi inn í sumarið.

Spjallað og hlegið í saumaklúbb

Konur hittast og spjalla, deila sögum og ræða um daginn og veginn. Fátt skemmtilegra og oft köllum við þessa kvennafundi, saumaklúbba. Nýlega var efnt til saumaklúbbsstundar á V-2 og V-3 og það var svo sannarlega mikið skrafað og hlegið. Sérrí og makkarónur með kaffinu. Hversu dásamlegt.

Föstudagar eru kjóladagar

Á meðan Covid fárið stóð sem hæst og smitvarnirnar voru í algleymingi sátu þær á spjalli yfir góðum kaffibolla, Hulda Bergrós ritari og heimiliskonurnar Rúrí og Ragna. Talið barst að þessum skrítnu tímum sem við lifum á og hvað það væri mikil synd að eiga öll þessu fínu föt hangandi inn í fataskáp og geta ekki notað þau Hulda Bergrós kom með þá tillögu að þær myndu gera sér dagamun á föstudögum klæða sig upp í kjóla og jafnvel skreyta sig með perlufestum. Þetta gerðu þær stöllur alla föstudaga. Gleðin smitaði út frá sér og t.d. hefur iðjuþjálfunin tekið upp á því að mæta í kjólum á föstudögum.