Allar fréttir

Markmiðið að bæta andlega líðan

Um árabil hefur Fanney Björg Karlsdóttir iðjuþjálfi í Ási leitt fundi þar sem hugmyndafræði lífsneistans er höfð að leiðarljósi við minningavinnu. Upphafskona hugmyndafræðinnar Spark of life er danska konan Jane Varity sem sjálf átti móður með minnissjúkdóm og þróaði starfsemina. Markmiðið með henni er að bæta andlega líðan og laða fram getu fólks sem virðist horfin. Í dag býr Jane í Ástralíu og þar eru höfuðstöðvar Spark of life í dag.

Vel mætt á æfingar Markarkórsins

Vetrarstarf Markarkórsins er farið af stað af fullum krafti og vel mætt á æfingar. Kristín Waage er kórstjóri Markarkórsins og heimilisfólk og starfsfólk hjartanlega velkomið að taka þátt. Æfingar eru haldnar einu sinni í viku, á þriðjudögum, frá 10.30 til 11.30..

Uppfæra netföngin

Til stendur að senda rafræna þjónustukönnun til aðstandenda heimilisfólks á Grundarheimilunum nú í október og mikilvægt að hún komist til skila. Aðstandendur eru því beðnir um að senda á netfangið hér að neðan ef einhverjar breytingar hafa orðið á tölvupóstfangi. Aðstandendur fylla út könnunina og senda rafrænt. Einnig er könnun fyrir heimilisfólkið í sama tölvupósti sem aðstandendur eru beðnir um að fylla út með heimilisfólkinu. Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri fræðslu- og gæðasviðs Grundarheimilanna gefur allar frekari upplýsingar og tekur við upplýsingum um netföng. Netfang Sigríðar er sigridur@grund.is

Réttardagurinn í Ási

Það var góð stemning á réttardeginum í Ási, heimilisfólk kom saman í vinnustofunni Ásbyrgi og horfði á myndina Fjallkóngar. Heimiliskonan Guðrún Jóhanna kom óvænt og bauð upp á köku með rjóma og sultu.

Fimm kennarar í herrakaffinu

Áfram heldur herrakaffið á Grund og nú var slíkt samsæti á boðstólum í austurhúsi Grundar, á vinnustofunni. Heimilismenn byrjuðu á því að segja aðeins frá sér og þá kom á daginn að í þessum litla hópi voru fimm fyrrverandi kennarar, tveir grunnskólakennarar og þrír framhaldsskólakennarar. Var mikið hlegið yfir þessari skemmtilegu tilviljum. Einn þeirra er giftur presti og einn prestur í hópnum, sr. Auður Inga var að aðstoða herrana í samsætinu og kom á daginn að eiginkonan sem var prestur heitir líka Auður. Meðlætið var einstaklega þjóðlegt, flatkökur og kleinur sem rann ljúflega ofan í mannskapinn.

Notaleg stund í Mörk

Þegar laus stund gefst hvað er þá notalegra en að bjóða upp á dekurstund. Einn morguninn nýlega gengum við fram á þessa tvo starfsmenn sem ákváðu að nú væri tími til að bjóða heimiliskonum hárgreiðslu.

Haustæfingar hafnar hjá Grundarkórnum

Það ríkti ánægja í hátíðasalnum nú fyrir helgi þegar Grundarkórinn hittist loksins allur saman á ný eftir að hafa verið hólfaskiptur vegna Covid. Kórfélagar hittast nú vikulega og æfa saman og það má rifja upp að auk heimilismanna þá eru starfsmenn og aðstandendur líka velkomnir.

Það er gott að hafa hlutverk og fá tækifæri til að gefa af sér

Þó árin færist yfir og fólk búi á hjúkrunarheimili þá breytist ekki þörfin fyrir að hafa hlutverk og fá að gefa af sér. Það styttir líka daginn að hafa eitthvað fyrir stafni og vera í góðum félagsskap. Þetta var nákvæmlega það sem heimilisfólkið gerði í dag þegar það pakkaði Heimilispóstinum sem síðan er sendur í pósti til aðstandenda og velunnara Grundarheimilanna. Það var hrein unun að fylgjast með heimilisfólki og starfsfólki hlið við hlið að vinna, ljúfir tónar bárust um matsal Litlu Grundar og síðan var boðið upp á gos og sætindi. Notaleg stund.

Réttardagur á Grund

Það er kominn föstudagur og það er réttardagur á Grund. Við sýnum myndina Fjallkónga og bjóðum upp á þjóðlegar veitingar meðan á sýningu stendur. Hér er það Jón Ólafur sem hitar upp með þjóðlegum tónum áður en farið verður í kjötsúpu nú í hádeginu.

Rollur í forgrunni

Rollur voru í forgrunni á þematorgi sem haldið var á þriðju hæð Grundar í gær fyrir heimilisfólk í vesturhúsi. Þema dagsins var kindarlegar sögur en í því fólst ýmis fróðleikur og spjall um nýtingu á kindum og kindarlegheit í mállýskunni. Sagðar voru sögur af útilegukindum og sveitasöngvar með harmonikkuleik.