Allar fréttir

Vortónleikar Grundar og Markar kóranna

Kórar Grundar og Markar komu saman og héldu vortónleika í hátíðasal Grundar nýverið. Það er frábært að sjá hvað heimilisfólkið nýtur þess að syngja saman í kór og lagavalið endurspeglaði sumarið sem framundan er. Starfsfólk og velunnarar skipa einnig kóra heimilanna og aðstandendur eru hjartanlega velkomnir. Eftir tónleikana var kórunum boðið í kaffisamsæti. Kristín Waage er kórstjóri Grundar og Markar kóranna.

Velkomin á markað í dag

Við minnum á vormarkaðinn okkar sem verður opinn í dag, mánudaginn 22. maí. frá klukkan 11:00 til 15:00. Markaðurinn var opnaður fyrir helgi, síðasta föstudag og meðfylgjandi myndir voru teknar þá. Allur varningur er ókeypis en gott er að hafa með sér poka. Verið hjartanlega velkomin.

Óskilamunir á Grund

Vormarkaður á Grund

Eurovision stemning

Það var Eurovision stemning í Ási fyrir helgina og vakti kátínu þegar boðið var upp á tónlistar bingó með Eurovison lögum. Heimilisfólk söng og dansaði með. Bingóvinningarnir voru í anda dagsins, sætindi og gos.

Leikskólabörn á Grund

Um tólf leikskólabörn af elstu deild á Sælukoti ætla að kíkja reglulega í heimsókn á Grund, spila, föndra, syngja og spjalla við heimilisfólkið. Þau komu í fyrsta sinn í síðustu viku og það er óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel. Það var ýmislegt brallað í hátíðasalnum þennan morgun, farið í boccia, vatnslitað, spjallað og svo var boðið upp á hressingu.

Fyrsta skóflustungan tekin að nýju kaffihúsi

Í dag, þriðjudaginn 2. maí, var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum laufskála sem rísa á í suðurgarði Grundar við Hringbraut. Um er að ræða 100 fermetra kaffihús þar sem heimilismenn og aðrir gestir geta komið og keypt sér veitingar í notalegu umhverfi. Hægt verður að opna kaffihúsið út á sólríkum dögum og njóta veðurblíðu á útikaffihúsi. Þá verður einnig útbúin leikaðstaða fyrir börn. Laufskálinn mun létta yfirbragð þessa fallega og reisulega húss sem Grund er og veita Vesturbæingum gleði en meiningin er að íbúar í hverfinu geti einnig nýtt sér þjónustu kaffihússins. Áformað er að taka kaffihúsið í notkun í kringum næstu áramót. Skóflustunguna tóku frá vinstri Guðrún B. Gísladóttir fyrrverandi forstjóri Grundar til 25 ára, Sigmundur I. Júlíusson heimilismaður og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar.

Stiginn dans í hátíðasal

Það var að venju fjör í hátíðasal heimilisins þegar Grundarbandið mætti í heimsókn til að spila fyrir dansi í vikunni. Þetta eru dásemdar stundir sem allir njóta.

Skólahljómsveitin tók lög úr öllum áttum

Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar kom í heimsókn í gær en hún er skipuð um 40 hljóðfæraleikurum á aldrinum 14 til 18 ára. Lék sveitin lög úr öllum áttum fyrir fullum hátíðasal.

Vinir í sviðaveislu

Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni