Fréttir

Ný hársnyrtistofa á Grund

Það hefur ýmislegt komið útúr Covid, m.a. ný hársnyrtistofa á Grund. Þegar þurfti að hólfaskipta heimilinu var útbúin aðstaða í vesturhúsi Grundar og hún hefur reynst svo vel að hún er bara komin til að vera. Hér er hún Þórdís með Aðalbjörgu og Maren Kristínu í lagningu.

Fannst eggið of stórt fyrir sig

Jónína Bergmann hlaut 1. vinning í páskabingói í austurhúsi Grundar fyrr í vikunni. Henni fannst eggið alltof stórt fyrir sig en Ingibjörg Magnúsdóttir var svo glöð fyrir hönd Jónínu að hún lyfti egginu hátt á loft. Þeir sem ekki fengu páskaeggjavinning fengu engu að síður lítið málsháttaregg. Sívinsæli Jón Ólafur mætti með harmonikkuna og heimilismenn tóku vel undir sönginn.

Falleg gjöf til Grundar

Salome Guðmundsdóttir söngkona og veflistakona kom færandi hendi á Grund á dögunum. Hún gaf V2 afar fallegt handofið sjal og blóm til minningar um söngkennara sinn Guðmundu Elíasdóttur sem bjó á V-2 sín síðustu æviár. Hún lést árið 2015. Á myndinni er Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar, að taka við gjöfinni frá Salome.

Páskabingó á Litlu og Minni Grund

Það mátti heyra saumnál detta þegar leið á bingóspilið um aðalvinninginn í páskabingóinu á Litlu og Minni Grund sem haldið var nú í vikunni.

Njóta augnabliksins

Hvað er notalegra en setjast niður í góðum félagsskap, fá heita bakstra á axlir, hita á hendur og hlusta á fallegt ljóð eða lygna aftur augum og láta hugann reika. Það er nákvæmlega það sem heimiliskonurnar á Grund, Elín Sigríður, Sigurlaug og Þorbjörg Rafnar gerðu, einn morguninn fyrir skömmu.

Grundarkórinn kom saman á ný

Það var ánægjuleg stund þegar allur Grundarkórinn kom saman á æfingu í vikunni en hann hefur ekki hist saman í ár vegna Covid. Kórnum hefur verið skipt niður eftir svokölluðum sóttvarnarhólfum og þeir æft saman sem búa nálægt hver öðrum. Sannkölluð gleðistund.

Rósabingó á Grund

Rósabingó. Hversu skemmtilegt. Það er nákvæmlega það sem þær Valdís og Þórhalla hafa verið að bjóða uppá víðsvegar um Grundina undanfarið. Ilmandi rós í verðlaun þegar maður kallar bingó. Til að toppa stundina hefur Nonni nikka, eins og við köllum hann Jón Ólaf hér á Grund, verið nálægt, með sína ljúfu nærveru og þanið nikkuna við söng heimilisfólksins. Það var svo auðvitað sungið um rósir... nema hvað.

Bollukaffi í góðum selskap

Á bolludaginn hittust nokkrar heimiliskonur í vinnustofunni hjá Þórhöllu, sr. Auði Ingu og Valdísi, gæddu sér á nýbökuðum bollum, kaffisopa og sérrí og ræddu lífsins gang og nauðsynjar eins og gerist ávallt í góðra kvenna hópi. Notaleg stund í skemmtilegum félagsskap.

Ilmurinn er svo lokkandi

Þegar ilmurinn af nýbökuðum vöfflum læðist um gangana á Grund lifnar yfir öllum. Heimilisfólkið á V-2 kunni svo sannarlega að meta það í gær þegar hún sr. Auður Inga mætti með vöfflujárnið og deigið og bakaði með kaffinu.

Fallegar töskur úr afgöngum

Unnur Jónsdóttir sem býr á Frúargangi hér á Grund hefur verið að dunda sér við að búa til töskur úr afgöngum með aðstoð Valdísar Viðarsdóttur sem starfar í vinnustofunni. Svo fallegar töskur og ekki amalegt ef einhver heppinn fær svona gersemi í afmælis- eða jólagjöf.